Nýlega ákvað Mannréttindadómstóll Evrópu að yfirdeild dómstólsins tæki til lokameðferðar úrskurð sinn um að íslenska ríkið hefði brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu með skipan dómara í Landsrétt; dómsmálaráðherra hefði með ólögmætum hætti tekið miður hæf dómararefni fram yfir hæfustu umsækjendur og þar með væri vegið að réttaröryggi í landinu. Löglega skipaður dómstóll væri ein af grunnstoðum réttarríkisins og sérhver borgari ætti rétt á að slíkur dómstóll fjallaði um mál hans, segir í dómsorðum. Í kjölfarið hafa hinir fjórir miður hæfu Landsréttardómarar ekki þátt í störfum réttarins. Fullkomin óvissa ríkir í réttarkerfi og stjórnmálum landsins.
Nýr dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fagnaði því að yfirdeildin tæki málið til meðferðar og bætti við að dómarar dæmdu sjálfir um sitt hæfi. Hún klykkti út með að segja, „það er kannski eðlilegt að þeir fái tækifæri til að meta stöðuna í ljósi þessarar niðurstöðu. Hæstiréttur hefur auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að þeir eru löglega skipaðir.” (ruv.is, 9. september 2019).
Fullyrðing dómsmálaráðherra er því einfaldlega ósönn.
Vísvitandi upplýsingamengun af þessu tagi er til þess fallin að fela misbeitingu dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins við val á Landsréttardómurum.
Því miður koma viðbrögð nýjasta dómsmálaráðherrans úr röðum Sjálfstæðisflokksins ekki á óvart. Þar á bæ er er löng hefð fyrir að taka flokkshagsmuni fram yfir sjálfstæði dómstóla og réttaröryggi. Staðreyndum er gjarnan snúið á haus; svart skal vera hvítt.
Sjálfstæði Hæstaréttar
Lengst gerði Sjálfstæðisflokkurinn ekki tilkall til að láta flokkshagsmuni ráða við skipan dómara í Hæstarétt. Hæstiréttur varð sjálfstæðari en áður gagnvart Alþingi og ríkisstjórn um og eftir aldamótin 2000 og þá breyttust þau viðhorf.
Hæstiréttur kvað meðal annars upp dóma þar sem ríkið var talið vera bótaskylt vegna ólögmætrar skerðingar á lífeyrisgreiðslum til öryrkja vegna tekna maka. Meirihluti dómara Hæstaréttar (Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason) taldi skerðinguna stangast á við mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Minnihluti Hæstaréttardómaranna (Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein) vildi hins vegar sýkna ríkið af bótakröfunum og töldu hlutverk löggjafarvaldsins en ekki dómstóla að kveða á um inntak og umfang þeirrar opinberru aðstoðar sem öryrkjum væri látin í té.
Athygli vakti að dómarnir þrír í meirihluta voru skipaðir af dómsmálaráðherrum úr öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum en minnihluta dómaranir tveir skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Minnihlutinn gekk þarna í takt við sjónarmið forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem þá sátu í ríkisstjórn og þingmeirihluta.
Til varnar völdum Sjálfstæðisflokksins
Nú þótti mörgum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins að völdum hans væri ógnað. Tvennt var til ráða. Annars vegar hófu forystumenn flokksins hatrammar árásir á „óþæga” dómara og sagt að þeir væru komnir inn á vígvöll stjórnmála en ættu að halda sig innan ramma laga og réttar. Því miður fyrir forystumennina eru Hæstaréttardómarar æviráðnir og virtust ekki taka þessa gagnrýni alvarlega. Þá var eftir skjótvirkara úrræði: Að skipa Hæstaréttardómara sem væru líklegri en önnur dómararefni til að ganga ekki gegn hagsmunum Sjálfstæðisflokksins, lúta tilkallinu um völd flokksins.
Árið 2003 losnaði staða Hæstaréttardómara. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra úr Sjálfstæðisflokki skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson og tók þar með miður hæfan umsækjanda fram yfir aðra hæfari umsækjendur. Með embættaveitingu þessari gekk sjálfur dómsmálaráðherra landsins – samkvæmt áliti Umboðsmanns Alþingis - gegn dómsstólalögum og stjórnsýslulögum Einn hæfari umsækjandi leitaði til kærunefndar jafnréttismála. Nefndin taldi að brotið hefði verið gegn kæranda – Hjördísi Björk Hákonardóttur. Dómsmálaráðherra Björn Bjarnason mótmælti álitinu en viðurkenndi í reynd sök með því veita Hjördísi skaðabætur í formi árslauna frá störfum dómstjóra á fullum launum. Á Alþingi kom ekki fram tillaga um vantraust á ráðherra vegna þessarar geðþóttaákvörðunar og sömuleiðis stóð skipan Ólafs Barkar óhögguð. Af sjónarhóli Sjálfstæðismanna var lokið velheppnaðri aðgerð til varnar völdum flokksins.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vék sæti við þessa skipan Hæstaréttardómara. Samkvæmt tillögu setts dómsmálaráðherra, Geirs H. Haarde fjármálaráðherra úr Sjálfstæðisflokki, var Jón Steinar Gunnlaugsson skipaður dómari við Hæstarétt haustið 2004.
Skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar var að sönnu harðlega gagnrýnd en enginn hæfari umsækjandi leitaði nú til Umboðsmanns Alþingis eða Kærunefndar jafnréttismála. Nú var eins og ríkti vonleysi gagnvart meintu ofríki valdsmanna sem í embættaveitingum virtust hafa eina reglu að leiðarljósi að þeir gætu gert svo sem þeim þóknaðist og létu alla rökstudda gagnrýni sem vind um eyru þjóta. Ekki yrði haggað við embættaveitingum þeirra.
Dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins tókst þannig að koma tveimur miður hæfum dómurum í Hæstarétt. En tilgangurinn helgaði meðalið; flokkshagsmunir skiptu meira máli en grundvallarreglur réttarríkis og að hæfi umsækjenda ráði vali við skipan í opinber störf og embætti.
Brotamaður verður Hæstaréttardómari
Fyrir skipan í Hæstarétt átti Jón Steinar að baki langan feril í lögmennsku og var þekktur fyrir eindreginn málflutning fyrir sína skjólstæðinga. Jón Steinar var til að mynda skipaður verjandi manns sem sakaður var um kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Í Héraðsdómi Reykjavíkur var maðurinn sakfelldur og dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár. Dómurinn var skiptur og taldi einn dómari að sýkna bæri manninn. Þrír dómarar í meirihluta Hæstaréttar snéru við dómi Héraðsdóms og sýknuðu en tveir dómarar í Hæstarétti vildu staðfesta dóm Héraðsdóms.
Eftir dóm Hæstaréttar tók við mikil umræða á opinberum vettvangi um niðurstöðuna. Margir gagnrýndu dóminn harðlega en sumir tóku málstað föðurins og mæltu fyrir réttmæti niðurstöðunnar. Þar gekk fremstur Jón Steinar sem skrifaði blaðagreinar, veitti viðtöl í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi og flutti sérstakt erindi í útvarpi. Stjúpdóttirin höfðaði mál á hendur Jóni Steinari og taldi hann hafa gert á sinn hlut með mörgum ummælum á opinberum vettvangi. Málið fór fyrir Héraðsdóm og síðar til Hæstaréttar. Þar var Jón Steinar dæmdur brotlegur og talinn að ósekju hafa borið stjúpdótturinni á brýn að hún hefði borið fram rangar sakir við lögreglu og dómstóla á hendur föður sínum.
Í dómsorðum Hæstaréttar (Mál Nr.306/2001) sagði m.a.;
„Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, braut góða lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 20. nóvember 1999 til 28. sama mánaðar um mál nr. 286/1999 sem dæmt var í Hæstarétti þann 28 október 1999.
Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, greiði 100.000 kr. Í miskabætur.
Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson greiði 400.000 kr. Í málskostnað sem renni í ríkissjóð.”
Jón Steinar og Sjálfstæðisflokkurinn
Ráðherra Sjálfstæðisflokksins skipti nákvæmlega engu máli að Jón Steinar hafði brotið lög þegar hann var skipaður dómari í æðsta dómstól landsins. Jón Steinar var einfaldlega „einn af okkur”.
Sýn dómsmálaráðherra og ríkisstjórnar
Á 90. ára afmælisdegi Sjálfstæðisflokksins 25. maí 2019 útskýrði fyrrum dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, í Morgunblaðsgrein afstöðu flokksins til skipan dómstóla meðal annars með þessum orðum:
„Það er þannig að á meðan við ákveðum að deila lögunum þurfum við að hafa sjálfdæmi um hver lögin eru og hver setur þau, Það er því gegn öllum rökum að sjálfstæðir einstaklingar í sjálfstæðu ríki lúti fyrirmælum annarra. Þess vegna voru mér það sár vonbrigði að sjá íslensk stjórnmál, fjölmiðla og réttarkerfið falla á kné þegar erlend nefnd sem ekkert umboð hefur frá sjálfstæðum Íslendingum gerði atlögu að dómskerfi okkar Íslendinga.”
Í þessum orðum birtist kjarninn í sýn Sjálfstæðisflokksins á hlutverk dómstóla: Íslensk stjórnvöld eiga að hafa sjálfdæmi til að skammta landsmönnum mannréttindi án aðhalds frá alþjóðlegum sáttmálum. Mannréttindadómstóll Evrópu starfar að mati þessa fyrrverandi dómsmálaráðherra án nokkurs umboðs frá íslenskum stjórnvöldum sem eru í fullum rétti til að láta úrskurði dómstólsins sem vind um eyru þjóta.
Svo virðist sem allir dómsmálaráðherrar úr röðum Sjálfstæðisflokksins deili þessari afstöðu til laga og réttar. Allar ríkisstjórnir með dómsmálaráðherra úr þeim flokki hljóta að styðja þetta sérkennilega sjónarmið, ef ekki í orði þá á borði með því að samþykkja þegjandi túlkanir af þessum toga.
Höfundur er prófessor emiritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.