Ég hef hlustað á margar eldhúsdagsumræður um dagana. Og mér fannst kveða við nýjan tón í þeim sem fram fóru um daginn. Umræðan var laus við upphrópanir og hnútukast – við heyrðum yfirvegaðar ræður studdar góðum og gildum rökum. Því miður verð ég að undanskilja einn þingmann – það kom reyndar ekki á óvart og mun ég fjalla um það hér á eftir í pistlinum.
Helstu ágreiningsmálin eru þau að stjórnarandstaðan vill leggja mun meiri áherslu á að bæta kjör öryrkja og aldraðra og að vinna hraðar að því að draga úr fátækt á Íslandi. Fulltrúar andstöðunnar á þingi bentu á fjármögnunarleiðir til að hrinda þessu í framkvæmd. Að stærstum hluta mætti ná því fram með sanngjörnum veiðigjöldum svo og með auknum sköttum á hátekjufólk.
Ekki dæma hópinn út frá einum manni
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var eini þingmaðurinn sem viðhafði stóryrtar yfirlýsingar og upphrópanir í anda gamla tímans – í anda þeirrar pólitíkur sem flestir vilja þurrka út úr stjórnmálabaráttu dagsins í dag.
SDG sagði að stjórnin væri stofnuð um stóla en ekki stefnu. Ef ég nota sömu aulalegu framsetninguna og SDG þá myndi ég efalaust spyrja: Af hverju ert þú svona fúll SDG – er það af því að þú fékkst ekki stól við borðið? En ég dreg spurninguna til baka. SDG – ég leggst ekki í göturæsið hjá þér.
Fyrir nú utan þessi ómálefnalegu ummæli, þá er ljóst að SDG kann ekki á leitarvélina Google til upplýsingaöflunar á Netinu. Ég leyfi mér að fullyrða að stór hluti nemenda í framhaldsnámi á Íslandi kann að greina á milli hvaða upplýsingar á Netinu eru traustar og hverjar eru kjaftæði. Þegar SDG undirbjó ræðu sína og vildi kanna „bestu og nýjustu“ upplýsingar um umhverfismál, þá datt hann „óvart“ inn á vefsíðu sem haldið er úti af svindlurum og illa menntuðum, óprúttnum „vísindamönnum“. Vefsíðan er fjármögnuð af stórfyrirtækjum sem óttast að þau þurfi að leggja meira fjármagn í að draga úr mengun frá verksmiðjum sínum.
Þegar SGD kom fram á sjónarsviðið í íslenskum stjórnmálum þá fannst mér að um hann blésu nýir og ferskir vindar. Í dag hristi ég bara hausinn.
Gagnrýnislausir og meðvirkir fjölmiðlar
Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á því hve alþingi er lágt skrifað í hugum almennings. Ef einhver þingmaður viðhefur gífuryrði á alþingi þá er hlaupið til og ummælunum er stillt upp sem aðalfrétt dagsins. Ekkert er rætt um hve ósvífin eða ósönn gífuryrðin eru. Nei, það er eins og fréttamennirnir hrífist af ruddaskapnum. Kannski hugsa þeir: Sjáið þið bara hvað hann Jói fékk flott kjaftshögg – en þeir sjá ekki ruddann þar sem hann liggur flatur í gólfinu.
Hvar vinna alþingismenn?
Flestir þingmenn gera sér grein fyrir því að meginstarfið á alþingi er unnið í nefndum þingsins. Þar ræðast menn við í rólegheitum og velta fyrir sér bestu lausnum í þessu málinu eða hinu. Oftast verða allir sammála um að ákveðin lausn sé sú besta í stöðunni. Í miklu færri málum kemur upp ágreiningur og stundum mjög djúpstæður ágreiningur. Það upphefst samt enginn skotgrafahernaður. Þess í stað ræða menn málin og síðan skrifa þeir niður nefndarálit – meirihluta og minnihluta og í mörgum tilfellum verða minnihlutaálitin fleiri en eitt. Að þessu loknu fer málið fyrir þingið; menn skrá sig á ræðulista og svo kemur hver af öðrum í ræðustólinn og skýrir afstöðu sína eða flokksins til málsins. Langflestir nota tímann í ræðustólnum í eðlilega, skýra og fræðandi umræðu. En sumir koma sér fyrir við púltið útbólgnir, reiðir og ósvífnir. Tilgangur þeirra er ekki sá að vinna skoðunum sínum brautargengis – nei – tilgangur þeirra er sá einn að sýna hve klárir þeir eru og betri en samþingsmenn þeirra. Og ekki síst að þeir þori að viðhafa stór og yfirhlaðin orð í ræðustólnum. Oft á tíðum upphefst keppni um það hver geti hrópað hæst.
Frá þessum útbólgnu þingmönnum heyrum við orð og setningar eins og þessar: „Þið eruð morðingjar“, „Þið eruð landráðamenn“ og fleira í þeim dúr. Ef ég lít aftur í tímann þá er það ein setning sem toppaði allt sem ég hef heyrt frá þingmanni: „Þú hefur skítlegt eðli, Davíð!“. Ég var meðlimur í sama stjórnmálaflokki og maðurinn sem sagði þessi orð; ég hoppaði upp af kæti og hrifningu. Loksins var kominn á þing maður sem þorði að tala tæpitungulaust. Í dag átta ég mig á því að umræddur þingmaður lagðist ekki bara í göturæsið – hann skreið ofan í niðurfallið.
Í dag geri ég mér grein fyrir að ég var lítt þroskaður til að taka virkan þátt í pólitískri umræðu á þessum tíma. Ég skrifaði fjölmargar greinar í dagblöð; ég gekk með þingmanninn í maganum, eins og margir; sannfærður um að ég yrði ráðherra á hátindi ferilsins. Ein greinin mín bar heitið: „Þú lýgur, Davíð!“. Hún fjallaði þar um skipulagsmál og úthlutun lóða í Reykjavík – mál sem ég hafði enga þekkingu á. En ég studdist við upplýsingar félaga minna í borgarstjórn Reykjarvíkur. Vinir mínir og félagar máttu vart vatni halda yfir þessari djörfu fyrirsögn: „Þú lýgur, Davíð!“ Nokkrum mánuðum seinna kom í ljós að upplýsingar mínar voru ekki á rökum reistar. Ég lét þess hvergi getið – hvorki í ræðu né riti – að ég hafði ranglega vænt Davíð um lygar. Ég skammaðist mín og ég var ekki maður til að játa að ég hafði farið með fleipur.
Vanhæf siðanefnd
Núverandi siðanefnd sem fjalla á um störf alþingismanna er gjörsamlega gagnslaus. Slík nefnd þarf að vera óháð alþingi. Það er fáránlegt að þingmenn eigi að dæma um athæfi samþingsmanna sinna.
Það voru mikil vægast sagt mistök að dæma orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur – rökstuddur grunur – sem átöluverð. Nefndin hafði ekki dug í sér til að fara að tilmælum Þórhildar og kanna sér hvort þessi rökstuddi grunur væri eðlilegur. Eðlilegast hafði verið að láta rannsaka aksturgreiðslur til allra þingmanna – ekki bara Ásmundur. Niðurstaðan liggur nú ljós fyrir: Stór hluti þjóðarinnar hefur rökstuddan grun um að margir alþingismenn hafi ýmislegt að fela varðandi meðferð sína á almannafé.
Nýr sáttmáli fyrir land og þjóð
Við þurfum að semja og samþykkja nýjan sáttmála sem kveður á um það hvernig við eigum að starfa sem ein þjóð og hvaða vinnubrögðum skuli beitt til að hrinda góðum málum í framkvæmd. Sumir segja að þessi sáttmáli sé nú þegar tilbúinn og samþykktur af þjóðinni; ég vil fullyrða að hann er það ekki; það er mikið verk óunnið. Ný stjórnarskrá er löngu tímabær en við megum ekki láta það ráða för. Núverandi ríkisstjórn hefur lofað okkur gagngerum breytingum á ákvæðum í stjórnarskránni um auðlindamál og náttúruvernd. Látum á það reyna hversu heilladrjúgar breytingarnar verða – áður en við tökum næstu skref.
Eflum virðingu alþingis
Við viljum öll efla virðingu alþingis. Hvaða skoðanir sem við höfum í þjóðmálum.
Við viljum þing sem þjóðin getur verið stolt af.
Við þurfum ábyrga fjölmiðla sem fordæma rökleysur og svívirðingar á alþingi.
Við þurfum óháða, ábyrga og dugandi siðanefnd fyrir alþingi.
Við þurfum að ganga frá nýjum þjóðarsáttmála.
Við viljum þing sem aðrar þjóðir gætu tekið sér til fyrirmyndar.
Hallgrímur Hróðmarsson framhaldsskólakennari.