Lífsskoðun jafnaðarmanns

Sighvatur Björgvinsson skrifar um nýútkomna bók Jóns Baldvins Hannibalssonar, „Tæpitungulaust – lífsskoðun jafnaðarmanns.

Auglýsing

Bókin, sem stefnt var að að gæti komið fyrir almennings sjónir í septembermánuði á s.l. ári, er nú loksins að koma í bókabúðir. Þetta er bók Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem hann nefnir „Tæpitungulaust – lífsskoðun jafnaðarmanns”. Þessi bók, sem spannar mörg og misjöfn viðfangsefni en öll séð frá einu og sama sjónarhorni – sjónarhorni jafnaðarmannsins – er einstakt ritverk. Margir fyrrverandi íslenskir stjórnmálamenn hafa skilið eftir sig ýmsa ævisögutexta – aðallega rakið þá þætti í starfssögu sinni, sem þeir vilja helst halda á lofti. Þessi bók Jóns Baldvins er – eins og heitið bendir til – ekki slík bók. Hún er fyrst og fremst bók um hugmyndir og hugsanasmíð jafnaðarmanns, sem auðvitað tekur mark af hans eigin reynslu og hans eigin viðkynningu af mönnum og málefnum – af hans eigin reynsluheimi. Og auðvitað læra menn af reynslunni. Því hefur dvöl Jóns Baldvins í Bandaríkjunum, viðkynning hans af bandarískum viðhorfum og bandarískum sessunautum, án efa orðið til þess hve ótvíræður stuðningur hans hefur verið við „norræna módelið” eins og hann hefur iðulega gert grein fyrir í greinum og ræðum – og vandlega er rakinn í þessari bók. 

Hans eigin viðkynning og á stundum samvistir með fólki, sem bein kynni hafði af eðli og inntaki Sovétríkjanna eftir nám og dvöl þar, hefur auðvitað haft áhrif á hans mat á hvað olli hruni Sovétríkjanna og hruni kommúnismans, sem einnig er fjallað rækilega um í þessari bók. Þá hafa kynni hans af íslenskum stjórnmálamönnum á vinstri kanti íslenskra stjórnmála, sem margir hverjir voru samferðamenn honum handgengnir, haft áhrif á skoðanir hans á hvers vegna ekki tókst á Íslandi það, sem tókst á öllum öðrum Norðurlöndum - sem sé að efla til áhrifa sterkt stjórnmálaafl jafnaðarmanna þannig að „norræna módelið” gæti risið öðru vísi hér en sem dauf spegilmynd af því, sem verða átti og verða þurfti. Hvernig stóð á því, að kommúnistar og síðari arftakar þeirra urðu sterkara afl á Íslandi en í nágrannalöndum og sósíaldemókratar að sama skapi veikari hér en þar? Að hve miklu leyti liggur sökin hjá sósíaldemókrötum sjálfum – og að hve miklu leyti hjá allt öðru vísi viðhorfum íslenska þjóðarhjartans? Vissulega eru þetta spurningar, sem ættu að vera og eru viðfangsefni jafnaðarmanna – efni, sem jafnaðarmenn þurfa að ræða og eiga að ræða. Það gerir Jón Baldvin Hannibalsson í bókinni sinni. 

Þá ræðir hann um Evrópumálin, um EES samningana og um frelsisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, þar sem hann gegndi lykilhlutverki sem fyrsti stjórnmálaleiðtoginn á Vesturlöndum, sem gekk til liðs við þá frelsishreyfingu. Með baráttu sinni á þeim vettvangi sem og baráttu sinni og sigrum í átökunum um EES hefur Jón Baldvin reist sér bautasteina í íslenskri stjórnmálasögu, sem munu standa. Barátta hans og sigur í EES málinu hefur valdið meiri framförum í íslensku þjóðlífi og stórbættari réttindum alþýðu og neytenda en nokkur önnur gjörð. Til þess að ná því mikilvæga markmiði hafnaði Jón Baldvin því, sem flestir atvinnustjórnmálamenn sækjast hvað mest eftir – stöðu forsætisráðherra – en þótti það ekkert tiltökumál. Varla umræðuvert.

Auglýsing

Í fyrsta kapítula umræddrar bókar, sem ber sama titil og bókin sjálf – Lífsskoðun jafnaðarmanns – rekur Jón Baldvin í nokkrum umfjöllunarefnum hvernig hann öðlaðist þá lífsskoðun. Þar staðnæmist hann m.a. við það, sem hann nefnir „Rauða bæinn” – þ.e. Ísafjörð. Byggðarlagið þar sem við báðir ólumst upp ásamt mörgum fleirum nánum samstarfsmönnum okkar síðar á lífsleiðinni. Það er merkilegt, hve stórt og innbyrðis ólíkt Ísland leit út fyrir að vera á fyrstu áratugum liðinnar aldar. Í Hafnarfirði – nágrannabæ Reykjavíkur – réðu jafnaðarmenn ferðinni þveröfugt við hvernig háttaði til með höfuðstaðinn. Sósíalistar, áður kommúnistar, réðu í Kópavogi, á Siglufirði, á Akureyri og yfirtóku Neskaupstað þar sem jafnaðarmenn höfðu áður farið með ráðin. Á Ísafirði réðu Alþýðuflokksmenn einir framan af og síðan í samstarfi við aðra en í því samstarfi ávallt langstærsti flokkurinn. Stærstan hluta skýringarinnar á þessu hlýtur auðvitað að vera eð leita til þeirra einstaklinga, sem fyrir fóru í hverju bæjarfélaganna. Til manna eins og Einars Olgeirssonar og Lúðvíks Jósefssonar á Akureyri og í Neskaupstað – og til forystumanna eins og Finns Jónssonar, Guðmundar Hagalín, Vilmundar Jónssonar og Hannibals á Ísafirði svo nokkrir séu nefndir. Í mínu minni eru þeir líka svo miklu fleiri. Pétur Sigurðsson, Karítas Pálsdóttir, Gunnar Jónsson, Stefán Stefánsson (sem Jón talar um í bók sinni), Páll Sigurðsson og Fríða, eiginkona hans, Daníel Sigmundsson og Jón, Sigurður bakari, Snorri Hermannsson og Auður, Marías Þ. Guðmundsson og Guðmundur bróðir hans, Ketill Guðmundsson, Grímur Kristgeirsson, Guðmundur Bjarnason…….. aðeins fáir einir taldir, sem koma strax upp í hugann. Margir fleiri, sem nefna má – og nefna hefði átt. 

Þarna var mikið og öflugt samfélag jafnaðarmanna sem hafði áhrif á bæði þá, sem á Ísafirði bjuggu og ólust upp – og á samtíð sína. Það var því ekki undarlegt í mínum huga, þó helmingurinn af 10 manna þingflokki Alþýðuflokksins drjúgan tíma veru minnar á Alþingi væru Ísfirðingar eða ísfirskrar ættar. Jón Baldvin, Jón Sigurðsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Árni Gunnarsson auk þess, sem þetta skrifar. Við bættist svo Ólafur Ragnar Grímsson, sonur Gríms Kristgeirssonar, þó í öðrum stjórnmálaflokki væri og auk þess tveir aðrir Ísfirðingar, þeir Matthías Bjarnason og Sverrir Hermannsson. „Rauði bærinn” lét því til sín taka á Alþingi, þó þar væri ekki nema mikill meirihluti Ísfirðinganna rauður – eins og bærinn. Frá Ísafirði kom líka fyrsti formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvinsson, en hann lærði prentiðn sína á Ísafirði í störfum fyrir Skúla Thoroddsen. Þaðan komu þeir líka formennirnir Hannibal Valdimarsson og Haraldur Guðmundsson, Benedikt Gröndal frá næsta nágrenni og svo Jón Baldvin og sá, sem þetta ritar. Ísfirðingar hafa því lengi farið fyrir íslenskum jafnaðarmönnum.

Bókin hans Jóns Baldvins er einstæð bók. Hún er um lífsskoðun jafnaðarmanns – jafnaðarmannsins frá „Rauða bænum” sem fór svo með hlutverk leiðtoga í málum, sem skipt hafa sköpum í lífi íslenskrar þjóðar. Auðvitað eru ekki allir sammála þeirri lífsskoðun – enda ekki allir frá „Rauða bænum”. Bókin vekur hins vegar máls á umræðuefni, sem þörf er á að rætt sé á Íslandi en liggur í láginni. Umræðuefni, sem fjallar um stjórnmálastefnur og strauma, tekur í senn mið af fortíð, samtíð og framtíð og á erindi við alla Íslendinga – og svo langt um fleiri.

Höfundur er fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokksins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar