Nýjar rannsóknir hafa leitt í ljós að veip inniheldur mun meira formaldehýð en hefðbundnar sígarettur. Reyndar er þetta ekki ný rannsókn og reyndist hún meingölluð við nánari skoðun. Í ljós kom að rannsakendur vissu takmarkað hvað þeir voru að gera og mældu „gufu“ sem innihélt brenndan bómull. Samt fór þessi rannsókn í dreifingu víða í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum síðan. Sumir veltu því fyrir sér hvort „ekki væri betra að banna þetta bara fyrst þetta væri svona skaðlegt?”
Núna hafa fjölmiðlar virkjað hysteríuna aftur með umfjöllun um dularfullan lungnasjúkdóm sem virðist eyðileggja lungun á ungu fólki í Bandaríkjunum. En það hefur nú þegar komið í ljós og sjúkdómseftirlit Bandaríkjanna CDC hefur viðurkennt að líklegast sé hægt að rekja þessi tilfelli til vökva sem inniheldur gervi-THC (virka efnið í kannabis) og form af e-vítamíni sem getur verið stórhættulegt ef það kemst í lungun.
Vottaðir venjulegir nikótínvökvar – jafnvel með nammibragðtegundum – valda ekki þessum skaða. Samt hafa íslenskir læknar fallið fyrir fjölmiðlahysteríunni og kalla nú eftir banni á rafsígarettum en hafa ekki kallað eftir banni á alvöru sígarettum, þetta sem staðfest er að drepur milljónir manna árlega á heimsvísu.
Það er alveg magnað að svona virtir vísindamenn sem læknastéttin er full af skuli falla fyrir þessu. Sem betur fer virðast ekki allir hafa misst sig gjörsamlega því horft er á veip með allt öðrum augum í t.d. Bretlandi. Þar virðist læknastéttin standa við bakið á veipurum og hvetur hún fólk til að skipta úr sígarettum yfir í veip. Ríkið hefur sett sér djarft markmið um að útrýma reykingum fyrir árið 2030 og meira að segja má finna veipbúðir á breskum spítölum þar sem reykingar eru gjarnan bannaðar í nágrenninu en fólk má veipa í staðinn.
Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki beint hlutlaus þegar kemur að veipi, ég er veipari sjálfur. Ég var staddur á ráðstefnu erlendis fyrir fimm árum síðan og ákvað að nýta tækifærið og prófa að fá mér minn fyrsta veip-penna. Þrátt fyrir að hafa reynt ítrekað að hætta að reykja þá var það ekki markmiðið með þessu, mig langaði bara að prófa. En í ljós kom eftir tvær vikur af því að veipa einhvern jarðaberjanammivökva þá var ég ekki búinn að snerta sígarettupakkann minn.
Þetta er gjarnan veruleikinn fyrir þúsundir Íslendinga sem hafa skipt yfir, það er ástæða fyrir því að veip-búðir hafa sprottið upp eins og gorkúlur víða um bæ. Fólk vill hætta að reykja, en til þess að það gangi upp þurfa læknar, vísindamenn og stjórnmálamenn að standa með okkur.