Tilurð þessa greinar er umsögn undirritaðs á samráðsgátt Forsætisráðuneytisins um mál S-128/2019/ drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir í náttúru Íslands og að nú eru u.þ.b. sjö ár frá því þjóð samdi og samþykkti sér nýja stjórnarskrá í anda hugsjónar, mannréttinda og réttlætis. Þessa stjórnarskrá hefur Alþingi ekki enn leitt í lög.
Íslenskt samfélag hefur týnst sjálfu sér í framþróun til lýðræðis. Ýmsir ganga svo langt að halda fram að stjórnmálastéttin eða fulltrúavaldið hafi rænt þjóðina lýðræðisumbótum eftir-hrunsáranna. Undir þessi orð er hægt að taka heilshugar þegar horft er til þess merkilega og skapandi lýðræðis, -og umbótaferlis sem varð upphaf og aðdragandi nýju stjórnarskrárinnar og bera saman við þá tilvistarkreppu og hugsjónaþurrð fulltrúarvaldsins sem þjóð er nú haldið í.
Vigdís Finnbogadóttir
„Árið 2008 steig Alþingi verulega merkilegt skref sem átti að verða til þess að draumurinn um nýja stjórnarskrá rættist loksins. Þá hófst víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina, og hefur vitaskuld vakið athygli um víða veröld. Stjórnlagaráð var kjörið með lýðræðislegum hætti svo þar fengju raddir ólíkra afla í íslensku samfélagi hvert sína rödd, og hin nýja stjórnarskrá var síðan samþykkt samhljóða. Þar að auki sýndi þjóðaratkvæðagreiðsla síðan fram á að íslenskir kjósendur vildu að hin nýja stjórnarskrá yrði tekin upp. En það hefur þó ekki verið gert enn. Að mínum dómi hefur íslenska þjóðin beðið nógu lengi."
Nú vill nefnd formanna flokkanna m.a. bæta auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána frá 1944 án þess að hafa til þess frumheimild. Endanlegt vald til stjórnarskrárbreytinga liggur hjá þjóð en ekki hjá tímabundið kjörnum fulltrúum hennar.
Sú skoðanakönnun sem forsætisráðuneytið hefur nú sett af stað með fulltingi Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands undir heitinu Öndvegisverkefnið, Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð vekur ýmsar siðferðilegar spurningar í ljósi þess að Íslensk þjóð hefur þegar samið sér nýja stjórnarskrá og samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af vef samráðs um stjórnarskrá dags. 30.09.2019, - „Stjórnarskrá Íslands verður endurskoðuð á þessu kjörtímabili í samstarfi allra flokka á þingi, samkvæmt áætlun forsætisráðherra, í víðtæku almenningssamráði. Öndvegisverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð, sem nýtur styrks frá Rannís, og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á að halda utan um rökræðukönnun, sem hluta almenningssamráðsins og auk þess stendur Öndvegisverkefnið fyrir opnu samráði á vef Betra Ísland.is í samráði við íbúa.“ - Hvernig er komið fyrir lýðræði sem hundsar að lögleiða afdráttarlausa og löglega niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu almennings en ætlar þess í stað að koma með sína útgáfu af lýðræðisumbótum með handvöldu samráðsúrtaki í skoðanakönnun? Það er búið að endurskoða stjórnarskrá Íslands.
Niðurstaða á staðfestum vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20.10.2012 gufar ekki upp og hverfur eins og dögg fyrir sólu vegna þessarar skoðanakönnunar.
Sumt er hægt og annað ekki. Sé Ísland lýðræði, er ekki hægt að Alþingi fólksins lúti ekki vilja meirihluta fólksins. Við slíkar aðstæður breytist Ísland frá því að vera lýðræði í það að vera land, stjórnað af tímabundið kjörnum fulltrúum, sem taka sér völd í heimildarleysi umfram hefð og umboðs frá umbjóðendum sínum, fólkinu í landinu. Stjórnarskrárbreytingar heyra ekki undir fulltrúarvald, heldur uppruna valds, þjóðar.
Réttlætisvitund flestra er misboðið og af nægu að taka. En af hverju?
Almenningur hefur mátt þola að farið hefur verið á svig við réttlætið þegar framsal fiskveiðiauðlindar var gefið frjálst. Þegar veðlög aflaheimilda voru samþykkt. Þegar ríkisbankarnir voru afhentir óreiðumönnum. Þegar hagkerfið var keyrt í þrot fyrir 10 árum síðan, og nú, þegar formenn flokkanna staðfesta það endanlega, að þeir, sem fulltrúarvald, hyggist ekki lúta vilja umbjóðenda sinna, þjóðar, með því að lögleiða nýju stjórnarskrána. Í þessu samráði og skoðanakönnun er hvergi minnst á þá staðreynd að þjóð hefur kosið sér stjórnarskrá sem ber að lögleiða og virða. Afneitunin er áberandi, vanvirðing gagnvart almenningi er skýr, og lýðræðið hundsað og spottað með þeim sjónleik sem nú er hafinn með því augnamiði að slá nýrri stjórnarskrá á frest, og drepa í dróma ákall og vilja þjóðar um langþráð réttlæti og lýðræðisumbætur. Er ekki mál að linni og fulltrúavaldið fari að gera sér grein fyrir þeirri grundvallar staðreynd að það starfar í þágu fólksins í landinu, umbjóðendur sína, en ekki öfugt?
Aðeins um fiskveiðiauðlindirnar
Engum dylst að brýn þörf er á auðlindaákvæði í stjórnarskrá. T.a.m. byggir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi á reglugerðum og lögum sem heimila kaup, sölu, endursölu, endurleigu og veðsetningu auðlindar í eigu Íslenskrar þjóðar. Það er vert að vekja athygli á siðferðis-og eignaréttarþætti þess; hvernig hægt sé að heimila einkafyrirtækjum veðsetningu, endursölu og endurleigu á veiðiheimildum (í formi syndandi fisks í hafinu) sem ekki var upphaflega greitt fyrir til þjóðar og eru í eigu þjóðar, en slíkt hefur tíðkast með reglugerðum og lögum frá Alþingi umliðna áratugi. Fyrirkomulag auðlindanýtingar í sjávarútvegi umliðna áratugi hefur svift þjóð sanngjörnu afgjaldi, gengið nærri náttúru og fært mikinn auð til fárra og gerir enn.Aðeins um orkuauðlindirnar
Innleiðing OP3 hefur vakið þjóð af værum svefni þar sem stefnt er að einkavæðingu orkuauðlindanna með sameiningu Íslands við hinn sameiginlega orkumarkað Evrópu gegn um sæstreng. Það einkennilega við tímasetningu innleiðingar Alþingis á OP3 er að enn er ekkert haldbært auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það að innleiða OP3 án virks auðlindaákvæðis opnar fyrir ámóta „oligargisma“ í formi skammtíma reglugerða og hentistefnu hagsmunaaðila og gerði við setningu kvótakerfisins, frjáls framsals og veðsetningarheimilda óveidds syndandi fisks. Sagan sýnir að framkvæmdarvaldi og flokksráðu fulltrúavaldi er ekki treystandi fyrir slíku fyrirkomulagi án grunnaðhalds sem heilsteypt stjórnarskrá veitir. Þó eðli orkuauðlinda og nýting séu ólík sjávarútvegi, eru almenningur og náttúra að ýmsu leiti óvarin ásælni fjárfesta og í litlu gætt að hagsmunum þjóðar í formi afgjalds fyrir nýtingu. Hætt er við að pólitískt tengd sérhagsmunaöfl muni sitja um landgæði og auðlindir og flestu stjórnað að þeirra hætti milli kosninga með reglugerðum. Það er með ólíkindum að þingmenn í flestum flokkum skuli yfirsjást glæfraskapinn við innleiðingu OP3 án virks auðlindaákvæðis stjórnarskrár og átta sig ekki á því að gloppótt stjórnarskrá er einmitt það sem skýlir sérhagsmunaöflum á uppkaups,-og einkavæðinga-árum orkuauðlindanna. Hið pólitíska fulltrúarvald hefur þarna brugðist þjóð á sama hátt og við setningu kvótakerfisins á sínum tíma með frjálsu framsali og innleiðingu veðlaganna.
Til vara
En vilji, tímabundið kjörnir, fulltrúar þjóðar koma til móts við ákall umbjóðenda sinna hvað auðlindarákvæði snertir, ber þeim skilyrðislaust að gæta þess að nýtt auðlindaákvæði sé í orðanna hljóðan það sama og 34. gr. nýju stjórnarskrárinnar sem Stjórnlagaráð samdi og þjóð hefur samþykkt. Hið sama á við um hverjar þær breytingar á stjórnarskrá sem framundan kunna að vera, að ekki er hægt að ganga gegn ákvæðum þeirrar nýju stjórnarskrár sem þjóð hefur þegar kosið sér. Hugsanleg frávik eða breytingar orðalags mætti e.t.v. heimila, en að inntak og andi greina yrði sami, helst betri, en alls ekki lakari. Þá er spurningin þessi: Af hverju lögleiðir fulltrúarvaldið ekki þá nýju stjórnarskrá sem þjóð hefur kosið sér í stað þess sjónleiks sem nú er settur á svið?Sögulegur aðdragandi nýju stjórnarskrárinnar, -hrunið og búsáhaldabyltingin
Það virðist sem núverandi ríkisstjórn afneiti sögulegum hörmungum þjóðar, hruninu fyrir 10 árum, sem á sér þó beina orsök í gloppóttri stjórnarskrá frá 1944 samkvæmt skýrslu RNA.Ríkisstjórn og Alþingi voru illa starfhæf og komust stjórnmálamenn ekki hjá því að heyra háværar kröfur fólksins sem barði potta og pönnur á Austurvelli og víðar um land eftir hrun og kröfðust m.a. nýrrar stjórnarskrár og að ráðsmenn öxluðu ábyrgð og létu af völdum. Alþingi hafði ítrekað reynt að endurskoða stjórnarskrána frá 1944 en ekki getað lokið því vegna misklíðar og ósættis. Öllum hugsandi mönnum var löngu ljóst að sérhagsmunaöfl höfðu æ ríkari hag af aðhaldslitlum leikreglum gömlu stjórnarskrárinnar í öndvegi við þjóð sem lá í sárum hrunsins. Tugþúsundir Íslendinga misstu heimili sín, lífsafkomu og hrökkluðust úr landi. Nú, tíu árum síðar, eru bankar enn að bera fjölskyldur af heimilum sínum.
Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA-skýrslan, 2010, 8. bindi, bls. 184) setti hrunið í samhengi við stjórnskipunina og tók undir kröfur fólksins í landinu um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Svohljóðandi er einróma ályktun Alþingis frá 28. október 2010:
„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni,... að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega,...að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“
Það gleymist í umræðunni að Alþingi studdi aðdraganda og tilurð nýju stjórnarskrárinnar einróma. Alþingi ályktaði einum rómi 28. september 2010, með öllum 63 atkvæðum greiddum, um nauðsyn endurskoðunar stjórnarskrár lýðveldisins frá 1944.
Það er hljótt um þá fyrrverandi og núverandi þingmenn sem í upphafi studdu hið merka umbótaferli nýja Íslands eftir hrun. Þið þingmenn sem einum rómi, 63 talsins greiddu atkvæði með því lýðræðisferli sem markaði upphaf hinnar nýju stjórnarskrá. Eftir skoðunum ykkar er nú óskað.:
Anna Margrét Guðjónsdóttir: já,
Atli Gíslason: já,
Álfheiður Ingadóttir: já,
Árni Páll Árnason: já,
Árni Johnsen: já,
Árni Þór Sigurðsson: já,
Ásbjörn Óttarsson: já,
Ásmundur Einar Daðason: já,
Ásta R. Jóhannesdóttir: já,
Birgir Ármannsson: já,
Birgitta Jónsdóttir: já,
Birkir Jón Jónsson: já,
Bjarni Benediktsson: já,
Björn Valur Gíslason: já,
Einar K. Guðfinnsson: já,
Eygló Harðardóttir: já,
Guðbjartur Hannesson: já,
Guðlaugur Þór Þórðarson: já,
Guðmundur Steingrímsson: já,
Gunnar Bragi Sveinsson: já,
Helgi Hjörvar: já,
Huld Aðalbjarnardóttir: já,
Jóhanna Sigurðardóttir: já,
Jón Bjarnason: já,
Jónína Rós Guðmundsdóttir: já,
Katrín Jakobsdóttir: já,
Katrín Júlíusdóttir: já,
Kristján Þór Júlíusson: já,
Kristján L. Möller: já,
Lilja Rafney Magnúsdóttir: já,
Lilja Mósesdóttir: já,
Magnús Orri Schram: já,
Margrét Pétursdóttir: já,
Margrét Tryggvadóttir: já,
Mörður Árnason: já,
Oddný G. Harðardóttir: já,
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: já,
Ólöf Nordal: já,
Pétur H. Blöndal: já,
Ragnheiður E. Árnadóttir: já,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir: já,
Róbert Marshall: já,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: já,
Sigmundur Ernir Rúnarsson: já,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir: já,
Sigurður Ingi Jóhannsson: já,
Sigurður Kári Kristjánsson: já,
Siv Friðleifsdóttir: já,
Skúli Helgason: já,
Steingrímur J. Sigfússon: já,
Svandís Svavarsdóttir: já,
Tryggvi Þór Herbertsson: já,
Unnur Brá Konráðsdóttir: já,
Valgerður Bjarnadóttir: já,
Vigdís Hauksdóttir: já,
Víðir Smári Petersen: já,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir: já,
Þór Saari: já,
Þórunn Sveinbjarnardóttir: já,
Þráinn Bertelsson: já,
Þuríður Backman: já,
Ögmundur Jónasson: já,
Össur Skarphéðinsson: já
Kæru framangreindu þingmenn, fyrrverandi og núverandi fulltrúar almennings, eftir röddum ykkar er nú óskað.
Um Íslenska stjórnmálamenningu:
Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8.bindi, bls. 179) II. 5
„..........Þau dæmi sem tekin hafa verið hér að framan um viðbrögð og verklag í íslensku stjórnkerfi eru til marks um ákveðna stjórnmálamenningu. Eitt einkenni hennar er að foringjar eða oddvitar flokkanna leika lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður er atkvæðalítill. Um það segir íslenskur stjórnmálamaður með langan feril úr pólitíkinni: -„Auðvitað er það svo að flokksræðið nánast í öllum stjórnmálaflokkunum hefur þróast í ofurvald foringjans og klíkunnar. Þess vegna er lýðræðið okkar svona brothætt og veikt og ég velti því fyrir mér hvort í rauninni þurfi ekki að stíga mörg sterk skref vegna þessarar reynslu til að tryggja sterkari stjórnmálamenn og minna foringjaræði.“- Stjórnmálamenn draga hins vegar ávallt dám af þeirri stjórnmálamenningu sem þeir lifa og hrærast í. Séu stjórnsiðirnir slæmir og stjórnkerfið veikt geta sterkir stjórnmálamenn verið varasamir. Í foringjaræði verður hlutur löggjafarþingsins einkum að afgreiða mál sem undirbúin hafa verið í litlum hópi lykilmanna. Þannig gegnir þingið formlegu löggjafarhlutverki sínu, en bæði umræðuhlutverkið og eftirlitshlutverkið eru vanrækt.“
Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 180)
„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti stjórnarhátta. Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“
Ályktanir og lærdómar:
Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184) „Íslensk stjórnmálamenning er vanþroskuð og einkennist af miklu valdi ráðherra og oddvita stjórnarflokkanna. Þingið rækir illa umræðuhlutverk sitt vegna ofuráherslu á kappræðu þar sem þekking og rökræður víkja fyrir hernaðarlist og valdaklækjum. Þingið er líka illa í stakk búið til þess að rækja eftirlitshlutverk sitt, meðal annars vegna ofríkis meirihlutans og framkvæmdarvaldsins, sem og skorts á faglegu baklandi fyrir þingið. Skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum er mein í íslenskum stjórnmálum. Andvaraleysi hefur verið ríkjandi gagnvart því hvernig vald í krafti auðs hefur safnast á fárra hendur og ógnað lýðræðislegum
stjórnarháttum.“
Lærdómar:
Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184):
„Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum. Í því skyni þyrftu þingmenn meðal annars að setja sér siðareglur og skýra þar
með fyrir sjálfum sér og almenningi hvernig þeir skilja meginskyldur sínar og ábyrgð.“ „Draga þarf úr ráðherraræði og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis.“ „Efla þarf góða rökræðusiði meðal þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa hennar. Í því skyni þyrfti að vinna skipulega að því í skólum landsins að búa nemendur undir þáttöku í lýðræðissamfélagi með þjálfun í málefnalegri rökræðu og skoðanaskiptum.“
„Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallaratriði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa.“
Framangreindar tilvitnanir í sannleiksskýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis staðfestir þá tilvistarkreppu sem fulltrúalýðræðið er í og almenningi stendur ógn af.
Hin nýja Íslenska stjórnarskrá er lýðræðislega unnin og vönduð
Í skýrslu alþjóðlegs rannsóknarteymis, sem stundar samanburðarrannsóknir á stjórnarskrám heimsins (The Comparative Constitutions Project), er niðurstaða prófessoranna Zachary Elkins við háskólann í Texas, Tom Ginsburg við háskólann í Chicago og James Melton við University College í London þessi:
„Endurskoðunarferli stjórnarskrár Íslands hefur einkennst af ákaflega mikilli nýbreytni og víðtækri þáttöku. Þótt frumvarpið standi traustum fótum í stjórnskipunarhefð Íslands eins og hún birtist í stjórnarskránni frá árinu 1944 endurspeglar það einnig umtalsvert framlag almennings til verksins og myndi marka mikilvægt táknrænt uppgjör við liðna tíð. Frumvarpið er einnig í fremstu röð hvað varðar að tryggja aðild almennings að ákvörðunum stjórnvalda. Við teljum að sá þáttur hafi stuðlað að langlífi stjórnskipunarlaga í öðrum löndum.“
Lawrence Lessic er kunnur fræðimaður og prófessor í lögum við Harvard Háskóla. Lessic hefur lagt sig fram um að kynnast stjórnarskrárferli nýju stórnarskrárinnar og tjáð sig um það hérlendis og víðar. Hér eru athygliverðir hlekkir á tvö af hans myndböndum um nýju Íslensku stjórnarskrána.:
Frh. ll & lll verður af greininni, Að skilja okkur sjálf.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.