Í þó nokkurn tíma hefur farið fram umræða um nauðsyn þess að endurskoða skaðabótalögin nr. 50/1993. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson fyrrverandi dómari við Landsrétt og Eiríkur Jónsson fyrrverandi prófessor í lögum og núverandi dómari við Landsrétt hafa báðir fært sannfærandi rök fyrir því í greinum á árunum 2014 og 2015 að skaðabótalögin eru úrelt. Ljóst er að raunveruleg hætta er á því að rangar bætur fyrir líkamstjón séu greiddar samkvæmt lögunum. Þetta þýðir með öðrum orðum að sumir fá of lágar bætur en aðrir of háar. Um verulegar fjárhæðir getur verið að ræða enda eru slys hér á landi, einkum umferðarslys og vinnuslys, mörg þúsund á ári. Bótagreiðslur og umsýsla þeirra hafa mikil áhrif á iðgjöld meirihluta landsmanna.
Íslensku skaðabótalögin sem tóku gildi árið 1993 voru réttarbót. Fyrirmynd þeirra voru dönsku skaðabótalögin frá 1984. Fram að lagasetningunni hafði að mestu verið byggt á ólögfestum reglum. Með lögunum voru reglur um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón endurbættar, þar á meðal tjón vegna missis framfæranda. Þau færðu til nútímahorfs reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða. Loks innihéldu þau ákvæði sem gerðu dómstólum kleift að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem valda tjóni eða bera af öðrum ástæðum skaðabótaábyrgð. Lögin voru nokkuð umdeild á sínum tíma og á þeim hafa verið gerðar nokkrar breytingar, sú viðamesta árið 1999. Síðan þá hafa þau að mestu staðið óbreytt.
Í kjölfar greina þeirra Eiríks Jónssonar og Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hóf dómsmálaráðuneytið endurskoðun á þeim atriðum laganna sem ráðuneytið taldi samhljóm um að breyta strax, einkum forsendur svokallaðs margfeldisstuðuls, lágmarks- og hámarksárstekna, vísitölutengingar fjárhæða og frádráttar vegna lífeyrissjóðsgreiðslna.
Ráðuneytið fékk Eirík Jónsson til að semja frumvarp um breytingar á þessum atriðum. Í febrúar 2017 var skipaður ráðgjafarhópur Eiríki og ráðuneytinu til ráðgjafar við endurskoðunina. Í hópnum sátu Anna Dögg Hermannsdóttir hdl., tilnefnd af Samtökum fjármálafyrirtækja, Bergur Þorri Benjamínsson viðskiptafræðingur, tilnefndur af Sjálfsbjörg, Elsa Rún Gísladóttir lögfræðingur, tilnefnd af Sjúkratryggingum Íslands, Sigurjón Unnar Sveinsson hdl., tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands, og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson fyrrverandi dómari (þá starfandi hrl.), tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands. Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur annaðist útreikninga sem lúta að margfeldisstuðli laganna, en þeir byggðust m.a. á útreikningum sem ríkisskattstjóri gerði af þessu tilefni. Vigfús annaðist einnig kostnaðargreiningu á grundvelli gagna frá tryggingafélögunum.
Í kjölfar vandaðrar vinnu Eiríks og ráðgjafahópsins var lagt fram frumvarp á Alþingi þann 23. mars 2018 sem laut einungis að breytingum á fyrrnefndum atriðum. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu var öllum sem komu að þessari vinnu ljóst að frekari endurskoðun væri nauðsynleg, m.a. á því hvernig staðið er að matsgerðum, greiðslu sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns auk fyrirkomulags við endurupptöku mála. Frumvarpið dagaði uppi eftir að hafa verið vísað til allsherjarnefndar.
Því búum við enn við það ástand að vátryggingafélög (í undantekningartilfellum aðrir) greiða að öllum líkindum rangar bætur vegna líkamstjóna samkvæmt skaðabótalögunum. Ef ekki er vilji til að leggja frumvarpið aftur fram í óbreyttri mynd blasir a.m.k. við að hefja þarf strax heildarendurskoðun laganna. Við þá vinnu þyrfti auk fyrrnefndra atriða að skoða kosti og galla þess að taka upp í lögin svipuð ákvæði og finna má í dönsku skaðabótalögunum. Þar eru almennt ekki greiddar bætur fyrir varanlega örorku þegar örorkan er metin 15% eða lægri. Svokölluð lágörorkuslys, þar sem varanleg örorka er metin frá 5-15%, eru langstærsti hluti heildarbótagreiðslna vátryggingafélaganna. Því er eðlilegt í ljósi reynslu okkar á framkvæmd skaðabótalaganna að þetta atriði verði skoðað sérstaklega. Loks er brýnt að rýna í og greina þann mikla kostnað sem er samfara uppgjöri slysabóta.
Ég vil því hvetja nýjan dómsmálaráðherra til þess að huga sem fyrst að þessum málum. Um verulega hagsmuni almennings er að ræða sem fjármagnar kerfið með iðgjöldum.
Höfundur er hrl. og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands þar sem hann kennir skaðabóta- og vátryggingarétt.