Orkan okkar gerir nú strandhögg á norska landgrunninu. Er þá að sjálfsögðu átt við kaup fyrirtækisins Vår Energi á eignum ExxonMobil í norska olíuiðnaðinum. Þetta eru talsverð tímamót, því ExxonMobil ásamt undanförum þess risastóra olíufyrirtækis eiga meira en hundrað ára viðskiptasögu í Noregi. Þeiri löngu sögu virðist nú vera að ljúka.
Sögu ExxonMobil í Noregi má rekja allt aftur til dags verkalýðsins 1. maí 1893. Þegar fyrirtæki á vegum olíuljúflingsins John D. Rockefeller byrjaði að selja norskum frændum okkar olíuafurðir. Það gerði hann í gegnum norskt dótturfélag Standard Oil samsteypunnar og var þetta norska félag nefnt því hógværa nafni Olíufélag Austurlands. Eða öllu heldur Østlandske Petroleumscompagni. Það ágæta félag varð síðar hluti af norska armi Esso, sem síðar varð hluti af Exxon, sem enn síðar varð hluti af ExxonMobil.
Og nú eftir 126 ára starfsemi í Noregi er ExxonMobil sem sagt á förum! Þetta er ennþá athyglisverðara í ljósi þess að þarna fylgir ExxonMobil í kjölfar annarra bandarískra olíufélaga sem hafa verið að kveðja Noreg upp á síðkastið. Stutt er síðan Chevron ákvað að yfirgefa norska landgrunnið. Og meira að segja ConocoPhillips virðist áhugasamt um að minnka verulega umsvif sín á evrópska landgrunninu.
Umrædd sala bandarísku félaganna á eignum sínum í Noregi kemur líklega einkum til af því að þetta eru félög sem eru sífellt á tánum að leita bestu tækifæranna til að græða aðeins meiri pening. Og nú sjá þau tækifæri í því að færa fjármuni frá norsku olíusvæðunum yfir í arðbærari vinnslu og þá einkum olíuvinnslu með s.k. bergbroti (fracturing) í Texas og víðar í Bandaríkjunum.
Samdráttur bandarísku olíufélaganna í norsku lögsögunni felur í sér mjög stór viðskipti. Sala ExxonMobil á norskum eignum sínum nú nýverið nam t.a.m. hátt í jafngildi 500 milljarða íslenskra króna. Meðal eignanna var hluti í mikilvægum olíusvæðum líkt og Grana, Snorra, Fram og Orminum langa. Og kaupandinn er sem sagt Vår Energi, þar sem ítalska orkufyrirtækið Eni er í lykilhlutverki. Svo virðist sem Ítalirnir vilji, öfugt við bandarísku félögin, styrkja stöðu sína á norska landgrunninu, en þar hafa þeir ítölsku reyndar verið í smá veseni með hánorðursvæðið sitt í Barentshafi kennt við risann Golíat.
Mestu tíðindin við minnkandi áhuga bandarískra olíufélaga á norsku lögsögunni er þó liklega fjarvera ConocoPhillips (og fleiri bandarískra stórfyrirtækja) í nýlegum útboðum á norskum leitar- og vinnsluleyfum á norska landgrunninu. Þarna vekur nafn Phillips auðvitað strekar hugrenningar. Um þessar mundir eru nefnilega nánast slétt 50 ár síðan olíuævintýrið í Noregi hófst, þegar borpallurinn Ocean Viking hjá Phillips hitti í mark. Og fyrsta olían gaus upp úr því sem reyndist risalindin Ekofisk í norska Norðursjónum. Þessum atburðum voru nýverið gerð skil á skemmtilegan hátt í norsku sjónvarsþáttaseríunni Lykkeland, sem sýnd var á RÚV s.l. vetur.
En nú eftir hálfrar aldar magnað olíuævintýri eru sem sagt verulegar breytingar að eiga sér stað út við sjóndeildarhring norska landgrunnsins. Sú spurning hefur reyndar vaknað hvort minnkandi áhugi stóru bandarísku olíufélaganna á norska landgrunninu tengist eitthvað nýlegri ákvörðun Norðmanna um að norski olíusjóðurinn skuli draga úr fjárfestingum í olíuiðnaði. Sú ákvörðun felur kannski í sér áhugaverða siðferðislega þversögn. En það virðist fremur langsótt kenning að þetta valdi bandaríska flóttanum úr norsku lögsögunni.
Raunverulega ástæðan fyrir bandarísku brottförinni er miklu fremur sú að nú fimm áratugum eftir að Ekofisk fannst og ævintýrið hófst, er norska landgrunnið orðið miðaldra. Brátt mun olíu- og gasvinnslu þar taka að hnigna vegna minnkandi linda og aukins kostnaðar. Og þá má kannski byrja að velta fyrir sér hvernig skyldi fara með íslenska Drekasvæðið. Mun íslenskt olíuævintýri kannski aldrei renna upp? Eða er það bara tímaspursmál?