Nú á dögunum lauk fyrsta Nýsköpunarmóti hins opinbera. Nýsköpunarmótið var sameiginlegt verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar, Ríkiskaupa og Fjármála-og efnahagsráðuneytisins.
Markmiðið með mótinu var að auka enn frekar nýsköpun í opinberum rekstri og koma á samtali á milli opinberra stofnana og fyrirtækja.
Nýsköpunarmótið var í formi „match making” og voru um 230 örfundir haldnir milli opinberra aðila og einkafyrirtækja. 26 opinberrar stofnanir voru skráðar til leiks og gekk mótið vonum framar!
En af hverju nýsköpun og opinber innkaup?
Ein megináhersla ríkisstjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er að stuðla að nýsköpun og rannsóknum. Þar gegna opinber innkaup veigamiklu hlutverki enda er markmið laga um opinber innkaup að efla nýsköpun og þróun. Hið opinbera getur haft gríðarleg áhrif á aukningu í nýsköpun og þar með stuðlað að meiri hagkvæmni í innkaupum. Sýnt hefur verið fram á að gæði og skilvirkni stjórnsýslu aukast með áherslu á nýsköpun. Því er til mikils að vinna!
Hvað geta opinberir aðilar gert til að stuðla að aukinni nýsköpun og þar með hagkvæmni í innkaupum?
Fyrst og fremst er hægt að huga betur að undirbúningi útboða með því að kanna markaðinn áður en útboðslýsing er skrifuð. Undirbúningurinn er lykilatriði en eins og margir vita er því miður oft skammur tími til stefnu þegar opinber aðili hefur fengið það fjármagn sem vantar til kaupanna.
Í langflestum útboðum er ákveðnum kröfum lýst til þess sem skal kaupa. Kröfurnar eru nákvæmar og lítið svigrúm til að bjóða aðra valkosti. Ein leið til þess að auka nýsköpun og þar með efla samkeppni og hagkvæmni í innkaupum er að lýsa frekar þörfum kaupanda til þess sem boðið er út. Hvað þarf kaupandinn í stað þess að skilgreina niður í smæstu smáatriði hvaða kröfur hann gerir til þess sem boðið er út.
Hverju skilar nýsköpun við opinber innkaup?
Samkeppni eykst og um leið hagkvæmni við innkaup. Opinberum aðilum geta boðist nýjar lausnir á hagkvæmari máta. Nýsköpunarlausnir gagnast einnig þjóðfélaginu í heild t.d. með því að draga úr kolefnisspori eða einfalda stjórnsýslu og þjónustu við borgarana.
Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi opinber innkaup og nýsköpun en höfundur vonar að með þessari stuttu grein veki hann áhugamenn um opinber innkaup til umhugsunar um nýjar leiðir við undirbúning útboðs.
Höfundur er lögmaður hjá Ríkiskaupum.