Jón Baldvin hefur sent frá sér bók. Hún er allmikil að vöxtum, liðlega sex hundruð síður. Í bókinni grípur hann niður í sögu jafnaðarstefnu hérlendis, hvar hún standi um þessar mundir og hvert stefna skuli. Þar er fróðlegur kafli um Ísafjörð þess tíma sem jafnaðarmenn réðu þar lögum og lofum. Ítarlegastir eru þeir kaflar sem fjalla um helstu pólitísku hugðarefni Jóns Baldvins; uppstokkun og endurbætur á íslensku samfélagi, framtíð sósíaldemókratsins, Ísland í Evrópu og framlag hans til frelsisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Hann var umdeildur en jafnframt dáður byltingamaður sem þorði þegar aðrir þögðu eða röfluðu um áhættur og holtaþokureimleika.
Jón Baldvin og EES
Jón Baldvin er að mínu mati merkasti stjórnmálamaður lýðveldistímans. Rök mín fyrir því eru annars vegar EES samningurinn. Hins vegar er hann eini þekkti íslenski stjórnmálamaðurinn meðal erlendra þjóða, vegna framgöngu sinnar þar. EES samingurinn er tvímælalaust mikilvægasti alþjóðasamningur sem þjóðin hefur gert og sem hefur gjörbreytt íslensku samfélagi. Það fór vel á því að úttektarskýrslan um stöðu og áhrif samningsins var birt skömmu áður en bók Jóns Baldvins kom út. Í skýrsunni er mikilvægi samningsins hvort heldur sem er fyrir einstaklinga, námsfólk, frumkvöðla eða hefðbundin viðskipti, já þjóðina alla og líf hennar og störf, undirstrikað og hvergi dregið undan. Þessi magnaði samningur var fyrst og fremst verk Jóns Baldvins. Hann gerði hann að forgangsatriði síðasta hluta stjórnmálaferils sins og myndaði ríkisstjórn sem hann treysti fyrir því að klára verkið.
Vissulega hafði hann afar hæfa embættismenn sér við hlið, en JBH stýrði för og grannskoðaði hvert smáatriði og kunni nánast samninginn utanaf. Öflugur, en ekki allur jafn félegur, samsöfnuður eldri manna ásamt Klausturfélögum Miðflokksins hefur undanfarin misseri haldið uppi óvægnum rangindum gegn EES samningnum í skjóli hins verulausa þriðja orkupakka. Þeir reimleikar eru nú að baki. Pólitísk arfleifð Jóns Baldvins heldur áfram að þróast og þroskast.
Ísland í Evrópu – Evrópa í Íslandi
Þessu nátengt eru skrif hans um framtíð Evrópu og stöðu Íslands þar. Lengi vel var höfundurinn einn eindregnasti stuðningsmaður inngönu landsins í ESB og færir í bókinni mörg þung rök því til stuðnings. Á einum stað segir JBH: „Krónuhagkerfið er veröld sem var.” Harmur Stefans Zweig er ekki langt undan. Hér hittir JBH naglann á höfuðið. Við frekari lestur verður ekki hjá því komist að taka eftir, að það örli á sinnaskiptum í afstöðu JBH, ekki bara til krónunnar heldur einng til ESB. Hann virðist gera ýms vandkvæði og mistök ESB við úrlausn vandamála á eftirhrunstíma að stefnureglu þess til frambúðar. Þaðan dregur hann ályktanir sem túlka má sem efasemdir um framtíð ESB. Það verður fróðlegt að fylgjst með framhaldinu. Með hverju árinu sem líður verðum við samofnari innri markaði ESB, eins og stefnt var að með EES samningnum. Það verður einnig flóknara að samræma þau spor sem krónan skilur eftir sig innanlands, þeim þörfum sem innri markaðurinn gerir til gjaldmiðilsins. Þá er landbúnaðurinn of mikilvægur en jafnframt of þung byrði á ríkissjóði til að svo geti horfið til lengdar. Velferðarríkinu hnignar vegna þess að peningarnir okkar eru bundnir í verkefnum sem engum skila neinu í aðra hönd. Enn á ný er þörf á einhverjum sem þorir – fram á leið ekki afturábak.
Jafnaðarstefnan
Þegar kemur að stöðu og framtíð jafnaðarstefnunnar heima sem erlendis vandast málin nokkuð. Höfundi verður tíðrætt um Norræna módelið, samfélagslega sköpunarverk sænsku kratanna, sem umbylti sænsku samfélagi fyrir og um miðbik liðinnar aldar til hagsbóta okkar minnsta bróður. Þessi uppskrift eða erindisbréf segir JBH vera vegvísinn inn í framtíðina. Draga má í efa að það dugi. Evrópskir kratar upp til hópa misstu af framtíðarlestinni þegar umhverfisvitundin hóf göngu sína fyrir tæpri hálfri öld. Þeir voru enn fastir í stéttarhugsun iðnaðarsamfélagsins með velferðarbótum og neysluhyggju. Var það ekki Gorbasjoff sem sagði að þeim hefndist sem kæmu of seint til leiks. Það eru evrópskir kratar að ganga í gegnum nú. Hvernig framtíðarsamfélagið – ef yfir höfuð eitthvað – mun líta út, mun trauðla ráðast af fortíðarhyggju, hvorki til hægri né vinstri, eins og þær sem nú ríða húsum út um allar koppagrundir.
Sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna
Einn kafli bókarinnar fjallar um framgöngu JBH í frelsisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna. Þau afskipti hans voru mikilvæg á örlagastundu, enda er hann nánast helgur maður þar um slóðir. Enginn annar íslenskur stjórnmálamaður hefur öðlast slíkan sess eða orðið jafn þekktur á erlendri grundu sem JBH, enda skiptu afskipti hans við Eystrasalt sköpum, ekki hvað síst til að efla sjálfstraust þjóðanna. Frásögn hans og annarra sem tóku þátt er fróðleg og upplýsandi. Af þessu tilefni er gaman að segja frá því, að xnemmma hausts 1991 fól JBH undirrituðum að sækja fund á vegum SÞ í Moskvu. Þar voru einnig staddir utanríkisráðherrar hinna Norðurlandanna. Um miðjan dag er mér sagt að Gorbasjoff vilji hitta okkur fulltrúa Norðurlandanna í Kreml. Hann las yfir okkur varnaðarorð og lítt duldar hótanir ef ríkisstjórnir okkar dirfðust að skipta sér af málefnum ríkjanna við Eystrasalt. Honum var mikið niðri fyrir. Í miðri yfirhalningunni ýtti aðstoðarmaður að honum bréfsnepli. Við sátum eins og sakamenn í einfaldri röð gegnt honum og fylgdarliði. Hann renndi augum sínum eftir röðinni eins og hann væri að telja en staldraði síðan við fulltrúa Íslands, horfði fast eitt augnablik, en hélt svo áfram. Ekki fór á milli mála hvert orðunum átti að beina.Enginn hinna ráðherrannna þorði - nema JBH.
Engin ævisaga
Það vekur ætíð eftirvæntingu þegar meiri háttar stjórnmálamenn senda frá sér pólitíska bók. Íslenskir stjórnmálamenn hafa margir hverir skrifað ævisögu að loknu dagsverki. En hér er engin ævisaga á ferðinni. Þetta er pólitískt baráttukver. Hér er skilmingamaðurinn Jón Baldvin á fullu. Hver einasta setning er þrungin pólitískri sannfæringu og ástríðu og það er ekki síst það sem gerir bókina svo skemmtilega og ferska aflestrar. Skriðþunginn er á köflum svo mikill að flest verður undan að láta. Leiftrandi mælska og skemmtilegur ritstíll einkennir bókina frá upphafi til enda. Í bókinni eru ræður, blaðagreinar og viðtöl frá liðnum tíma en einnig síðari tíma. Sumt af þessu er enn jafn ferskt og aðkallandi eins og það var þegar það var skrifað. Þeir stjórnmálamennj jafnaðarmanna sem nú eru í broddi fylkingar gætu notað heilu kaflana lítt breytta á mál líðandi stundar, því viðfangsefnin eru þau sömu og þegar JBH yfirgaf hringinn.