Á Austurlandi búa rúmlega 10.000 manns eða 3% Íslendinga. Þar eru tvö nýleg veggöng og hugmyndir um fleiri. Þrýst er á um veggöng undir Fjarðarheiði upp á 34 milljarða króna og tvö til viðbótar til að ná hringtengingu um svæðið, samtals upp á 64 milljarða króna sem gætu hæglega endað í 120 ma. kr. sem gerir 6-12 m.kr. á hvern Austfirðing.
Á höfuðborgarsvæðinu búa um 280.000 manns eða 80% Íslendinga. Nýi Samgöngusáttmálinn gengur út á að verja 120 milljarða króna í styrkingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 ár, sem gerir um 0,5 milljónir króna á mann á hvern höfuðborgarbúa. Að mestu verður féð fengið með nýrri fjármögnun frá fólki á höfuðborgarsvæðinu.
Síðasta áratug lætur nærri að um 20 milljarðar króna hafi árlega verið varið í nýjar samgönguframkvæmdir, þar af um 10% á SV-horninu, þó þar verði flest dauða- og stórslysin.
Samgöngustofa metur það svo að dauða- og stórslys kosti þjóðfélagið um 50 milljarða króna á ári fyrir utan það tilfinningalega tjón sem þau valda. Slíkum slysum mun stórfækka með nýja Samgöngusáttmálanum. Þær framkvæmdir munu fljótlega spara fyrir sér í lægri útgjöldum vegna færri dauða- og stórslysa. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er forgangsraða í þágu betra öryggis.
Það er ekki hægt að gera allt fyrir alla
Stjórnmálamenn verða að standast þrýsting sérhagsmunaafla með hagsmuni fjöldans í huga. Það kemur öllum vel.Í þeim fallega firði Seyðisfirði búa um 700 manns. Þar leggur Smyril Line að sem færir bænum verðmæta viðskiptavini og atvinnu. En vetrarfærð um Fjarðarheiði er oft slæm. Bæjarbúar leggja því áherslu á veggöng undir Fjarðarheiði sem eins og fyrr segir áætlast kosta 34 milljarða króna sem gæti endað í 60 milljarða króna.
Smyril Line hefur óskað eftir því að færa sig yfir á Reyðarfjörð sem hefur betri vegtengingar. Það myndi bæta samgöngur og öryggi vegfarenda strax, með litlum tilkostnaði. Það gengur ekki að láta hagsmuni fámennra byggðarlaga ganga fyrir hagsmunum heildarinnar. Veggöng undir Fjarðarheiði þurfa að bíða á meðan brýnni framkvæmdir komast að.
Nú er unnið að sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi. Þó ekki heildarsameiningu, sem virðist borðleggjandi í stað þess að sameina sveitarfélög allt í kringum Fjarðabyggð. Það skyldi þó ekki vera að hagsmunir einstakra byggða togist hér á?
Hvað með Vestfirði. Hvaða áhrif hefði það á vegagerð um svokallaðan Teigsskóg á Barðaströnd ef sunnanverðir Vestfirðir væru eitt sveitarfélag? Í dag er staðan sú að fámennt sveitarfélag getur komið í veg fyrir framkvæmdir sem varða mun stærra svæði.
Höfuðborgarsvæðið hefur sem fyrr segir aðeins fengið um 10% af fé til nýframkvæmda undanfarna áratugi og þó Samgöngusáttmálinn sé innspýting sem ber að fagna bendir sagan til þess að það þurfa markvissari hagsmunagæslu fyrir höfuðborgarsvæðið. Ekki er enn vilji til að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig væri að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu kæmu sér saman um „höfuðborgarsvæðisstjórn“ á vegum SSH? Slík stjórn allra sveitastjórna á svæðinu þyrfti að hittast nokkrum sinnum á ári. Hún myndi álykta eða taka ákvörðun um stóru línurnar á höfuðborgarsvæðinu svo sem í skipulagi og samgöngum. Hún gæti staðið fyrir fundum með þingmönnum svæðisins og ef vel tækist til eflt hagsmunagæslu fyrir Höfuðborgarsvæðið þvert á pólitískar línur.
Sameining sveitarfélaga er mikilvægari en í fyrstu sýnist og nýjar tillögur um framkvæmd málsins ganga síst of langt.
Höfundur er viðskiptafræðingur.