Auglýsing

Ein mikilvægasta stoðin undir íslensku efnahagslífi er sjávarútvegur. Hann hefur átt fordæmalaust góðærisskeið síðastliðinn áratug.

Í lok síðasta árs áttu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eigið fé upp á 276 milljarða króna. Frá hruni hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna.

Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Samanlagt hefur hagur sjávarútvegarins, því vænkast um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út síðasta ár, eða á einum áratug.

Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 63,3 milljarða króna í veiðigjöld. Í ár og á því næsta er ráðgert að þau skili sjö milljörðum króna í ríkiskassann á hvoru ári. Hagur eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því aukist um sjö sinnum þá upphæð sem greidd hefur verið í veiðigjöld fyrir afnot af auðlind sem segir í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða að sé „sameign íslensku þjóðarinnar.“

Fengu gefins nýjan kvóta en stefna ríkinu

Fyrr á þessu ári var makríll færður í kvóta á grundvelli veiðireynslu þar sem aflaheimildir, eða kvótar, voru að mestu færðar til stórútgerða. Makrílkvótinn er talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði. Þrátt fyrir þetta ætla nokkur stór sjávarútvegsfyrirtæki í mál við íslenska ríkið vegna fjártjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna úthlutar á makrílkvóta á árunum 2011 til 2014. Samkvæmt fréttum síðasta sumar munu bótakröfur þeirra nema allt að 35 milljörðum króna. Verði þær samþykktar geta útgerðirnar því náð til baka um 55 prósent af því sem þær hafa greitt í veiðigjöld á undanförnum árum. 

Auglýsing
Förum nú yfir nokkra hluti. Kvótakerfið, sem er að mörgu leyti skynsamlegt kerfi og tryggir góða nýtingu auðlindar, var komið á með lögum 1983. Við úthlutun kvóta var miðað við aflareynslu síðustu þriggja ára og hann afhentur án endurgjalds. Framsal á kvóta var síðan gefið frjálst sem gerði það að verkum að viðskipti fóru að vera með þessa vöru sem var í upphafi lánuð án greiðslu. Líkt og kom fram í fréttaskýringu Kjarnans í febrúar þá seldu sumir útgerðarmenn „fyrir aldurs sakir og aðrir sáu leik á borði þegar kvótinn varð skyndilega orðinn verðmætur og innleystu hagnað og fjárfestu í öðrum atvinnugreinum. Enn aðrir seldu kvóta vegna hjónaskilnaðar.  Og allt þar á milli.“

Hvernig sem á það er horft þá hefur fiskveiðistjórnunarkerfið leitt til samþjöppunar í greininni. Það er t.d. hægt að sjá með því að skoða skiptingu kvótans í dag.

Enginn má eiga meira en 12 prósent

Fiskistofa hefur eftirlit með því að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða í eigu tengdra aðila fari ekki umfram þau mörk sem lög kveða á um. Á heimasíðu hennar má sjá hversu mikil einstakir aðilar eiga af kvóta. Á lista Fiskistofu kemur fram að ekkert eitt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, eða tengdir aðilar, fari yfir 12 prósent aflahlutdeild. Brim sé með mestu einstöku hlutdeildina, 10,4 prósent. 

Tengdir aðilar, samkvæmt skilningi laganna, teljast fyrirtæki þar sem sami einstaklingur eða lögaðili á beint eða óbeint meirihluta í hinum aðilum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar, eða ef annar aðilinn hefur með öðrum hætti „raunveruleg yfirráð yfir hinum“. 

Umtalsverð tengsl eru milli ýmissa aðila sem er að finna á lista Fiskistofu þótt stofnunin kjósi að skilgreina þá ekki sem tengda aðila. 

Þannig er Brim, líkt og áður sagði, með 10,4 prósent af öllum kvóta sem úthlutað er. Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á allt að 56 prósent hlut í því félagi. Það félag var 1. september síðastliðinn með 3,9 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík með 1,3 prósent aflahlutdeild. Stærstu einstöku eigendur þess eru Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri Brims, og tvö systkini hans með samanlagðan 36,66 prósent endanlegan eignarhlut.

Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga, sem eru ekki skilgreind sem tengd, var því 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins. 

Samherji ehf., félag utan um hluta af starfsemi þess sjávarútvegsrisa, var með 7,1 prósent kvótans á sama tíma. Langstærstur eigendur Samherja eru frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson, ásamt Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu Þorsteins. Síldarvinnslan heldur svo á 5,3 prósent allra aflaheimilda, en hún er í 44,6 prósent eigu Samherja auk þess sem Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Þorsteinn Már er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. 

Sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar. Þá er ótalið Útgerðarfélag Akureyringa, sem heldur á 1,3 prósent kvótans, og er að öllu leyti í eigu Samherja. Samanlagt er aflahlutdeild þessara alls ótengdu aðila að mati Fiskistofu, 16 prósent. 

Fjórir hópar með helming kvótans

Kaupfélag Skagfirðinga á síðan FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja ótengdu aðila 10,6 prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.

Auglýsing
Sú breyting hefur hins vegar orðið á, frá 1. september síðastliðnum, að Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti ríflega 10,18 prósent hlut FISK Seafood í Brim, sem FISK hafði keypt í ágúst m.a. af lífeyrissjóðnum Gildi, á 6,6 milljarða króna, á tæplega átta milljarða króna þann 9. september. Hagnaður FISK var, samkvæmt þessum um 1,4 milljarðar króna á nokkrum dögum. Í grein sem nokkrir sveitarstjórnarmenn í Skagafirði skrifuðu á vefinn Feyki (í eigu Kaupfélags Skagfirðinga) 20. september síðastliðinn var óvænt greint frá því að um 4,6 milljarðar króna af þessum tæplega átta milljarða króna kaupverði hefði verið greitt með aflaheimildum. „Það þýðir um 10 prósent aukningu í aflaheimildum FISK Seafood í tonnum og um leið umtalsverða aukningu í umsvifum félagsins hér á heimaslóðunum,“ sagði í greininni. 

Því hefur sameiginleg hlutdeild ofangreindra aukist á síðustu vikum. 

Samanlagt halda þau félög sem talin voru upp hér að ofan, og tengjast Samherja, Útgerðarfélagi Reykjavíkur og Kaupfélagi Skagfirðinga, en eru samt sem áður ekki tengdir aðilar, alls á 42,2 prósent af öllum kvóta í landinu. Ef við er bætt Vísi og Þorbirni í Grindavík, sem halda samanlagt á 8,4 prósent af heildarkvótanum og eru nú í sameigingarviðræðum, þá fer það hlutfall yfir 50 prósent. Fjögur mengi sem stýrt af af handfylli manna halda á helmingi kvótans. 

Lánsfé frá bönkum stýrir verðmæti kvóta

Sé miðað við algengt virði á kvótanum í viðskiptum, og upplausn hans, er heildarvirði kvóta um 1.200 milljarðar króna. Það þýðir að virðið sem þessir aðilar halda á er í kringum 600 milljarðar króna. Þetta virði hefur flakkað aðeins síðustu árin, en á rætur sínar að rekja til þess að heimild var gefin til að veðsetja aflaheimildir fyrir lánum, með lögum sem voru sett árið 1997. Ekki þarf að fjölyrða um hver áhrif þess urðu. Til varð meiri auður í íslensku samfélagi en nokkru sinni áður hafði orðið.

Bankar fóru líka að lána völdum útgerðum til að kaupa upp aðrar útgerðir, með veði í aflaheimildunum sjálfum. Þetta leiddi til þess að þær hækkuðu hratt í verði og hafa verið, að mati ansi margra, taldar verulega ofmetnar. 

Í grein eftir Kára Fannar Sævarsson mannfræðing, sem birtist í Kjarnanum sumarið 2018, kom fram að þegar „Seðla­bank­inn var­aði við því árið 2000 að veð í kvóta væru of há til að standa undir sér var þorsk­sí­gildið um 800 krónur á kíló. Þegar bank­arnir féllu var það komið upp í 4400 krón­ur. Það var mun meira en nokkur útgerð eða fjár­festir gat séð sem hag­kvæma fjár­fest­ingu á kvóta. Árin 2007 og 2008 var heild­ar­virði kvóta á Íslandi um tvö þús­und millj­arðar eða fimm sinnum meira en árlegur hagn­aður íslenska sjáv­ar­út­vegs­ins.“

Þegar hrunið skall á lækkaði virði kvótans um helming og árið 2012 var þorskígildið komið niður í um 2.000 krónur. Þetta gerðist þrátt fyrir gengisfall sem hefði átt að auka virði kvótans í krónum talið frekar en hitt. Í grein Kára Fannars sagði að af þessu mætti „draga þá ályktun að fram­boð á lánsfé frá bönk­unum hafi haft meiri áhrif á verð á afla­hlut­deildum heldur en raun­veru­legt verð­mæti þeirra.“

Í árslok 2008 var eigið fé íslensks sjávarútvegs sem heildar neikvætt um 80 milljarða króna, aðallega vegna þess atvinnuvegurinn hafði tekið lán í erlendum gjaldmiðlum í stórum stíl, með veði í kvótanum. Heildarskuldir sjávarútvegarins gagnvart bönkunum stóðu í 560 milljörðum króna á þeim tíma. 

Auglýsing
Veðsettur kvóti var samt ekki innkallaður heldur samið við flest sjávarútvegsfyrirtækin um aðlögun á lánum, vöxtum og afborgunum. Svokölluð sáttanefnd sem skipuð var eftir hrunið lagðist líka gegn því að ríkið innkallaði kvótann þar sem að það myndi setja lán sjávarútvegsfyrirtækja hjá bönkum í uppnám, sem myndi setja rekstarforsendur endurreistu bankanna í uppnám. Mikil veðsetning kvótans tryggði því áframhaldandi eignarhald á honum. 

Ein besta fjárfestingin

Ofangreint hefur skilað því að til er orðin ofurstétt á Íslandi. Í henni eru handfylli útgerðarmanna sem ráða þorra íslensks sjávarútvegs, hafa efnast út fyrir allt sem eðlilegt þykir á síðustu árum og teygt sig til ítaka á öðrum sviðum samfélagsins með þessa peninga að vopni. Þeir eiga hlutdeild í smásölumarkaðnum, flutningafyrirtækjum, innlendri framleiðslu, tryggingafyrirtækjum og stærstu innflytjendum landsins, svo fátt eitt sé nefnt. Þeir hafa augljós áhrif víða í íslenskum stjórnmálum með fjárframlögum til stjórnmálaflokka, beinum samskiptum og stuðningi við valda stjórnmálamenn og með því að beita hagsmunasamtökum sínum fyrir sér þegar lagafrumvörp eru til meðferðar eða önnur mál tengd geiranum koma til umræðu.

Þessi fyrirtæki þurfa heldur ekki að lifa í krónuveruleikanum sem við hin búum í, heldur fá aðgang að lánsfé erlendis á miklu betri kjörum, gera upp í evrum og eiga í viðskiptum við dótturfélög úti í heimi sem ýmsa hefur grunað að séu gerð til að skilja eftir ágóða annars staðar er á Íslandi, og þar af leiðandi til skattlagningar þar. 

Auglýsing
Þegar ráðast átti í stórfelldar breytingar á íslensku samfélagi eftir bankahrun með aðildarumsókn að Evrópusambandinu, breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu, breytingu á stjórnarskrá þar sem tryggt yrði meðal annars jafnræði atkvæða og að auðlindir yrðu staðfestar í þjóðareigu, tóku nokkrir vel settir sjávarútvegsrisar sig til og keyptu Morgunblaðið, sem þá hafði enn vigt í íslensku samfélagi og var lesið af yfir 40 prósent þjóðarinnar. Því vopni var miskunnarlaust beitt fyrir málstaðinn næstu árin með ærnum tilkostnaði og 100 prósent árangri. Nánast allt sem stoppa átti, stöðvaðist. 

Þótt eigendahópurinn sem kom að Morgunblaðinu snemma árs 2009 hafi nú þegar tapað 2,2 milljörðum króna, og grafið verulega undir tilverugrundvöll þeirrar stórmerkilegu fjölmiðlastofnunar (lesturinn hefur nánast helmingast og nú lesa rúmlega 12 prósent landsmanna undir fimmtugu blaðið, sem þó er fríblað í aldreifingu einu sinni í viku) með því að breyta henni að hluta í valdatól, þá verður að segjast eins og er að líklega var þetta ein besta fjárfesting sem ráðist hefur verið í. Risar úr þessum geira eru enn að borga fyrir gegndarlaust tap Morgunblaðsins, þótt Kaupfélag Skagfirðinga hafi nú tekið við því sæti við hlið Ísfélags Vestmannaeyja af Samherja.

Nýlegir snúningar sem teknir hafa verið eignarhluti í almenningshlutafélaginu HB Granda, sem var keypt af Brim, sem síðar breytti nafni sínu í Útgerðarfélag Reykjavíkur og nafni HB Granda í Brim eftir að eigandi gamla Brim gerðist forstjóri nýja Brim og hóf að láta hið skráða félag kaupa eignir af sjálfum sér fyrir milljarða króna, eru síðan nýr kafli í þessari ósvífnu sögu allri saman. 

Af hverju gerir enginn neitt í þessu?

Þrátt fyrir allt ofangreint, og ýmislegt annað eins og aukin útflutning á óunnum afla af Íslandsmiðum, þá láta mjög öflug og áhrifarík hagsmunasamtök sjávarútvegsfyrirtækjanna eins og greinin sé í köðlunum. Að ásókn hins opinbera, fyrir hönd eigenda auðlindarinnar sem verið er að nýta, í hluta arðsins sem verður til sé að skilja sjávarútveginn eftir eins og vankaðan boxara sem geti vart aðra lotu gagnvart níðþungu og mun faðmmeira ríkisvaldinu sem berji á fórnarlambi sínu að ósekju. 

Ofan á þetta sýnir greinin ítrekaða frekju og yfirgang. Þegar til stóð að leggja veiðigjöld á útgerðirnar, fyrir afnot af auðlind sem á að heita í þjóðareigu, á ögurstundu í íslensku efnahagslífi árið 2012 þá var flotanum siglt í land og auglýsingar birtar í dagblöðum þar sem sjómönnum og fjölskyldum þeirra var beitt fyrir stórútgerðirnar. Árið 2015 var farið fram á að Ísland hætti stuðn­ingi við við­skipta­þving­anir gegn Rússum vegna innlimunar Krímskagans og tæki með því hags­muni útgerð­ar­innar fram yfir sið­ferð­is­lega afstöðu með mann­rétt­ind­um, með full­veldi sjálf­stæðra þjóða, með vest­rænu varn­ar­sam­starfi, með öðrum við­skipta­legum hags­munum Íslands á innri mark­aði Evr­ópu og með almennu rétt­læti. 

Snemma árs 2017 fóru útgerðir meðal annars fram á að ríkið tæki þátt í að greiða laun sjómanna, með því að gefa eftir skatt af fæðispeningum og dagpeningum vegna ferða- og dvalarkostnaðar. 

Nú ætla þær síðan í mál við ríkið og setja fram, hver fyrir sig, milljarða króna kröfur fyrir að hafa ekki fengið strax gefins meira af makrílkvótanum. Hópur fyrirtækja sem flest eru undir fullum yfirráðum örfárra einstaklinga sem eru að taka yfir íslenskt samfélag með húð og hári.

Ætla kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, sem eiga að vinna með hagsmuni hennar að leiðarljósi, bara að láta þetta gerast? Að leyfa freku köllunum að sópa til sín því sem þeir vilja? Að verða ríkari og valdameiri en öll tilefni standa til á meðan á því stendur? 

Ætlar enginn að gera neitt neitt í þessu? 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Rúm 40 prósent vilja að Katrín verði áfram forsætisráðherra
Í niðurstöðum könnunar á vegum ÍSKOS kemur í ljós að langflestir vilja að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Athygli vekur að Bjarni Benediktsson nýtur minni stuðnings í embættið en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í könnunum.
Kjarninn 15. september 2021
Eyþór Eðvarðsson
Rétturinn til að deyja
Kjarninn 15. september 2021
Þröstur Ólafsson
Hvað á ég að kjósa?
Kjarninn 15. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari