Mynd: Mannlíf

Útgerðin í annarri deild

Undanfarinn áratugur hefur verið einn allra besti tíminn í sögu íslensks sjávarútvegs. Fjárhagsstaða margra stærstu útgerðarfyrirtækjanna er orðin það sterk, að þau eru í annarri deild heldur en meginþorri fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Umsvif þeirra í öðrum geirum fara vaxandi, og má búast við að sú þróun haldi áfram. En hvað þýðir það?

Lengi hefur verið deilt um kvótakerfið á Íslandi og mörgum sjónarmiðum haldið á lofti.  Það var tekið upp árið 1984 og útgerðir með aflareynslu þriggja ára þar á undan fengu afhentan kvóta án endurgjalds.  

Þá var afkoman slæm og kvótinn (aflaheimildir) lítils virði.  

Eftir að framsal á kvóta var gefið frjálst jukust smám saman viðskipti með kvóta og hægt og bítandi safnaðist kvótinn til þeirra fyrirtækja sem vildu gera út áfram af ýmsum ástæðum og gerðu út á hagkvæman hátt.

Sumir útgerðarmenn seldu t.d. fyrir aldurs sakir og aðrir sáu leik á borði þegar kvótinn varð skyndilega orðinn verðmætur og innleystu hagnað og fjárfestu í öðrum atvinnugreinum. Enn aðrir seldu kvóta vegna hjónaskilnaðar.  Og allt þar á milli. 

Hreyfanleiki og fjárfesting

Þessi hreyfanleiki á aflaheimildum leiddi til mikillar hagræðingar í greininni, og mikillar auðsöfnunar eigenda útgerðarfyrirtækjanna. Stóru fyrirtækin urðu stærri. Á undanförnum áratug hefur þróunin haldið áfram á sömu braut; aukin hagræðing og sterkari efnahagur fyrirtækjanna hefur gefið þeim tækifæri á aukinni fjárfestingu og tæknivæðingu. 

Algjör kúvending hefur orðið á efnahagsreikningum helstu útgerðarfyrirtækja landsins á áratug. Hrun fjármálakerfisins og krónunnar, haustið 2008, var í raun mikil búbót fyrir sjávarútveginn í landinu, sem hafði árin á undan glímt við erfiðleika vegna sterks gengis krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa sínar tekjur í erlendri mynt og því þýddi mikil og hröð veiking krónunnar, í kjölfar hrunsins, að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs batnaði verulega. Nýr rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna varð í raun til við þetta, svo mikil var breytingin.

Sé horft til áranna 2010 og út árið 2017 þá hefur hagur útgerðafyrirtækja landsins vænkast um 421,3 milljarða króna. Eiginfjárstaða sjávarútvegsins var neikvæð, að meðaltali, í lok árs 2008 en var jákvæð í lok árs 2017 um 262 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum sem Deloitte hefur tekið saman, og byggir á upplýsingum frá 87 prósent af sjávarútvegnum. Frá árinu 2010 hafa eigendur útgerðarfyrirtækjanna fengið 80,3 milljarða króna í arðgreiðslur. 

Tekjur sjávarútvegsins á árinu 2017 voru um 225 milljarðar króna og framlegðin af rekstrinum um 40 milljarðar. EBITDA-hagnaður (rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) var 18 prósent á árinu 2017, en árin á undan var hann nokkuð meiri, eða ríflega 20 prósent. 

Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja, það er skuldir sjávarútvegsfyrirtækja sem tilheyra grunninum, hækkuðu í 362 milljarða króna árið 2017. Það er umtalsverð hækkun á milli ára, eða úr 319 milljörðum króna. Skuldir eru samt minni 2017 en þær voru árið 2014.

Geirinn hefur þó lagað skuldastöðu sína gríðarlega á árunum 2009-2017, eða um 86 milljarða króna umfram nýjar langtímaskuldir. Einungis tvívegis á því tímabili hefur verið stofnað til skulda umfram afborganir, árið 2015 þegar ný lán voru 18 milljarða fram yfir afborganir, og í fyrra þegar þau voru 15 milljarða fram yfir afborganir.

Kvótaverð þokast uppá við

Ýmsar hliðarverkanir hafa verið á þessari tiltölulega stuttu þróun kvótakerfisins, sé litið til hagsögunnar íslensku. Eftir því sem árin hafa liðið og verð á kvóta hefur hækkað hefur sífellt orðið erfiðara fyrir venjulegt fólk að fjárfesta í kvóta og kaupa sér bát, en endurnýjun og nýliðun í greininni hefur lengi verið hluti af pólitískri rökræðu um greinina.

Hin síðari ár hefur flest fólk sem byrjar með tvær hendur tómar ekki tök á að kaupa sér nokkra tugi tonna af t.d. þorskkvóta og bát með.  Upphafskostnaður við slíkt eru milljónatugir og ekki á færi nema sterkefnaðra.  Auk þess er stærðarhagkvæmni í greininni orðin svo ráðandi þáttur að erfitt er að „keppa“ við stærri fyrirtækin þegar kemur að verðum á markaði. 

Í stað þess að það verði mikil endurnýjun eða nýliðun í greininni þá selja yfirleitt eldri útgerðarmenn, hvort sem er í smáútgerðum eða stærri, sem eiga litla kvótapakka, til stóru útgerðarfyrirtækjanna sem sjá sér hag í að bæta við kvóta og hagræða enn frekar í rekstri, enda hafa þau yfir að ráða tækjum og tólum til að nýta kvótann betur, með hagkvæmri vinnslu. 

Risar í mörgum atvinnugreinum

Á allra síðustu hefur samþjöppunin aukist áfram á miklum hraða.  Nokkur af allra stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum hafa stækkað sífellt meira með hverju árinu sem líður. Arðsemi í greininni er vissulega mismikil eftir því hvernig gengi krónunnar sveiflast og einnig eftir aflabrögðum og fiskverði.  Hin stóru og sterku sjávarútvegsfyrirtæki eru þó vel varin fyrir sveiflum þar sem flest þeirra eiga mikinn kvóta í mörgum mismunandi tegundum.  

Svo bætist við að tækniframfarir hafa verið miklar og aukið hagkvæmni. Skipum hefur fækkað og störfum í landi einnig.  Mörg þessi stærstu fyrirtæki eru verulega arðsöm og eigendur þeirra hafa hagnast mikið á síðustu árum. 

Tækniframfarir og hagstæðar ytri aðstæður

Það hefur orðið mikil tækniþróun í sjávarútvegi á undanförnm árum sem hefur aukið hagkvæmni við veiðar og vinnslu á fiski. Þau útgerðarfyrirtæki sem eru stærst eru í bestum færum til að nýta sér tækniframfarir til að auka virði þess afla sem fæst uppúr sjó. Stjórnvöld hafa auk þess fylgt ráðgjöf vísindamanna við fiskveiðistjórnun síðustu ár sem leitt hefur til þess að margar af okkur verðmætustu tegundum hafa dafnað vel til hagsbóta fyrir sjávarútveginn og hagkerfið. Þetta er ekki sjálfsagt, enda þekkt í sjávarútvegi á heimsvísu að hrun stofna og ofveiði hefur oft leitt til efnahagsáfalla. Loks hefur breytt ástand sjávar leitt til þess að nýjar tegundir (makríll t.d.) hafa synt inní landhelgina líkt og hálfgerður happadrættisvinningur.

Í tilfelli makrílsins voru stærstu sjávarútvegsfyrirtækin í lang bestri stöðu til að veiða og vinna þá tegund enda áttu þau fyrir skip og búnað til að veiða annan uppsjávarfisk. Sömu aðferðarfræði og við upphaf kvótakerfisins var beitt við nýtingu á makríl – þ.e.a.s. aflareynsla fyrstu áranna leiddi til þess kvótanum er nú útdeilt eftir reglugerð að stærstum hluta til þeirra sem veiddu fyrstu árin eftir að markíll kom inn í lögsöguna. Það gerðist í vaxandi mæli um svipað leyti og fjármálakerfið hrundi og gengisfall krónunnar kom fram. Þannig má segja að koma makrílsins hafi haft enn meiri jákvæðari áhrif á efnahag landsins.

Hafrannsóknarstofnun greindi frá því í liðinni viku, 25. janúar síðastliðinn, að fyrsta alþjóðlega rannsóknin hefði nú staðfest að makríll væri að festast í sessi í íslenskri lögsögu. „Á undanförnum árum hefur makríll gengið bæði norðar og vestar en áður. Samfara því hefur útbreiðsla og magn makríls á Íslandsmiðum aukist verulega og er það talið tengjast hlýnun sjávar og þéttleikaháðum áhrifum samfara stækkun stofnsins. Beinar veiðar hófust hér við land árið 2007. Makríllinn byrjar að hrygna í febrúar við strendur Spánar og Portúgals og síðan flyst hrygningin smám saman norður með Evrópu fram á vor með hækkandi hitastigi. Hrygningin nær venjulega hámarki í apríl-maí úti fyrir vesturströnd Írlands og suðvesturströnd Englands, en á sama tíma er töluverð en dreifðari hrygning allt frá Biscayaflóa og norður fyrir Færeyjar. Á nyrstu svæðunum hefst hrygningin seinna og stendur fram í júlí. Frá árinu 2004 hefur orðið vart við makrílungviði við Suður- og Vesturströnd Íslands.

Í þessari rannsókn var stuðst við niðurstöður úr fjölþjóðlegum rannsóknarleiðöngrum á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) á hrygningu makríls í Norðaustur Atlantshafi árin 2010 og 2013. Hafstraumar við suðurströnd landsins voru kortlagðir með aðstoð hafstraumalíkansins CODE sem þróað hefur verið við Háskóla Íslands. Makrílseiði af Íslandsmiðum voru aldursgreind og líkt var eftir reki ungviðis frá veiðisvæði að klak- og hrygningarsvæði með því að reikna út rek með straumum aftur á bak í tíma. Þannig var, ásamt fyrirliggjandi upplýsingum um hrygningu makríls við Ísland, leiddar líkur að því hvar makrílungviðið klaktist út. Þessi rannsókn sýnir í fyrsta skipti fram á að makríll klekst út, vex og dafnar á íslensku hafsvæði þó vissulega sé aðeins um lítið brot af heildarhrygningu makríls að ræða,“ í sagði um umfjöllun Hafrannsóknarstofnunar. Þetta eru töluverð tíðindi fyrir sjávarútveginn, þar sem þarna eru nú komnar fram vísbendingar, studdar eru með rannsóknum, um makríll sé mögulega kominn til að vera í íslenskri lögsögu.

Arðsemin hjá best reknu sjávarútvegsfyrirtækjunum er í algerum sérflokki í samanburði við annan atvinnurekstur í landinu.  Mörg af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum hafa valið að fjárfesta í auknum mæli út fyrir greinina til að dreifa áhættunni.  

Fjárfest fyrir utan geirann

Nú á t.d. Síldarvinnslan kjölfestuhlut í tryggingarfélaginu Sjóvá.  Samherji, sem stærsti eigandi Síldarvinnslunnar, á kjölfestuhlut í Eimskip (25 prósent) og stóran hlut í Högum (tæplega 10 prósent) og mörgum fleirum fyrirtækjum í ýmsum atvinnugreinum.  

Hið sama má segja um Ísfélag Vestmannaeyja, Kaupfélag Skagfirðinga og Skinney-Þinganes. 

Ísfélagið keypti eina stærstu heildverslun landsins, Íslensk/Ameríska, árið 2014 og 45 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði, Korputorg, árið 2016, svo dæmi séu nefnd. Þá ræður félagið yfir tæplega 30 prósent hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Hvalur hf., þar sem Kristján Loftsson er stærsti eigandi ásamt systu sinni Birnu Loftsdóttur, hefur einnig látið nokkuð að sér kveða að undanförnu. Félagið keypti fyrir um 600 milljónir í Arion banka, þegar bankinn var skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð, og nýlega keypti Hvalur síðan hlut í Marel fyrir um milljarð króna og nemur eignarhlutur félagsins nú um 0,4 prósentum. Eftir söluna á um þriðjungshlut í HB Granda í fyrra, sem Útgerðarfélag Reykjavíkur (áður Brim) keypti, hefur fjárhagsstaðan styrkst enn frekar, en söluverðið var 21,7 milljarðar króna. 

Aukin umsvif

Flest stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi hafa því fjárfest út fyrir greinina til að dreifa áhættu og auka umsvif sín. Arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefðu getað orðið miklu meiri ef þau hefðu ekki valið að fjárfesta í öðrum atvinnugreinum, og hafa þær því verið hóflegar á hefðbundna rekstrarmælikvarða.

Ef fram heldur sem horfir og ytri aðstæður verða áfram góðar hjá stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum í landinu verða þau mögulega alls ráðandi í atvinnurekstri í landinu áður en langt um líður. Helsta ástæða þessa er hin mikla undirliggjandi arðsemi hjá þessum fyrirtækjum, í samanburði við aðra geira. Þá er bann við beinni erlendri fjárfestingu í aflaheimildum einnig til þess fallið að þrengja mögulega samkeppni og innleið fyrir ný fyrirtæki, enda takmarkað hversu mörg fyrirtæki hafa bolmagn til þess að fara inn á þennan markað í litlu 350 þúsund manna örríki eins og Íslandi.

Stærðirnar hjá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum, og eigendum þeirra, eru miklar þegar kemur að fjárhagslegum styrk. 

Í lok árs 2017 nam eigið fé Samherja 754 milljónum evra, eða sem nemur um 105 milljörðum króna. Stærstu eigendurnir eru frændurnir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, og Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri. 

Hjá Ísfélaginu, og Guðbjörgu Matthíasdóttur, eiganda þess, er staðan einnig sterk, en eigið fé hjá félaginu Fram ehf., sem er móðurfélag Kristins ehf., eiganda Ísfélagsins, var um 35,5 milljarðar króna í lok árs 2017. 

Verðmætin í aflaheimildum

Sú mikla verðmætasköpun sem hefur átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum árum er meðal áhugaverðustu og merkilegustu kafla í hagsögu landsins. 

Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson eru á meðal rikustu, og áhrifamestu, manna landsins.
Mynd: Samherji

Á einungis 35 árum hefur mikill auður safnast upp í sjávarútvegi, með mikilli hagræðingu og tæknivæðingu ekki síst, þar sem allt snýst um aflaheimildir, kvótann. 

Sé miðað við algengt virði á kvótanum í viðskiptum, og upplausn hans, er heildarvirði kvóta um 1.200 milljarðar króna. Það er upphæð sem nemur tæplega tvöföldu virði alls eiginfjár hjá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.

Eins og áður segir bendir margt til þess, að áframhaldandi uppbygging verðmæta í íslenskum sjávarútvegi muni auka umsvif stærstu félaganna í íslensku atvinnulífi. Gamalkunnugt tal um kolkrabba verður þá eflaust ekki langt undan, enda sjávarútvegsfyrirtækin í allt annarri deild en flest fyrirtækin í landinu þegar kemur að fjárhagslegum styrk.

Spurt og svarað um lykilatriðin í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu

Hvernig er úthlutun aflaheimilda?

Fiskistofa úthlutar aflamarki (í tonnum) til veiða á kvótabundnum tegundum til eins fiskveiðiárs í senn á grundvelli aflahlutdeildar hlutaðeigandi skips og ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um leyfilegan heildarafla í einstökum tegundum á fiskveiðiárinu (1. sept. - 31. ág.). Með aflahlutdeild er átt við það hlutfall (í prósentum talið) af leyfilegum heildarafla í kvótabundinni tegund sem fiskiskip má veiða af leyfilegum heildarafla í tegundinni.

Aflamark flestra tegunda miðast við fiskveiðiárið en það er tímabilið frá 1. september til 31. ágúst ár hvert. Flestir nytjastofnar á Íslandsmiðum eru kvótabundnir (98% af heildaraflaverðmæti).

Hvernig er flutningur aflaheimilda milli skipa?

Aflaheimildir (aflahlutdeildir og aflamark) verða lögum samkvæmt alltaf að vera bundin við fiskiskip. Að tilteknum skilyrðum uppfylltum og með ákveðnum takmörkunum er heimilt að flytja aflaheimildir á milli fiskiskipa. Flutningur aflaheimilda öðlast ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann.

Lögum samkvæmt mega yfirráð einstakra eða tengdra aðila yfir aflahlutdeildum almennt og í tilteknum einstökum tegundum ekki fara yfir ákveðin mörk.

Hvernig er sveigjanleikinn í aflamarkskerfinu?

Nokkur sveigjanleiki er innbyggður í aflamarkskerfið. Meginmarkmiðið með honum er að auðvelda útgerðarmönnum og sjómönnum að fara að settum reglum og stuðla að ábyrgri nýtingu fiskistofna. Í því sambandi má nefna að heimilt er að flytja allt að 15% af aflamarki flestra tegunda frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta og þá er heimilt að veiða allt að 5% umfram úthlutað aflamark skips á einstöku fiskveiðiári og dregst sá afli frá úthlutun á næsta ári.

Með tegundatilfærsla er átt við reglu sem heimilar að afli í einni tegund dragist að ákveðnu marki frá aflaheimildum skips í annarri tegund. Þessi heimild nær þó ekki til veiða á þorski.

Afli undir ákveðnum lengdarmörkum (“undirmálsafli”) tiltekinna tegunda, þorsks ýsu, ufsa og karfa dregst ekki að fullu frá aflamarki fiskiskips, enda sé honum haldið aðskildum frá öðrum afla um borð og vigtaður og skráður sérstaklega.

Allt að 5% umfram aflamark fiskiskips má, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, landa sem svokölluðum VS-afla og dregst sá afli ekki frá aflamarki hlutaðeigandi skips. Andvirði þessa afla rennur að stærstum hluta (80%) til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins en það sem eftir stendur gengur til útgerðar og áhafnar skipsins.

Heimilt er að stunda tómstundaveiðar til eigin neyslu. Við þær veiðar má eingöngu nýta handfæri án sjálfvirknibúnaðar. Óheimilt er að selja afla sem fæst við tómstundveiðar eða fénýta hann á annan hátt.

Hvað er aflamark?

Aflamark er tvenns konar, þ.e. almennt aflamark, sem nýta má með veiðum með öllum leyfilegum veiðarfærum og krókaaflamark sem einungis er heimilt að nýta með krókaveiðarfærum (handfæri og línu). Bátar sem stunda veiðar á grundvelli krókaaflamarks eru nefndir krókabátar. Þeir þurfa að vera minni  en 15 brúttótonn og er þeim einungis heimilt að stunda veiðar með línu og/eða handfærum. Óheimilt er að flytja aflaheimildir úr krókaaflamarkskerfi í aflamarkskerfi. Liðlega 700 bátar hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki.

Hvernig á að standa að vigtun afla?

Það er meginregla í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu að allur afli skuli veginn í löndunarhöfn. Löggiltir vigtarmenn annast alla vigtun afla samkvæmt ítarlegum reglum sem gilda um vigtun og skráningu sjávarafla. Fiskvinnslustöðvar og fiskmarkaðir geta, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, fengið leyfi til þess að endurvigta ísaðan fisk.

Hafnaryfirvöld skrá, strax að löndun lokinni, niðurstöður hverrar vigtunar í gagnagrunni Fiskistofu og Löndunarhafna (GAFL). Þannig hefur Fiskistofa alltaf nýjar upplýsingar um landanir afla og aflaheimildastöðu einstakra fiskiskipa og fiskiskipaflotans í heild. Þessar upplýsingar eru birtar jafnóðum á vef Fiskistofu.

Það er mikilvæg meginregla íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu að allan afla, sem kemur í veiðarfæri á að koma með að landi og láta vigta í löndunarhöfn. Brottkast afla er óheimilt og skal veiðum hagað þannig að þess sé gætt að afli skemmist ekki í veiðarfærum.

Við aflaskráningu á afurðum fullvinnsluskipa er aflinn reiknaður til aflamarks samkvæmt einstaklingsbundnum nýtingarstuðlum. Nýtingarstuðlar byggja á mælingum sem teknar eru um borð í fullvinnsluskipum samkvæmt ákveðnum reglum og aðferðum og með reglubundnu millibili. Fiskistofa gerir reglulega úttekt á nýtingarstuðlum einstakra skipa.

Hvenær má loka veiðisvæði?

Ef hlutfall smáfisks í afla mælist yfir ákveðnum mörkum er heimilt að loka veiðisvæði. Lokanir geta verið til skamms tíma (skyndilokanir) eða til lengri tíma (reglugerðalokanir).

Sérstakar reglur gilda um útbúnað veiðifæra, s.s. hvað varðar möskvastærð og smáfiskaskiljur og er þeim fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir veiðar á smáfiski eða aðrar skaðlegar veiðar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar