Mossack Fonseca var panamskt fyrirtæki, sem fyrir örfáum árum var það fjórða stærsta sambærilegra fyrirtækja í öllum heiminum. Viðfangsefni þess var að koma fjármunum, sem iðulega ekki voru löglega fengnir, á reikninga í skattskjólslöndum þar sem hægt var að ávaxta þá og fela fyrir yfirvöldum viðkomandi heimalanda. Það vakti svo alheims athygli þegar upp um starfsemina komst og Panamaskjölunum svokölluðu voru birt þar sem greint var frá viðskiptunum og hvaðan „viðskiptavinirnir“ væru komnir.
Íslendingar, sem vilja gjarna hvarvetna vera mestir og bestir, hrukku þó við þegar sagt var frá því að hvorki meira né minna en 600 Íslendingar væru á meðal þeirra, sem þetta eina fyrirtæki hafði hjálpað til þess að fela peningana sína í erlendum skattaskjólum. Þetta var mikill fjöldi hjá þessari litlu þjóð – enda hlutfallslega miklu stærri hópur en það sem upplýst var um nokkra aðra þjóð. Íslendingar sem sé þarna mestir og stærstir! En ekki bara mestir og stærstir heldur á meðal þessara 600 voru ekki bara ríkir menn og ríkar konur heldur einnig ráðherrar og framámenn í stjórnmálum, sem enn eru að verki til valda og studdir til verka af íslenskum almenningi.
Veist þú, lesandi góður, um nokkurt annað dæmi um slíkt skipulagt peningaþvætti meðal annara Evrópuþjóða? Nei – það veist þú ekki! Þykir þér þá undarlegt þó íslenska þjóðin – ekki íslenska landið – hafi verið sett á gráan lista yfir peningaþvætti? Þjóð, sem liðið hefur skattaskjól í þágu valdsmanna og auðmanna og svo þolað að þeim væri verðlaunað fyrir með tilboði um hagstæðara gengi en öllum almenningi var boðið og í beinu framhaldinu boðnar íslenskar eignir á útsöluverði. Þjóð, sem slíkt peningaþvætti lætur viðgangast átölulaust, hlýtur að eiga heima á gráum lista – ef ekki svörtum!!! Álitshnekkir? Auðvitað! Hvað annað?!?!
Höfundur er fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokksins.