Það hefur ekki farið fram hjá mér á ferðum mínum til landsins að undanfarið hafa dunið á okkur fréttir um að efnahagsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé að versna. Við höfum lifað við stöðugan vöxt undanfarin ár þar sem ferðamönnum hefur farið fjölgandi, krónan hefur styrkst og hjól atvinnulífsins snúist sífellt hraðar. En því miður bendir ýmislegt til þess að nú sé að hægjast á markaðinum og fréttir um glataðar fjárfestingar, tóma sjóði og aukin vanskil prýða síður fjölmiðla í síauknu mæli.
Sérfræðingar þjóðarinnar eru flestir sammála um það að blikur séu á lofti um að einhver samdráttur muni eiga sér stað. Vissulega eru skiptar skoðanir um það hversu djúp og löng dýfan verður, vonandi verður hún sem grynnst og varir sem styst.
Allar breytingar í efnahagslífinu hafa einhver áhrif á fyrirtæki sem þá á móti bregðast við. Þessi viðbrögð geta þýtt það að hreyfing kemst á markaði sem voru fastir í járnum áður. Fyrirtæki sem áttu trygga markaðshlutdeild geta misst spón úr aski sínum. Á sama tíma eiga fyrirtæki með nýjar og ferskar vörur og þjónustur greiða leið að markaðshlut þeirra fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum.
Það að hreyfing komi á markaði þýðir líka að ný og spennandi tækifæri birtast þér og þínu fyrirtæki. Spurningin er, hvernig ætlið þið að bregðast við? Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkur ráð fyrir fyrirtækjaeigandann, forstjórann eða metnaðarfulla millistjórnendur til að tryggja að vel gangi að grípa þau tækifæri sem bjóðast.
Vertu viss um að setja viðskiptavininn í fyrsta sæti
Þegar vel gengur hjá fyrirtækjum geta þau lent í því að missa sjónar á því sem skiptir þau mestu máli, það er að segja viðskiptavinurinn. Án viðskiptavina getur fyrirtækið ekki skapað neitt virði eða neinar tekjur. Nú er rétti tíminn til að fara í naflaskoðun, kortleggja upplifun viðskiptavina og greina virðisstraumana ykkar og þjónustur með það að markmiði að finna hvernig þið skapið sem mest virði. Með því að setja viðskiptavininn í fyrsta sæti getið þið haldið þeim í viðskiptum í stað þess að missa þá til samkeppnisaðila. Er viðskiptavinurinn í fyrsta sæti hjá þér í dag?
Þegar auðlindir eru af skornum skammti, skiptir öllu að nota þær rétt
Þegar að það harðnar í ári þarf að nýta þær auðlindir sem fyrirtækið hefur yfir að búa á sem besta máta. Í uppvexti er svo auðvelt að missa sjónar á því hvað skiptir raunveruleg máli. Nýttu tækifærið í kreppunni og bættu fókusinn í fyrirtækinu. Mikilvægustu auðlindir hvers fyrirtækis eru hugvit, tími og orka starfsmanna. Ef fyrirtækið þekkir viðskiptavini sína og þarfir þeirra vel þarf að gæta þess að virðisaukandi verkefni séu í forgrunni. Starfsemi og fjárfestingar sem hafa hvorki áhrif á ánægju né upplifun viðskiptavina ætti að endurskoða. Ert þú viss um að fyrirtækið þitt sé að nýta auðlindir sínar á besta mögulega máta?
Mundu að kreppan er tímabundin, en fyrirtækið til framtíðar
Ekki gleyma því að allar kreppur eru bara tímabundnar. Harðnandi rekstrarumhverfi gerir öll vandamál sýnilegri og lyftir þeim upp á yfirborðið þar sem allir finna meira fyrir þeim. Óhagræði í rekstri, hár kostnaður, langir viðbragðstímar og tækniskuld eru aðeins hluti af þeim vandamálum sem geta komið upp. Gættu þess að ráðast ekki í hagræðingar aðgerðir sem gætu skaðað fyrirtækið til lengri tíma litið. Með því að ráðast í verkefni sem búa í haginn til framtíðar munt þú ekki bara gera fyrirtækið þitt samkeppnishæfara heldur gætir þú aukið starfsánægju allra í leiðinni. Gættu þess að hlúa vel að vaxtarsprotunum í stað þess að fórna þeim fyrir vonlítinn rekstur.
Reyndu að vaxa og hafðu tilgang með sparnaðnum
Þegar það harðnar í ári getur verið freistandi að spara í kexinu, kaupa ódýrari kaffibaunir og fækka starfsfólki á stoðsviðum. Það má vissulega spara krónurnar þannig, en á móti kemur að breytingar til að spara krónur í umhverfi starfsmanna geta kostað þig þúsundkalla í formi óánægju, óvissu og lægri framleiðni. Þegar sparnaðarútreikningarnir eru gerðir þarf að spyrja sig hvað aðgerðirnar geta kostað með tilliti til mjúku málanna, áhættumeta þær og spyrja sig hvort þær séu þess virði. Klukkutímalangur fundur til að ræða kexsparnaðinn getur auðveldlega kostað meira en upphæðirnar sem sparast með því að skipta í ódýrara súkkulaðikex. Settu orkuna frekar í að elta vaxtartækifæri sem myndast í niðursveiflunni.
Notaðu tæknina til að bæta hag viðskiptavina
Stafræn umbreyting er heitt málefni í íslensku viðskiptalífi í dag. Með því að sjálfvirknivæða má ekki bara spara tíma heldur líka lækka kostnað. Af mörgu er að taka þegar við skoðum hvað má sjálfvirknivæða, með framförum á sviði sjálfvirknivæðingar, gervigreind og vélnámi má nánast sjálfvirknivæða hvað sem er. Gættu þess þó að hagræðingin sé ekki á kostnað upplifunar viðskiptavinarins eða vilja hans til að vera í viðskiptum við þig. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst reksturinn þinn um viðskiptavininn og upplifun hans. Ert þú að sjálfvirknivæða réttan hluta af viðskiptamódelinu þínu?
Hvað sem þú þarft að gera, gerðu það rétt
Það getur kostað mikið að gera rétta hlutinn sé hann gerður rangt. Með því að beita hugarfari straumlínustjórnunar (Lean) og kvikri nálgun (Agile) ásamt hönnunarhugsun (Design Thinking) má draga úr líkunum á því að þeir séu gerðir rangt. Dæmi um slíkar ákvarðanir gæti verið að læsast inni hjá byrgjum þegar nýjar tæknilausnir eru útfærðar. Að byggja flöskuhálsa inn í mikilvægar þjónustur og ferla, eða gleyma hreinlega mikilvægum þjónustuþáttum við endurhönnun þjónusta. Með því að setja smá tíma og orku í að hugsa það hvernig hlutir eru útfærðir getur þú sparað þér töluverðan hausverk.
Passaðu þig á pólitískum átökum
Það er engin góð leið til að segja það, en þegar það harðnar í ári aukast líkurnar á því að starfsfólk fari að benda á hvort annað og hætta að starfa saman sem heild. Þegar sölunum fækkar, eða viðskiptavinirnir verða óánægðir er hætta á því að sumir haldi að vandamálin séu öðrum að kenna, eða bendi einfaldlega á aðra til að draga athyglina frá sér. Til að yfirstíga efnahagslegar, samfélagslegar, pólitískar og rekstrarlegar áskoranir þurfum við öll að vera í sama liði, deila sameiginlegri sýn og vera samstíga. Mótun sameiginlegrar sýnar, framkvæmdaráætlunar og að huga að ánægju starfsfólksins hefur aldrei verið mikilvægara en núna. Eru allt samstarfsfólkið þitt að stefna í sömu átt?
Ef þú bíður of lengi er hætt við að þú hættir að skipta máli
Sumir segja að besta leiðin til þess að elda krabba sé að sjóða þá hægt og rólega. Það getur að sama skapi verið freistandi í rekstri fyrirtækja að bíða og sjá hvað gerist. Því stærra sem fyrirtækið er, og því hærri fjárhæðir sem eru undir, því líklegra er að þau bíði og sjái. Það að bíða og sjá getur verið dýr strategía fyrir fyrirtæki þar sem mun ódýrara getur verið að bregðast við atburðum strax og þeir gerast. Clayton M. Christensen skrifaði í bók sinni The Innovator‘s Dilemma um fyrirtæki sem sváfu á verðinum og brugðust of seint við. Á meðan þau biðu náðu samkeppnisaðilar að skapa nýja markaði, markaði þar sem eldri fyrirtæki voru ekki með í leiknum. Ætlið þið að bíða og sjá til hvernig málin þróast?
Kreppa sem þitt tækifæri?
Þegar erfiðleikarnir dynja yfir verður öllum ljóst að eitthvað þarf að gera. Nýttu það tækifæri til að keyra í gegn breytingarnar sem þú hefur lengi barist fyrir og hafa ekki komist að. Nýttu það tækifæri til að styrkja stöðu þína á markaði. Nýttu það tækifæri til að stappa stáli í fólkið þitt og styrkja liðsheildina. Ef þú þarft að breyta á annað borð, breyttu þá rétt.
Þau fyrirtæki sem standa sig hvað best við erfiðar aðstæður gera ekki bara eitthvað vel, heldur gera þau allt sem þau gera vel. Þau setja viðskiptavininn og þarfir hans í fyrsta sæti á sama tíma og þau auka skilvirknina hjá sér, draga úr kostnaði, standa saman og verja tekjurnar. Að taka slaginn á öllum þessum vígstöðvum er bæði erfitt og krefjandi. Því skiptir máli að vera með rétta fólkið með sér í liði, vita hvað þarf að einbeita sér að og grípa tækifærið sem kreppan bíður uppá. Bara þannig getur þú sótt fram á völlinn á meðan aðrir pakka í vörn.
Höfundur er búsettur í Stokkhólmi og er stofnandi og forstjóri ráðgjafafyrirtækisins CoreMotif ehf.