Það virðist vera orðið þjóðarsport að tala niður íslenska hlutabréfamarkaðinn þessa dagana. Veltan er of lítil, verðmyndunin léleg, of takmörkuð skoðanaskipti, skráð félög ættu að íhuga þann kost að fara af markaði o.s.frv.
Í flestum tilfellum kemur þessi gagnrýni frá góðum stað. Öflugur hlutabréfamarkaður er hverju þróuðu hagkerfi nauðsynlegur til þess að skapa tækifæri, sýnileika og störf, auka gagnsæi og tengja saman hagsmuni almennings og atvinnulífsins. Sérstaklega í jafn litlu og einangruðu landi eins og Íslandi, þar sem skráning á markað eins og Nasdaq getur skapað traust og trúverðugleika á erlendri grundu, opnað ýmsar dyr og liðkað fyrir vexti sem væri annars ómögulegur.
Það er mikið í húfi og því skiljanlegt þegar bent er á hvað megi betur fara, sem er vissulega eitt og annað. Slíkar ábendingar verða, aftur á móti, að grundvallast á staðreyndum. Annars er hætt við því að þær hafi þveröfug áhrif. Tökum sem dæmi veltu á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þegar litið er á veltu miðað við stærð fyrirtækja (veltuhraða), sem er einn besti mælikvarðinn á virkni markaða, er veltan það sem af er ári með lítil og meðalstór fyrirtæki að meðaltali mest hér á landi af öllum aðalmörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum, en mjög svipuð ef miðað er við stór fyrirtæki.
Það er því varla hægt að kvarta undan veltu með hvert og eitt félag. Flest íslensk fyrirtæki teljast aftur á móti lítil á alþjóðlegan mælikvarða og skráð félög eru of fá, sem skýrir líklega þennan misskilning. Það vantar einfaldlega fleiri félög á markað til þess að auka heildarveltuna. Það vantar fleiri lítil og meðalstór nýsköpunarfyrirtæki á markað til þess að skapa áhugaverð störf og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem leynast í íslensku hugviti. Það vantar fleiri stór fyrirtæki á markað til þess koma Íslandi betur á kortið hjá alþjóðlegum stofnanafjárfestum. Þetta mun seint gerast ef við höldum áfram að dreifa rangfærslum um lélega veltu og tala niður skráningar á markað.
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn stendur að mörgu leyti traustum fótum í dag en það er margt sem má betur fara. Við þurfum að greiða leið nýrra fyrirtækja inn á markað svo íslenskt atvinnulíf geti blómstrað og við þurfum að fá almenning og erlenda fjárfesta inn af meiri krafti til þess að fá fjölbreyttari skoðanaskipti og njóta betur „visku fjöldans“, svo dæmi séu tekin.
Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að stjórnvöld, atvinnulífið og fjármálakerfið taki höndum saman um að efla hlutabréfamarkaðinn, þegar hagkerfið er komið á bremsuna og bankar eru farnir að draga úr útlánum. Hættum að tala niður það sem gengur vel og göngum strax í að bæta það sem bæta má.
Höfundur er viðskiptastjóri hjá Nasdaq Iceland.