Í samræmi við óskrifaðan prótókol hafði ég hugsað mér að eftir að ég léti af embætti seðlabankastjóra myndi ég í nokkurn tíma taka sem minnstan þátt í umræðu um málefni Seðlabankans. Ég tel mig hins vegar nauðbeygðan til að gera hér undantekningu vegna þess á hve miklum villigötum umræðan er um peningaþvætti í tengslum við svokallaða fjárfestingarleið Seðlabankans á árunum 2011-2015. Ég sýni fram á í greininni að fullyrðingar um að fjárfestingarleiðin hafi verið opinber peningaþvættisleið standast ekki. Skilyrði fjárfestingarleiðar voru strangari en varðandi annað fjármagnsinnflæði og Ísland er ekki á gráum lista FATF vegna hennar.
Fjármagnsinnstreymi opið fyrir fjárfestingarleið
Þórður Snær Júlíusson er að mínu mati einn albesti blaðamaður landsins, ekki síst á sviði viðskipta og efnahagsmála. Í þessu máli hefur hann þó eitthvað villst af leið. Í Kjarnanum 21. október sl. heldur hann því fram að fjárfestingarleiðin hafi opnað leið inn fyrir höftin fyrir þá sem áttu fjármuni utan þeirra. Þetta er ekki rétt. Sú leið var opnuð í október 2009 þegar fjármagnshöft á innflæði erlends gjaldeyris vegna nýfjárfestingar hér á landi voru afnumin. Það var gert sakir þess að greiðslujafnaðarvandi Íslands var þá og í mörg ár á eftir útflæðisvandi en ekki innflæðisvandi. Þau sem komu inn með erlendan gjaldeyri eftir þetta þurftu að skipta honum í íslenskar krónur hjá fjármálafyrirtæki hér á landi og tilkynna um viðskiptin til Seðlabankans í gegnum fjármálafyrirtækið. Eftir það höfðu þau hvenær sem er heimild til útgöngu með þá fjármuni og alla ávöxtun þeirra. Samkvæmt lögum áttu bankarnir að kanna slíkar færslur eins og aðrar með tilliti til peningaþvættis og Fjármálaeftirlitið að hafa eftirlit með því að svo væri gert.
Fjárfestingarleiðin svokallaða var hluti af gjaldeyrisútboðum sem Seðlabankinn efndi til á árunum 2011-2015 sem miðuðu að því lækka stöðu aflandskróna og greiða þannig fyrir losun fjármagnshafta. Það tókst vel því samtals lækkaði staða aflandskróna vegna útboðanna um 175 ma.kr. eða úr um fjórðungi landsframleiðslu í u.þ.b. 13%. Í framhaldinu var hægt að ráðast í að losa fjármagnshöftin að langmestu leyti á árunum 2015-2017. Seðlabankinn gaf út ítarlega skýrslu um þessi útboð í ágúst sl. og vísast til hennar um nánari lýsingu en hér haldið áfram með peningaþvættisþáttinn.
Strangari skilyrði í fjárfestingarleið
Þeir sem tóku þátt í fjárfestingarleiðinni gerðu það í gegnum fjármálafyrirtæki (aðallega innlenda viðskiptabanka) sem höfðu gert samning við Seðlabankann um slíka milligöngu. Í útboðsskilmálum og í milligöngusamningum er skýrt tekið fram að fjármálafyrirtækin skyldu annast könnun á umsækjendum með tilliti mögulegs peningaþvættis. Það var ófrávíkjanlegt skilyrði að umsókn fylgdi staðfesting fjármálafyrirtækis að slík könnun hefði farið fram með jákvæðri niðurstöðu. Ætla mætti að þetta hafi valdið því að fjármálafyrirtækin væru meir á varðbergi en alla jafna. Þessu til viðbótar máttu umsækjendur ekki hafa brotið gegn fjármagnshöftunum eða vera til rannsóknar fyrir slík brot. Seðlabankinn kannaði sjálfur þetta atriði. Rétt er að geta þess að skattrannsóknarstjóri hefur fengið allar upplýsingar um þá sem tóku þátt í fjárfestingarleiðinni.
Af ofangreindu má ljóst vera að fjárfestingarleiðin var háð strangari skilyrðum en átti við um annað innstreymi. Þau sem ætluðu sér aðallega að flytja illa fengið fé til landsins voru því í betri stöðu til að fela slóð sína með því að fara eftir almennum leiðum sem opnar voru. Auðvitað kann það að vera að einhver í slíkri stöðu hafi eigi að síður freistast til að nota fjárfestingarleiðina þar sem krónurnar voru ódýrari, en þá hefur viðkomandi sett sig í hættu ef það fé tengdist skattsvikum eða öðrum afbrotum. Þeir sem fjárfestu í gegnum fjárfestingarleiðina þurftu að binda fjármunina í fimm ár, sem jók hættu fyrir viðkomandi á mögulegri frystingu og yfirtöku fjármuna sem tengdust glæpsamlegu athæfi.
Kannski er það skoðun Þórðar Snæs að Seðlabankinn hafi átt að setja enn strangari skilyrði en bankinn gerði. Í því sambandi er rétt að benda á að skilyrðin urðu að vera málefnaleg og eiga sér lagastoð. Þau voru ítarlega rædd bæði innan bankans og utan og gengið eins langt og talið var fært. Þórður Snær virðist gefa í skyn að Seðlabankinn hefði sjálfur átt að framkvæma peningaþvættisrannsóknirnar. Það hefði hins vegar gengið á skjön við það verklag sem tíðkast í þessu sambandi, hefði líklega kostað töluverða fjárfestingu Seðlabankans í upplýsingum og mannafla og hefði líklega ekki verið athugasemdalaust af hálfu annarra. Það er hlutverk banka að “þekkja viðskiptavini sína”enda búa þeir yfir miklum upplýsingum um þá í gegnum sín viðskipti. Hafi peningaþvættisathugunum fjármálafyrirtækja í tengslum við fjárfestingarleiðina verið ábótavant, sem ekki verður fullyrt um hér, stafaði það ekki af hönnun fjárfestingarleiðarinnar sem slíkrar og hefur þá líklega verið raunin í öðrum tilfellum einnig. Verkefnið var þá að bæta úr því.
Grálistun ekki vegna fjárfestingarleiðar
Umræður um þetta efni blossuðu upp á ný í framhaldi af ákvörðun FATF að setja Ísland á gráan list varðandi varnir gegn peningaþvætti. Ef það væri rétt sem haldið hefur verið fram að fjárfestingarleiðin hafi verið opinber peningaþvættisleið mætti halda að gerð hafi verið athugasemd við hana í skýrslum FATF. Mér er kunnugt um að sendinefnd FATF hafi fengið kynningu á fjárfestingarleiðinni og hafi verið afhentir skilmálar hennar á ensku í aðdraganda skýrslu FATF sem birt var á síðasta ári. Engar athugasemdir voru gerðar við fjárfestingarleiðina í skýrslunni né síðar en FATF er ekki þekkt fyrir að sitja á sér varðandi slíkt ef tilefni þykir til. Reyndar er það svo að því er ekki haldið fram í skýrslum FATF að þær athuganir sem eru framkvæmdar af hálfu bankanna á mögulegu peningaþvætti séu gagnslausar en eins og áður er fram komið var jákvætt vottorð fjármálafyrirtækis um slíka könnun skilyrði þess að fá að taka þátt í fjárfestingarleiðinni. Það er því alveg skýrt að grálistun Íslands hjá FATF hefur ekkert með fjárfestingarleiðina að gera.
Þetta útilokar ekki að eitthvað illa fengið fé hafi sloppið í gegnum nálarauga fjárfestingarleiðarinnar þótt ekkert hafi hingað til bent til þess að það hafi verið algengt. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga hvað felst í hugtakinu peningaþvætti. Einföld en algeng skýring er að peningaþvætti sé ferli þar sem ávinningi af ólöglegu athæfi sé umbreytt með þeim hætti að hann virðist lögmætur. Hér er það uppruni fjármunanna sem skiptir meginmáli. Að einstaklingur sem einhvern tíma hefur hlotið dóm flytji fé yfir landmæri þarf því ekki endilega að fela í sér peningaþvætti og skiptir þá engu máli hvað okkur kann að finnast um viðkomandi að öðru leyti. Vakni eigi að síður grunur hjá þar til bærum yfirvöldum að um peningaþvætti sé að ræða geta þau fengið allar upplýsingar frá Seðlabankanum um þátttakendur í fjárfestingarleiðinni, enda rangt sem haldið hefur verið fram að ekki liggi fyrir upplýsingar um hverjir keyptu og seldu gjaldeyri í viðskiptum við Seðlabankann í tengslum við losun fjármagnshafta.
Höfundur var seðlabankastjóri frá 2009 til 2019.