Bankarnir veita nauðsynlega þjónustu sem varðar okkur öll. Þeir stunda greiðslumiðlun, ávaxta sparifé og veita lán til húsnæðiskaupa eða annarra framkvæmda sem tengjast rekstri heimila og fyrirtækja.
Bankar eru ekki eins og hefðbundin hlutafélög á markaði heldur líkari veitustarfsemi, sjálfsagði þjónustu við almenning. Og tækniframfarir eru á fleygiferð sem nýta ætti til hagsbóta fyrir viðskiptavini bankanna.
En bankarnir stunda líka fjárfestingastarfsemi, stundum mjög áhættusama, sem fjármögnuð er með sparifé almennings. Bankar í eigu ríkisins ættu að draga sig út þess háttar starfsemi og selja þann hluta til einkaaðila. Ríkið á sem eigandi banka að tryggja almenningi aðgang að nauðsynlegri bankaþjónustu og að ódýrasta greiðslumiðlun sem völ er á standi öllum jafnt til boða.
Ríkið ætti að einbeita sér að viðskiptabankastarfsemi sem er fjármögnuð með innlánum en fela öðrum fjárfestingabankastarfsemi sem ekki er fjármögnuð með innlánum og sparifé. Þannig má tryggja að almenningur taki ekki áhættuna af glæfralegum fjárfestingum fjármálafyrirtækja.
Áhætta og kostnaður af fjárfestingum sem fara í súginn eiga að vera óskipt hjá þeim sem taka ákvörðun um áhættusöm viðskipti. Ekki hjá almenningi.
Mér finnst fráleitt að undirbúa sölu bankanna á meðan almenn umræða eða stefnumótun stjórnvalda um framtíðaskipulag fjármálakerfisins hefur ekki farið fram. Hvítbókin um framtíð fjármálakerfisins er ekki nóg enda mótuð um of af hugmyndafræði og hagfræði sem biðu skipbrot í bankahruninu 2008, nýja hugsun vantar og bókin virðist skrifuð fyrir þá sem vilja hugsanlega kaupa hluti í bönkunum.
Og sporin hræða þegar þeir tveir sömu flokkar eru nú í ríkisstjórn og síðast þegar bankarnir voru seldir með afleiðingum sem ekki þarf að minna landsmenn á hverjar urðu.
Það er liðin 11 ár frá bankahruni. Almenningur ber enn ekki mikið traust til bankakerfisins jafnvel þó að regluverk um fjármálakerfið hafi batnað frá hruni. Kannanir sýna hins vegar að fólk treystir ríkinu til að reka banka mun frekar en einkaaðilum.
Áform um sölu bankanna í óbreyttri mynd er því ekki vegna ákalls almennings. Kallið kemur úr annarri átt.
Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar.