Allnokkur umræða hefur átt sér stað um hræringarnar hjá Reykjalundi að undanförnu – hræringar sem eiga sér enga hliðstæðu innan stofnunarinnar og hafa haft neikvæð áhrif á orðspor, ekki bara Reykjalundar, heldur stjórnar SÍBS og (þ.a.l.) sambandsins í heild sinni. Það er því ástæða til að skoða þessi mál nokkuð, og reyna að átta sig á hvar orsakanna er að leita og hvort og þá hvaða leiðir séu til úrbóta. Það er jú býsna alvarlegt þegar starfsfólk stærstu rekstrareiningar sambandsins lýsa vantrausti á stjórn þeirra.
Áður en lengra er haldið er ráð að rifja upp nokkur atriði um SÍBS. Sambandið hélt upp á 80 ára afmæli sitt á síðasta ári. Starfsemi undir hatti þess er all viðamikil því rekstrareiningar auk Reykjalundar eru Múlalundur, verslun SÍBS og happdrættið, auk þess sem sambandið á aðild að HL stöðinni, Icelandic Health Symposium og Stuðningsneti sjúklingafélaganna (15 talsins).
Í 2. grein laga sambandsins er tilgangur þess tíundaður. Þar kemur fram meðal annars að SÍBS sé ætlað að sameina einstaklinga með berkla, hjarta¬sjúk¬dóma, lungnasjúkdóma, astma- og ofnæmi og svefnháðar öndunartruflanir og vinna að bættri aðstöðu og þjónustu við þann hóp.
Í lögum þess segir að æðsta vald í málefnum SÍBS sé í höndum sambandsþingsins sem halda skal að hausti ár hvert og þar sé stjórn valin sem fer með æðsta vald milli þinga. Fimm stjórnarmenn eru valdir af aðildarfélögunum og það val staðfest á þingi SÍBS. Formaður, varaformaður og þrír varamenn í stjórn eru kosnir á sambandsþinginu sjálfu. Í núverandi stjórn eru Sveinn Guðmundsson formaður, varaformaður er Sólveig Hildur Björnsdóttir, en aðrir stjórnarmenn eru Frímann Sigurnýasson, Kristín Eiríksdóttir, Pétur J. Jónasson, Selma Árnadóttir, Valur Stefánsson og varamenn þau Fríða Rún Þórðardóttir, Tryggvi Jónsson og Valgerður Hermannsdóttir. Þá er framkvæmdastjóri samtakanna, (Guðmundur Löve) starfsmaður stjórnarinnar. Síðasta þing var haldið 27. október 2018, en þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir, hvenær þingið verður haldið 2019.
Víkjum nú að stjórnarháttum almennt, en á undanförnum áratug hafa talsverðar breytingar orðið á viðhorfi til þess í hverju góðir stjórnarhættir felast. Það má líklega rekja m.a. til aukinnar fagmennsku í kjölfar framboðs á námi á þessu sviði og talsverðrar umræðu um hlutverk og starfshætti stjórna og stjórnarmanna undanfarinn áratug.
Rannsóknarmiðstöð um góða stjórnarhætti innan Háskóla Íslands býður upp á krefjandi nám á þessu sviði og náði þeim markverða áfanga á árinu að útskrifa hundraðasta „Viðurkennda stjórnarmanninn“. Rannsóknarmiðstöðin hefur einnig haldið árlega ráðstefnu um góða stjórnarhætti þar sem í boði hafa verið erindi innlendra og erlendra sérfræðinga á þessu sviði. Í tengslum við ráðstefnuna hafa verið veittar viðurkenningar til fyrirtækja sem þykja hafa sýnt fram á að þau ástundi góða stjórnarhætti.
Háskólinn í Reykjavík hefur einnig boðið upp á nám á þessu sviði og innan Stjórnvísi (stærsta stjórnunarfélag landsins, sjá www.stjornvisi.is) er starfandi faghópur sem fjallar um góða stjórnarhætti og málefni þeim tengd.
Á haustráðstefnu Stjórnvísi fyrir stuttu, var fjallað um traust og nokkrar hliðar þess (traust er „þema“ félagsins þetta starfsárið) – hvernig það verður til, hvernig það er að breytast og mikilvægi þess í starfsemi fyrirtækja og annarra stofnana. Í inngangsorðum að setningu ráðstefnunnar sagði Guðfinna S. Bjarnadóttir, ráðstefnustjóri frá því m.a. hvernig hún flokkaði gjarnan traust annars vegar sem faglegt og hins vegar sem samskiptatengt. Eitt lykilatriða í starfi stjórna er einmitt að skapa og viðhalda trausti milli stjórnar og hagaðila. Það er því mikilvægt í samhengi við áhrif á samskipti inn á við og út á við og ekki síður varðandi það hvernig ákvörðunum stjórnar og yfirstjórnenda er tekið.
Það er áhugavert að velta fyrir sér stöðunni hjá Reykjalundi í þessu samhengi, þar sem greinilega virðist eitthvað vanta upp á samskiptahliðina. Starfsfólk lýsir ástæðum óánægju sinnar sem hroka stjórnarmanna, skorti á samráði við bæði það og ekki síður fagráð stofnunarinnar.
Það má líka velta fyrir sér hvort sitjandi stjórnarmenn hafi faglega þekkingu til að bera á því hvaða ábyrgð, hverjar skyldur og kröfur um þekkingu þeir þurfi að uppfylla? Ég vil taka það skýrt fram að ég þekki lítt til starfa fólksins í stjórn SÍBS og hef því litlar forsendur til að gagnrýna faglega þekkingu þeirra á stjórnarstörfum og aðkomu að stjórninni.
Annað atriði sem e.t.v. er ráð að minnast á og hefur verið áberandi upp á síðakastið, er hvað krafan um áhættugreiningu varðandi starfsemi og ákvarðanatöku er sett framarlega í starfi stjórna. Í sjálfu sér er það ekki óeðlilegt, ekki síst samfara oft lítt ígrunduðum og hraðari fréttaflutningi, auknum kröfum um gagn- og gegnsæi og þ.a.l. meira aðhaldi hagaðila og almennings. Það er styttra í tortryggnina en oft áður og því þurfa vinnubrögðin að endurspegla það ástand. Ekki er það til að auðvelda málið og draga úr tortryggni þegar stjórnarmenn eru bundnir trúnaði, eins og formaður stjórnar SÍBS bar fyrir sig í viðtali við fjölmiðla.
Ef til vill væri ráð að auka á þekkingu á stjórnarháttum innan stjórna með aðkomu betur menntaðra stjórnarmanna á því sviði? Óháðir faglegir stjórnarmenn hafa einmitt þótt heppilegir til að auka gæði ákvarðanatöku í stjórnum, ekki síst með kröfum um fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og að aukið tillit sé tekið til langtímaáhrifa á rekstur og samskipti við hagaðila. Eins og áður sagði er erfitt að dæma um frammistöðu stjórnarmanna eins og í tilfelli SÍBS. En samt velti ég fyrir mér hvort ekki sé ástæða fyrir núverandi stjórn og aðildarfélögin að skoða alvarlega hvort ráð sé að endurnýja stjórnina til að reyna að bæta samskiptin og byggja upp traust á ný milli hennar, starfsfólks Reykjalundar og almennings? Traust til stjórnar er vandmeðfarið, brothætt og verðmætt.
Höfundur er alþjóðlega vottaður stjórnendaráðgjafi (CMC) og viðurkenndur stjórnarmaður (HÍ).