Neysla mjólkur og mjólkurvöru í þróuðum löndum hefur ekki aukist mikið frá 2008 ef trúa skal upplýsingum frá Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, (sjá t.d. töflu 7.4 hér). Neysla ferskvöru minnkar á tímabilinu 2008-2017, meðan neysla á geymsluvöru eykst lítillega. Áætlanir Matvæla og landbúnaðarstofnunarinnar (FAO) ganga út á að áframhald verði á þeirri þróun í þróuðum löndum. Væntanleg framleiðsluaukning er ekki meiri en svo að svari til framleiðniaukningar. Þess vegna er ekki ástæða til þess að hvetja mjólkurbændur til að auka framleiðslugetu sína í okkar hluta heimsins.
Á Íslandi eru það opinberir aðilar í samráði við hagsmunasamtöl sem „ákveða“ umfang mjólkurframleiðslunnar. Það mætti því að óreyndu ætla að Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Bændasamtökin höguðu framleiðslustýringu sinni í samræmi við líklega langtímaþróun framleiðni og eftirspurnar. Það hefði þýtt að þessir aðilar hefðu haldið aftur af vexti og vaxtaróskum einstakra framleiðenda og þess í stað mætt tímabundnum skorti á mjólkurafurðum með innflutningi. Slík pólitík stuðlar að jafnri tekjuþróun fyrir framleiðendur og dregur úr líkum á efnahagslegum kollsteypum í rekstri kúabúa. En þessu er ekki að heilsa. Stjórnvöld sölutryggja ákveðið magn mjólkur á hverju ári á föstu verði. Hið sölutryggða magn hefur aukist úr 123 milljónum lítra árið 2014 í 145 milljónir lítra árið 2019, þetta er aukning upp á 18% (eða 3,3% á ári). Ástæðan er að stjórnvöld og bændasamtök hafa elt skammtímatískusveiflur (sem m.a. urðu til þess að búa til smjör-bólu á alþjóðlegum mörkuðum fyrri hluta árs 2017).
Offramboð hrámjólkur til Mjólkursamsölunnar (MS) hefur orðið til þess að nú framleiðir MS alltof mikið af smjöri. Eðlilegast væri að bregðast við slíkum vanda með því að lækka verðið á smjörinu til íslenskra neytenda (heildsöluverð er nú 834 kr/kg) eða á rjómanum (heildsöluverð nú 904 kr/lítri í lausu máli). En það virðist ekki vera inn í dæminu. Svo virðist sem reiknimeistarar MS hafi komist að því að það borgi sig að selja smjörið úr landi. Hvernig skyldi nú það reikningsdæmi líta út?
Í frétt á vef RÚV að útflutningsverð á smjöri frá Íslandi hafi verið um 490 krónur á kíló. Lykilorð hér er "hefur verið". Verð á smjöri hefur nefnilega farið lækkandi frá því að smjörbólan sprakk árið 2017.
Evrópumarkaðsverð á smjöri (heimsmarkaðsverð) er 360 evrur á hver 100 kíló. Það gerir 500 kr/kg, sjá línurit sem heitir EU Average Dairy Market Prices 2019 Todate á þessari vefsíðu). Þá á eftir að draga flutningskostnað frá. Gefum okkur lágt mat á þessum kostnaði, segjum 50 krónum á kíló (sjá nánari greiningum með umtalsvert hærri verðum í sumum tilvikum). Það er því ólílegt að MS haldi áfram að fá 490 krónur á kílóið héðan í frá, sérstaklega ekki ef þessi 300 tonna útflutningur verður til þess að þeir þurfi að flytja hluta smjörsins inn til Evrópu á fullum tollkvóta!
Nettóskilaverð til MS vegna útflutnings smjörs til Evrópu er því líklega um 450-460 krónur á kílóið ef það er flutt út innan tollkvóta. Ef MS þarf að taka á sig segjum 30% lækkun vegna tolla þá er skilaverðið komið niður í 350 krónur. Tollurinn gæti verið hærri og ótalinn er hugsanlegur geymslukostnaður í landi kaupanda, markaðssetningarkostnaður, kostnaður við heilbrigðisvottorð og fleira. Ætli það sé ekki raunhæft að ætla að endanlegt skilaverð til MS verði nær 350-400 krónum á kílóið.
MS gæti því haft svona ca 90 til 120 milljónir króna upp úr því að selja "umframbirgðir" sínar til Evrópu.
Veltum nú fyrir okkur hvað MS þyrfti að lækka smjörið mikið í verði til að losna við 300 tonn. Það er um það bil 10% söluaukning eða svo. Gefum okkur að verðteygni smjörs sé -0,7. Þá má reikna út að það þyrfti að lækka verðið á smjörinu um 60 krónur á kíló. Heildarkostnaður gæti þá verið um 140 milljónir króna.
Og nú er komin skýringin á því af hverju reiknimeistarar MS komast að þeirri niðurstöðu að það sé hagkvæmara að selja smjör til Evrópu á 300-400 krónur kílóið þegar þeir geta líklega losnað við umframmagnið á innlendum markaði með því að lækka verðið. Ástæðan er að þeir geta forðast tap upp á 140 milljónir og í leiðinni fengið tekjur upp á 100 milljónir króna! Þetta geta þeir í krafti þess að þeir geta keypt og selt smjör á erlendum vettvangi meðan innlendir neytendur geta í raun aðeins átt viðskipti við MS. MS er í einkasölustöðu. Það er meira að segja tekið sérstaklega fram í lagabálki um sölu landbúnaðarafurða að MS heimilt að nýta sér einkasöluaðstöðu sína. Forráðamenn annarra fyrirtækja sem vildu haga sér með sama hætti ættu fangelsisvist á hættu ef þeir beittu sömu aðferðum. Alþingi gerir tilraun til að setja gróðasókn MS mörk með því að gefa Verðlagsnefnd búvara heimild til að verðleggja sumar mjólkurvörur, þ.m.t. smjör. Núna er semsagt lag fyrir ný-endurskipaðan formann Verðlagsnefndar landbúnaðarvara til að ganga í lið með almenningi og neytendum þessa lands og lækka verðið á smjöri um 60 krónur kílóið, eða svo.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.