Það hefur verið áhugavert að fylgjast með fréttum undanfarnar vikur um fjármál Landspítalans. Spítalinn hefur glímt við hallarekstur og hafa stjórnendur gripið til aðhaldsaðgerða. Læknaráð og fagstéttir hafa varað við aðhaldsaðgerðum og telja að þær muni bitna á þjónustu spítalans og jafnvel á öryggi sjúklinga. Þessir aðilar hafa ályktað um málið og m.a. hvatt til að fjárveitingar til spítalans verði auknar til að viðhalda faglegri þjónustu spítalans. Ályktanirnar hafa ekki hreyft við ráðamönnum sem hafa sérstaklega tekið fram að það sé undrunarefni að Landspítalinn sé alltaf að biðja um meira og meira fé!
Fjármálaráðherra hefur sagt að stjórnendur spítalans verði að halda sig innan marka fjárveitinga og það sæti undrun að ár eftir ár er spítalinn að óska eftir meira fé. Athyglisvert er að heilbrigðisráðherra hefur ekki gagnrýnt stjórnendur spítalans á sama hátt og fjármálaráðherrann.
Landspítalinn er ekki venjuleg stofnun, heldur hjarta íslenska heilbrigðiskerfisins. Stjórnendum spítalans er vorkunn, vegna þeirra skilyrða sem þeir þurfa að sæta frá ráðamönnum varðandi rekstur spítalans.
Í fyrsta lagi hefur spítalinn ekki fengið fullnægjandi fjárveitingar á yfirstandandi fjárhagsári vegna launahækkana og er sú ákvörðun algjört stílbrot af hálfu ríkisins, því hingað til hafa allar opinberar stofnanir fengið launahækkanir bættar og ekki þurft að skera niður í rekstri til að mæta launahækkunum.
Í þriðja lagi hefur verið skortur á hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og ljósmæðrum á Landspítalanum, sem hefur reynst spítalanum erfitt, bæði vegna aukakostnaðar (aukavaktir) sem og frestun aðgerða. Stjórnendur gripu á síðasta ári með góðum árangri til ýmissa aðgerða til að ráða fleira fagfólk, og þá sérstaklega hjúkrunarfræðinga en vegna fjárskorts verður ekki framhald af þessum aðgerðum.
Í fjórða lagi hefur verið skorið niður á heilbrigðisstofnunum á Suðurnesjum, Vesturlandi og Suðurlandi með þeim afleiðingum að sjúklingar frá þessum svæðum hafa í auknum mæli verið sendir á landspítalann eða legið þar í stað þess að liggja og njóta eftirmeðferða í heimabyggð Landspítalinn hefur ekki fengið auknar fjárveitingar til að mæta þessari aukningu frekar en vegna þess auka álags sem orsakast af fjölgun ferðamanna í landinu.
Í fimmta lagi þá ber að nefna að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem tók við völdum sumarið 2013, frestaði að hefja framkvæmdir við nýjan Landspítala um þrjú ár. Afleiðingar eru þær að spítalann er áfram rekinn á mjög óhagkvæman hátt, m.a. í nokkrum byggingum á víð og dreifð um höfuðborgarsvæðið. Þessi óhagstæðu rekstrarskilyrði sem spítalinn hefur þurft að búa við of lengi er hægt að telja í milljörðum. Ef menn hefðu borið gæfu til að ráðast í framkvæmdir árið 2013 á nýjum Landspítala væri verið að taka hann í notkun öðru hvoru megin við næstu áramót. Vegna frestunar þáverandi ríkisstjórnar mun nýji spítalinn (meðferðakjarni og rannsóknarhús) ekki verða tekinn í notkun fyrr en 2023.
Í nútímasamfélagi eru þrjár ástæður nefndar fyrir því að útgjöld til heilbrigðismála fara vaxandi. Í fyrsta lagi fjölgar öldruðu fólki og þar með sjúklingum, sem hækka kostnað vegna heilbrigðisþjónustu. Í öðru lagi eykur hin öra tækniþróun í heilbrigðisþjónustu kostnað við rekstur hennar og í þriðja lagi hefur seinustu áratugi orðið mikil sérhæfing í heilbrigðisþjónustu sem eykur kostnað við rekstur. Allar þessar þrjár ástæður eiga við rekstur Landspítalans.
Stjórnvöld hafa ekki mætt þeim áskorunum sem stjórnendur Landspítalans standa frammi fyrir nema að litlu leyti. Í stað þess að hnýta í stjórnendur spítalans sem eru ekki öfundsverðir af sínu hlutverki þurfa þeir sem stjórna fjármunum að setjist niður með stjórnendum spítalans og koma til móts við þeirra vel rökstuddu óskir um fjárveitingar.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.