Nýlega bárust fréttir um að tólf aðstoðar- og yfirlögregluþjónar hjá ríkislögreglustjóra og einn hjá lögreglunni á Suðurnesjum hefðu fengið 50 yfirvinnutíma fellda inn í fastalaun sín þannig að eftirlaunin yrðu mun hærri – en lífeyrir í B-deild LSR er reiknaður af dagvinnulaunum eingöngu. Vitaskuld vilja aðrir, óbreyttir, lögreglumenn fá hið sama en það yrði ekki auðsótt. Hér er nefnilega ekki um eðlilega gjörninga að ræða.
Á þessu ári brast öðrum lögreglumönnum loksins þolinmæðin gagnvart Haraldi Johannessen, þess sem gegnir embætti ríkislögreglustjóra. Til hans bera menn ekki lengur opinberlega traust, þótt það hafi væntanlega verið löngu farið áður.
Lausnin sem dómsmálaráðherra fann til að setja manninn á eftirlaun er sú að stokka upp í skipulaginu, sameina embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Einhverra hluta vegna er tillagan líka sú að færa hluta af embættinu á Suðurnesjum undir höfuðborgarsvæðið og fækka í yfirstjórn.
Þegar þeir fara á eftirlaun, sem væntanlega verður fljótlega (en þó örugglega ekki fyrr en eftir 2 ár – því þannig eru reglurnar), fá þeir því um 52% hærri eftirlaun en þeir hefðu fengið fyrir breytingu. Og alveg ókeypis – þar sem þeir hafa hingað til aðeins greitt iðgjöld til B-deildar lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna (LSR) af dagvinnulaununum.
Þetta er leyfilegt, segir dómsmálaráðherra. Það er hins vegar ekkert eðlilegt hér á ferðinni.
Við hin sem árið 1997 völdum á milli þess hvort við vildum vera í A-deild LSR frekar en áfram í B-deildinni vorum grunlaus um að þau okkar sem standa nærri siðferðisþreklausum yfirmönnum gætu á síðustu stundu fengið vænt eftirlaun hækkuð um 52% án þess að hafa meira fyrir því en eina undirskrift.
„Launasamningar“ þessir sem Haraldur Johannessen og Ólafur Helgi Kjartansson hafa gert við þrettán undirmenn sína eru að mínu mati eins og hvert annað siðlaust samsæri viðkomandi lögregluforingja um sjálftöku úr opinberum sjóðum. Ólíklegt er lögum verði komið yfir 15-menninganna. Það er hins vegar lágmarkskrafa að þeir verði allir látnir hætta störfum tafarlaust.
Höfundur hefur greitt 4% af heildarlaunum til LSR síðan 1997.