Ég get ekki sagt að athafnir Samherja hafi komið alveg á óvart. Starfsumhverfi útgerða og umgerð fjármálaviðskipta hérlendis er með þeim hætti að ólíklegt hefði verið að enginn færi yfir lagaleg og siðleg mörk í gróðasókn sinni. Vísbendingar síðustu missera um viðskipti tengdra félaga vítt um lönd hafa vakið spurningar sem ekki hefur verið svarað fyrr en nú. Þar sem reykur er þar er líka eldur stendur einhvern staðar. Það sem kom á óvart var hve upplýsingar Kveiks og Stundarinnar eru umfangsmiklar og afhjúpandi um þá margbrotnu og skipulögðu leynistarfsemi sem fram fór.
Hvað segir Samherjamálið okkur. Athyglin hefur eðlilega beinst að meintum mútum sem, ef sannar reynast, eru refsivert lagabrot. En málið afhjúpar margt annað sem ekki má líta fram hjá. Það gefur í fyrsta lagi sláandi mynd af því arðráni sem viðgengst í þróunarlöndunum. Í öðru lagi sýnir málið brest í viðskiptasiðferði og opinberar tvöfalt siðferði gagnvart fátækum þróunarlöndum. Í þriðja lagi birtist í því aðhaldleysi eftirlitsaðila. Í fjórða lagi afhjúpar það varanarleysi gagnvart peningaþvætti og skattsvikum og síðast en ekki síst er það enn eitt dæmi um eitraðan kokkteil valds og viðskipta hérlendis sem erlendis. Þess atriði mega ekki gleymast í hita leiksins.
Auðlindaarðránið í Namibíu í samvinnu íslensks félags og spilltra stjórnmálamanna þar í landi er dapurlegt dæmið um að svona arðrán dó ekki út með hruni nýlenduveldanna, en lifir góðu lífi hjá aðilum sem í krafti auðs og valda hafa tryggt sér aðgang að auðlindum í eigin löndum eða erlendis. Flestar náttúrauðlindir þróunarlandanna, olía, málmar og önnur verðmæt jarðefni eru fénýttar af erlendum aðilum án þess að skilja mikið eftir til hagsbóta fyrir fólkið í landinu aðra en þá sem sitja að völdum og nýta sér þetta til fjárhagslegs framdráttar eða pólitískrar valdeflingar. Þetta vekur óhjákvæmilega líka athygli á stöðunni í orkusölu til stóriðju hér á landi og það stingur í auga að hér á í hlut fyrirtæki sem að nátengdum aðilum meðtöldum hefur ókeypis aðgang að nærri fimmtungi fiskveiðiauðlindarinnar þjóðarinnar.
Gráir listar og svartir. Ísland var sett á gráan lista FATF fyrir skömmu. Féll það í grýttan jarveg hér á landi og töldu stjórnvöld þá ráðstöfun ómaklega. Samherjamálið sýnir hins vegar að öll skilyrði til peningaþvættis eru fyrir hendi og vekur þá spurningu hvort FATF hafi einfaldlega verið betur upplýst um raunverulegt ástand í þessum málum en íslensk stjórnvöld. Það er gömul saga og ný að íslensk stjórnvöld hafa ætíð dregið lappirnar oftast vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum” þegar að aðgerðum gegn skattsvikum og peningaþvætti hefur komið.
Því verður ekki á móti mælt með rökum að hér á landi er mikið ógagnsæi í starfsemi fyrirtækja einkum þeirra sem jafnfram eru með starfsemi, raunverulega eða til málamynda, í erlendri lögsögu. Skráning erlendra félaga í eigu íslenskra aðila er í molum, skráning raunverulegra eigenda og stjórnenda sömuleiðis og ársreikningar eru ófullkomnir og oft óðgengilegir þótt um sé að ræða stórfyrirtæki sem sýsla með auðlindir þjóðarinnar.
Í skattamálum er staðan engu betri. Götótt skattalög skapa ótal tækifæri til að fela hagnað og komast hjá skattlagningu hans m.a. með því að flytja hann úr landi. Því til viðbótar er stefna landsins í alþjóðaskattamálum óljós og virkni í samstafi á þeim vettvangi er ekki nægilega mikil m.t.t. þess sem er undir í þessum málum. Skatteftirlit er vanbúið til að sinna þeim flóknu málum sem fylgja alþjóðlegum viðskiptum og skattundanskotum. Staða skattrannsókna er stjórnsýslulega veik og tregða er í rannsóknum á sakamálum og saksókn á grundvelli þeirra.
Milliverðlagning og auðlindir. Þar er staðreynd að mikill hluti útflutnings þeirrar verðmæta sem unnin eru úr eða með auðlindum landsins er seldur erlendum aðilum sem eru í eigu eða eignatengslum við framleiðandann. Sama á við fjármögnun innan þessara félagasamstæða. Möguleikar til fjármálalegra sýndargjörninga og falskrar milliverðlagningar eru miklir. Íslensk löggjöf um milliverðlagningu eru óljós og eftirlit með henni erfitt. Skattyfirvöld eru ekki í stakk búin til að sinna því verkefni.
Mál Samherja hefur svipt hulunni af starfsháttum sem ekki eru viðunandi og allra síst hjá þeim sem fengið hafa leyfi til að nýta sameiginlega eign þjóðarinnar. Það er sprottið upp úr starfsumhverfi sem stuðlar að háttsemi sem þessari og mun hún halda áfram sé ekkert að gert. Það er ekki nægilegt að afgreiða þetta mál með skyndilausnum, afsögnum einstakar málsaðila frá störfum eða refsingum fyrir einstök lagabrot. Viðhorfsbreyting og aðgerðir til frambúðar eru nauðsyn.