Reykjalundur er ein af þeim stofnunum, sem við Íslendingar vísum til með stolti - flaggskip íslenzkrar endurhæfingar um áratuga skeið. Fagfólk um allt land hefur getað vísað sjúklingum í níu svið staðarins og jafnan hugsað til hans með þakklæti og virðingu.
Magnús Ólason hefur verið yfirmaður verkjasviðs og nú síðast forstöðulæknir Reykjalundar, og í raun helgað stofnuninni sína starfskrafta um áratuga skeið. Hann hefur notið virðingar og vinsælda sem læknir og vísindamaður og unnið starfsemi endurhæfingar í landinu ómælt gagn. Síðustu tólf árin hafði hann sér við hlið Birgi Gunnarsson, afar hæfan framkvæmdastjóra og vallgróinn sómamann.
Nú hefur þeim báðum verið „sagt upp” - þ.e.a.s þeir reknir, og minna aðfarirnar einna helzt á Sopranos - „nothing personal – just business” og þær aðferðir, sem beitt er í heimi viðskipta. Starfsfólk Reykjalundar hefur brugðizt við og mótmælt af krafti og margir sagt upp störfum, en aðrir íhuga uppsögn.
Þær afsakanir og skýringar ,sem fram eru bornar, eru hræmuglegar – „skipulagsbreytingar”, „í ferli”, „trúnaðarmál”, „nýtt skipurit” o.s.frv.. Þá hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri lækninga, sem - með fullri virðingu fyrir honum sem kollega – kemst ekki með tærnar í námunda við hæla Magnúsar Ólasonar hvað menntun, reynslu og hæfni snertir á sviði endurhæfingar almennt. Þá er talað um aldur Magnúsar. Að því bezt er vitað, er hann við hestaheilsu og starfsgeta hans með ágætum. Reykjalundur er einkarekin stofnun og getur því látið hann starfa mörg ár enn.
Sá sem þessar línur ritar starfaði í sjö og hálft ár undir stjórn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, þar sem svipuð viðhorf ríktu. Starf forstjóra var aldrei auglýst, en Guðjóni Brjánssyni „falið að sjá um” sameiningu 8 stofnana á Vesturlandi og í V-Húnavatnssýslu og Strandasýslu. Hann réði svo Þóri Bergmundsson, HNE-lækni og fjórtán aðra undirstjórnendur með eigin hendi – alla á Akranesi. Við, sem störfuðum á Franciskusspítala í Stykkishólmi, máttum svo búa við að loforð um samvinnu, sameiginlegar ákvarðanir um starfsemi o.s.frv. voru öll svikin, og aldrei heyrðist jákvætt orð af munni forstjóra um starfsemina á spítalanum, en þar er reyndar rekin eina deildin innan HVE, sem þjónar öllu landinu - Háls- og bakdeild . Þórir Bergmundsson skipaði undirritaðan „Yfirlækni sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi” – í framhaldi af því talaði hann aldrei við undirritaðan í 7 ½ - sjö og hálft ár - um starfsemi téðs „sjúkrasviðs”.
Það virðist hlaupa einhver andskoti í menn lítilla sæva og lítilla sanda, þegar þeir komast í þá aðstöðu að geta ráðskast með hámenntað fagfólk, sem nýtur virðingar og vinsælda, bæði meðal samstarfsfólks og skjólstæðinga. Það fer ekki hjá því, að tvö „prinsipp” komi upp í hugann - The Kruger-Dunning Effect og The Peter Principle. The Kruger-Dunning Effect er einfaldlega það fyrirbæri þegar menn eru svo óhæfir, að þeir átta sig ekki á því sjálfir. The Peter Principle kveður á um að menn, sem starfa í fyrirtæki eða stofnun, þar sem hægt er að ná frama, enda gjarnan í stöðu, sem þeir eru ekki hæfir til að gegna.
Skrattinn hirði allar „skipulagsbreytingar”, „ferli”, o.frv. – svona framferði er ruddaskapur!
Gott fólk – við erum fá í þessu landi – við höfum ekki efni á þessu!.
Höfundur er fyrrum „Yfirlæknir sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi” og fagmaður í teymi Háls- og bakdeildar St.Franciskusspítala.