Ætlar enginn (virkilega) að gera neitt í þessu?

Fyrrverandi utanríkisráðherra skrifar um að arðurinn af auðlindum Íslands, líkt og í Namibíu, renni til fámenns forréttindahóps í skjóli pólitísks valds.

Auglýsing

Mútugreiðslur Samherja til að krækja í arðvænlegar veiðiheimildir í Namibíu og feluleikurinn með gróðann á Kýpur og Dubai, ætti að vera Íslendingum ærin ástæða til að líta í eigin barm. Ísland er auðlindahagkerfi. Hvernig er háttað venslum auðjöfranna, sem hafa náð yfirráðum yfir sjávarauðlind þjóðarinnar, við stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn? Ef skyggnst er undir yfirborðið, kemur þá ekki á daginn, að það er fleira líkt með skyldum „í Súdan og Grímsnesinu“ en flestir halda við fyrstu sýn?

Rifjum upp nokkrar lykilstaðreyndir:

 1. Ástæðan fyrir því, að kvótakerfinu var komið á (1983-91) var sú að við óttuðumst, að frjáls sókn leiddi til ofveiði og jafnvel útrýmingar helstu nytjastofna.
 2. Markmiðið var tvíþætt: sjálfbær nýting fiskistofna, sem byggði á vísindalegri ráðgjöf um veiðiþol og aukin arðsemi þessa undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar með því að draga úr sóknarkostnaði (fækka skipum, auka sérhæfingu). Til þess að ná síðarnefnda markmiðinu verður að heimila útgerðaraðilum framsal – skipti á veiðiheimildum – til að auðvelda sérhæfingu og lækka kostnað.
 3. Við það að ríkið tekur að sér að takmarka sókn og skammta veiðiheimildir eru handhafar veiðiheimildar lausir við samkeppni, sem ella hefði að lokum étið upp hagnað allra. Við þetta myndast „auðlindarenta“. Hún er sá arður sem eftir stendur, þegar allur annar kostnaður, rekstrar- og fjárfestingarkostnaður, þ.m.t. fjármagnskostnaður og afskriftir, hefur verið greiddur. Auðlindarentan er andlag veiðigjaldsins, sem handhafar veiðiheimilda eiga að greiða eigandanum (þjóðinni) fyrir sérleyfið til að nýta auðlindina án samkeppni. Þetta er ekki skattur. Þetta er leigugjald fyrir sérréttindi. 
 4. Auðlindagjaldið, sem Norðmenn innheimta af handhöfum nýtingarréttar olíuauðlindarinnar, rennur í þjóðarsjóðinn, sem nú er orðinn öflugasti fjárfestingarsjóður í heimi. Með þessu móti rennur arðurinn af auðlind, sem er lögum samkvæmt eign þjóðarinnar, til þjóðarinnar allrar – en ekki til forréttindaaðila.
 5. Þegar aflamarkskerfið v ar fest í sessi 1988, fengum við jafnaðarmenn því framgengt, að þjóðarauðlindin var lýst sameign þjóðarinnar að lögum. Þetta gerðum við til að girða fyrir einkaeignarrétt á veiðiheimildum. Þegar framsalið var lögleitt (1990), settum við jafnaðarmenn skilyrði fyrir samþykki þess. Við bættum við varúðarákvæði, sem enn stendur og hljóðar svo: „Úthlutun veiðiheimilda... myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildinni“. Tímabundinn nýtingarréttur skyldi því hvorki mynda lögvarinn einkaeignarrétt né bótaskyldu á ríkið, ef úthlutun veiðiheimilda yrði breytt síðar.
 6. Fyrst í stað var sjávarútvegurinn sokkinn í skuldir. Auðlindarentan – sem andlag veiðigjalds – myndaðist því ekki fyrr en að fáeinum árum liðnum. Með nokkurri einföldun (aukin skuldabyrði erlendra lána eftir gjaldmiðilshrunið 2008) má segja, að s.l. tvo áratugi hafi auðlindarentan numið hundruðum milljarða króna. Í vandaðri grein um málið í Kjarnanum (16.10.19) tíundaði ritstjórinn, Þórður Snær Júlíusson, nokkrar lykilstærðir, sem varða þetta mál. Á árabilinu 2010-18 hafa handhafar veiðiheimilda greitt sér arð ,sem nemur 92,5 milljörðum kr. Á árabilinu 2008-18 hefur arðsemi sjávarútvegsins batnað sem nemur 447 milljörðum kr. Hagur sjávarútvegsins hefur því batnað mörgum sinnum meir en sem nemur álögðum veiðigjöldum, sem duga varla fyrir kostnaði ríkisins af þjónustu við sjávarútveginn (hafrannsóknir, landhelgisgæsla, hafnir o.s. frv.)
 7. Lögum samkvæmt má enginn einn útgerðaraðili eiga meira en samsvarar 12% af verðgildi heildarkvótans. Þórður Snær upplýsti, að þetta lagaákvæði er ekki virt í reynd. Þegar litið er á fyrirtækjasamsteypur einstakra aðila, hefur hinum stærstu leyfst að rjúfa þakið. Meira en helmingur veiðiheimilda í íslensku lögsögunni er nú í höndum fimm aðila.
  Auglýsing
  Þar fara fremstir í flokki Brim (áður Grandi), Samherjasamsteypan, vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, Kaupfélag Skagfirðinga og fylgifiskar og Þorbjörn í Grindavík. 
 8. Þessir aðilar hafa því í reynd hirt bróðurpartinn af auðlindarentunni í eigin þágu og komast upp með að borga fyrir forréttindin veiðigjald til málamynda, sem dugar varla fyrir útlögðum kostnaði ríkisins fyrir þjónustu við atvinnugreinina. Það er ekki nema von, að Þórður Snær spyrji: „Ætlar enginn að gera neitt í þessu?“ Hvar er sjómannafélagið? Hvar er verkalýðshreyfingin? Hvar er stjórnarandstaðan? Hvernig væri að þeir fjölmiðlar, sem nú virðast hafa rankað við sér, kynntu þennan nýja lénsaðal – sægreifana – sem virðast hafa náð hreðjatökum á pólitíkusunum – fyrir þjóðinni? Hvernig er það: Kynnti ekki Þorsteinn Már íslenska sjávarútvegsráðherrann fyrir kollega hans í Namibíu með þeim ummælum, að þetta væri hans ráðherra í ríkisstjórn Íslands?

Niðurstaðan er þessi:

Aflamarkskerfið með framsali hefur á s.l. tveimur áratugum skilað tilætluðum árangri varðandi sjálfbæra nýtingu fiskistofna og stóraukna arðsemi sjávarútvegsins. Þessi árangur hefur náðst fyrir tilverknað ríkisvaldsins ,sem hefur tekið að sér að takmarka sókn og úthluta veiðiheimildum. Gallinn á gjöf Njarðar er hins vegar sá, að þrátt fyrir lög, sem kveða á um sameign þjóðarinnar og eiga að girða fyrir einkaeignarrétt á veiðiheimildum, hefur auðlindarentan, sem við þetta myndast, runnið því sem næst öll til örfámenns hóps kvótaeigenda. Við þetta hefur myndast ný stétt ofurríkra, sem þiggur auð sinn í skjóli pólitísks valds.

Þar með erum við aftur komin til Namibíu. Það sama hefur gerst hér og þar. Arðurinn af auðlindum þjóðanna rennur til fámenns forréttindahóps í skjóli pólitísks valds. Ég endurtek spurningu Þórðar Snæs: „Ætlar enginn virkilega að gera neitt í þessu?“

Á tyllidögum tala stjórnmálamenn fjálglega um norræna samvinnu. Spurning okkar Þórðar Snæs snýst um kjarna málsins: Ætlum við að una því að vera í reynd skrípamynd af arðrændri nýlendu eða ætlum við að skipa okkur í sveit með hinum norrænu velferðarríkjum, sem flestum dómbærum mönnum ber nú orðið saman um, að séu fyrirmyndarþjóðfélög samtímans? Hvernig væri að Alþingi Íslendinga gerði nú út af örkinni fámennan hóp sæmilega vitiborinna manna og sendi til gamla landsins, Noregs, til að kynna sér framsýna auðlindapólitík í þágu almannahagsmuna? Við þurfum ekki að finna upp hjólið.

Höfundur var formaður Alþýðuflokksins – jafnaðarmanna flokks Íslands – 1984-96.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Fátækleg umfjöllun – Stefna Flokks fólksins í umhverfismálum
Kjarninn 20. september 2021
Meiri líkur en minni á því að hægt verði að mynda miðjustjórn sem teygir sig til vinstri
Þrjár gerðir fjögurra flokka stjórna sem innihalda miðju- og vinstriflokka mælast með meiri líkur á að geta orðið til en sitjandi ríkisstjórn hefur á því að sitja áfram.
Kjarninn 20. september 2021
Frá undirritun lífskjarasamningsins í apríl árið 2019.
Forsendur brostnar og örlög lífskjarasamningsins ráðist 30. september
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins frá 2019 séu brostnar, hvað aðgerðir stjórnvalda varðar. Formaður VR segir að örlög samninganna muni ráðast á fundi samninganefnda ASÍ og SA 30. september.
Kjarninn 20. september 2021
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn
Kjarninn 20. september 2021
Þorvarður Bergmann Kjartansson
Þegar sumir hafa vald yfir öðrum
Kjarninn 20. september 2021
Hildur Gunnarsdóttir
Húsnæðispólitík og arkitektúr
Kjarninn 20. september 2021
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
Gæti kostað 50-60 milljarða að gera 350 þúsund króna laun skatt- og skerðingalaus
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Ingu Sæland um að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.
Kjarninn 20. september 2021
Segja mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk fyrir græna orkuframleiðslu
Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem felast í orkuskiptum hérlendis og undirbúa innviði og regluverk fyrir samkeppnishæfa framleiðslu á kolefnislausum orkugjöfum, að mati tveggja verkfræðinga hjá EFLU.
Kjarninn 20. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar