Það hefur staðið lengi til að stytta leiðina frá meginhluta höfuðborgarsvæðisins til héraða norðan borgarinnar með svokallaðri Sundabraut. Ein ástæða fyrir drætti á að koma þessu í framkvæmd er val á leið yfir í Gufunes og þaðan til norðurs. Brú var talin vænlegur kostur, en til að Samskip gætu lagt skipum að bryggju fyrir framan vöruhús sitt þurfti það háa brú að kostnaðurinn jókst. Brúin yrði kennileiti í borginni, sem gerir sjónrænar og listrænar kröfur og ekki væri víst að göngu- og hjólreiðafólk gæti notað brúna.
Síðan hefur komið fram tillaga frá nefnd samgönguráðherra og Samtaka sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu um að byggja lágbrú, sem myndi leiða til þess að skip Samskipa þyrfti að afgreiða norðan brúarinnar. Fjarlægð er óveruleg. Eimskip hefur ítrekað flutt meginviðlegu sína lengra frá meginvöruhúsinu.
Sumir vilja þetta ekki. Af hverju veit greinarhöfundur ekki. Rökin gegn lágbrúnni halda ekki vatni.
Stjórn Faxaflóahafna hefur sent frá sér yfirlýsingu sem leiddi til þessarar fyrirsagnar í Morgunblaðinu: Hafnarstjórnin hafnar lágbrú, og er þar vitnað í formann stjórnarinnar.
Því er haldið fram að „lágbrú hafi almennt áhrif á þróunarmöguleika Sundahafnar, tekjuþróun og leiði af sér fjárfestingaþörf, sem ekki er tímabær í dag“. Þessi yfirlýsing kemur eftir fund stjórnar Faxaflóahafnar þar sem 7 síðna minnisblað hafði verið lagt fram. Í minnisblaðinu er á einum stað minnst á mjög gott yfirlit Ráðgjafarsviðs KPMG frá því í október 2018 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að gnótt lands sé til gámaafgreiðslu í Sundahöfn í marga áratugi miðað við vöxt í gámaflutningum. Byggt er á spá þar sem gert er ráð fyrir að gámafjöldi um Sundahöfn vaxi um 78% á 23 ára tímabili.
Í minnisblaðinu er gert mikið úr hættu á að lágbrú dragi úr nýtingarmöguleikum og að leiguhafar lóða geti mögulega átt rétt á bótum vegna slíkrar brúar. Nefndar eru lóðir vítt og breitt og ýmsar upphæðir.
Uppi eru tvær hugmyndir um brúarstæði, sitt hvorum megin Holtagarða. Brúarstæði norðan Holtagarða mundi vissulega draga mjög úr notkunarmöguleikum Vogabakka. Hann nýta nú Samskip. Þar kemur að auki stöku frystiskip og frystitogari, og lítil stórflutningaskip sem losa nálægt vörugeymslum byggingarvöruinnflytjenda. Ef brúarstæðið yrði norðan Holtagarða þyrfti að færa gámaafgreiðslu Samskipa norður fyrir, sem gerir að fjarlægð frá skipi að vöruhúsadyrum (en mestur hluti gáma er losaður annars staðar) verður svipuð og frá nýja krana Eimskips að vöruhúsadyrum þess. Lengingu fjarlægðar til vöruhúss Eimskips vegna nýju viðlegunnar hefur almennt ekki verið líkt við heimsenda. Greinarhöfundur veit ekki hver á að borga hverjum bætur fyrir það. Og veit ekki til að neinn eigi sérstakan rétt varðandi legupláss frystitogara, en þeim fer fækkandi. Þeir stækka og búnaður um borð einfaldar losun til þess að stopp við bryggju verði stutt, til þess að menn komist sem fyrst út aftur.
Lágbrúin yrði í slíkri hæð að undir hana getur allt á hjólum farið nema uppreistir kranar, sem eiga ekkert erindi þar um. Samt er í skýrslu nefndar samgönguráðherra og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgasvæðinu vísað til nefndarálits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þar sem segir að „skerðing á farmsvæðinu [hefði] til lengri tíma neikvæð áhrif á nýtingu svæðisins þar sem 4 hektarar yrðu ekki nýtilegir fyrir höfnina auk þess sem þverun svæðisins með vegamannvirki [hefði] áhrif á innri starfsemi þess“. Einhver hefur gefið umhverfis- og samgöngunefnd þessar upplýsingar og er kannski ekki við nefndina að sakast að engar staðreyndar röksemdir eru að baki fullyrðinganna. Enginn hefur haft fyrir því að kynna skýrslu KPMG fyrir nefndinni, eða meirihluta hennar.
Í sömu skýrslu er minnst á framtíðarsýn skipafélaganna; Samskip reikni með tvöföldun á næstu 10 árum og Eimskip þreföldun á ótilgreindum tíma. Ekki er annað að sjá en að tekið hafi verið mark á þessari sýn félaganna og talað um að „verði slíkt að veruleika hlýtur það að kalla á mikla endurskipulagningu á landnotkun óháð tilvist Sundabrautar“. Það virðist litið á það sem dónaskap að biðja menn að færa rök fyrir máli sínu. Miðað við spá KPMG vex markaðurinn um 17% á næstu 10 árum. Fari svo að spá um Samskipa tvöföldun gámamagns rætist, þá kæmi megnið af þeim vexti frá Eimskip, sem þá þyrfti umtalsvert minna land. Lausn á slíkum tilfærslum er að finna í skýrslu KPMG þar sem annars vegar er talað um samliggjandi gámasvæði og hins vegar sagt frá þessu: „Erlendis hefur færst í vöxt að sérhæfð fyrirtæki sjá um starfsemi gámahafna. Oft er þá höfnin í eigu opinberra aðila sem býður út rekstur með vel skilgreindum lykilþáttum er lúta að meðal annars stjórnarháttum, þjónustu, frammistöðu, verðlagningu og eftirlitsþáttum.“ Ef stjórn Faxaflóahafna beitir sér fyrir að koma rekstri gámaafgreiðslu á óháðan aðila mundi sá aðili kappkosta góða landnýtingu til framtíðar og lega Sundabrautar skiptir engu máli í því tilliti.
Ef farin er leiðin norðan Holtagarða er farið yfir geymslusvæði fyrir bíla sem á ekki að hafa meiri forgang en samgönguþarfir borgarbúa eða landsmanna allra, því Sundabraut er talin stytta leiðina frá nefndarhúsi Alþingis norður í land um 8 kílómetra.
Verði farið sunnan Holtagarða yrði sama land til staðar norðan Holtagarða til flutninga til hafnarsvæðisins og frá.
Einu byggingarnar sem hugsanlega yrðu verr settar eru skemmur og land syðst á svæðinu. Sjálfsagt væri fyrir byggðaþróun í borginni að skemmurnar væru rifnar, eigendum greiddar bætur og hin nýja Vogabyggð lengd aðeins til norðurs þannig að þar kæmist fyrir verulegt magn íbúða á besta stað í bænum.
Það er í raun með eindæmum að Faxaflóahafnir, sem krefjast hæsta vörugjalds sem þekkist í Norður Evrópu - sem er svo í stíl við hæstu uppskipunargjöld í Norður-Evrópu sem skipafélögin íslensku krefjast - skuli standa gegn framþróun eins og umbótum á vegatengingum, sem kæmu sér vel fyrir hjólreiðafólk og gangandi innanbæjar, og greiddu alla umferð til norðurs frá stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins.
Það væri meiri sómi að því að fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna stæði fyrir hámarksnýtingu á landi eins og því í Sundahöfn, landsmönnum öllum til hagsbóta, en taki ekki sífellt þátt í því sjónarspili sem tvíkeppni skipafélaganna leiðir til með tilheyrandi sóun lands. Um það má fræðast í skýrslu KPMG og í grein minni í Kjarnanum í vor.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu.Hægt er að gerast áskrifandi hérna.