Frá því að sögur hófust hefur auður haft tilhneigingu til að safnast á „fárra“ hendur. Þessi tilhneiging hefur að vísu verið mismikil eftir samfélagsgerð og auk þess hefur hún verið tilefni til ýmiss konar hugleiðinga og samlíkinga. Sú sem flestir kannast við er líklega dæmisaga Markúsarguðspjalls (10. kafli) um auðmanninn, úlfaldann og nálaraugað, enda er hún bæði skýr og umhugsunarverð.
Í ljósi þess konar hugleiðinga þarfnast ríkidæmi einstakra manna einhvers konar réttlætingar og menn hafa þá meðal annars reynt að vísa til þess að ríkir menn séu yfirleitt svo fáir að auður þeirra skipti ekki máli fyrir samfélagið í heild, enda láti sumir þeirra líka gott af sér leiða að öðru leyti. Má þó ljóst vera að slík „réttlæting“ – svo langt sem hún nær eða nær ekki – veltur algerlega á því að auðurinn sé hóflegur miðað við stærð samfélagsins þar sem hann verður til.
Við Íslendingar upplifðum gott dæmi um þetta í hruninu þegar einn af „meisturum“ þess reyndist hafa haft 30 milljarða króna í tekjur eitt árið, en því miður er sú tala svo stór að margir skildu hana ekki. Í arabíska talnakerfinu er hún skrifuð sem 30.000.000.000 – þrír með tíu núllum á eftir – og jafngildir hartnær hundrað þúsund krónum á hvert mannsbarn í landinu, eða hálfri milljón á hverja fimm manna fjölskyldu. Þarf varla að fjölyrða um það að slíka fjárhæð væri hægt að nýta með ýmsum hætti til verulegra hagsbóta í þjóðarbúinu; hún þurrkar í rauninni út mörkin milli „einkamála“ einstakra manna og þjóðarhags. Þó að talan sem nú er rætt um hjá Þorsteini Má sé sex sinnum minni eða svo, þá á þetta líka við um hana.
Auðlindin og örlög hennar
Íslendingar voru ekki auðug þjóð um aldamótin 1900, vegna einangrunar og fábreytni í atvinnulífi. En þetta breyttist hraðar en hjá nágrannaþjóðum á 20. öld, þannig að við stóðum í aðalatriðum jafnfætis þeim í lok aldarinnar. Það orsakaðist ekki síst af því að okkur tókst að virkja innflutta tækni til öflugra fiskveiða á gjöfulum miðum kringum landið. Mikilvæg skref í þá átt voru stigin upp úr miðri öldinni með útfærslu landhelginnar, þar sem þjóðin stóð saman sem einn maður gegn útgerðarauðvaldi breska heimsveldisins, sem þá var raunar í hnignun.
Nokkrum áratugum síðar var svo komið að hin verðmætu fiskimið voru í hættu sem auðlind vegna ofveiði okkar sjálfra, enda hafði skipaflotinn vaxið úr hófi fram. Stjórnvöld settu þá á laggirnar kvótakerfi til að takmarka heildarveiðina. Það kostaði nokkurn tíma og átök en tókst að lokum í meginatriðum, og telja flestir kvótaeigendur núna að þar með sé nóg að gert. En það er því miður ekki svo, því að tvö úrslitaatriði gleymdust í handaganginum við innleiðingu kvótans. Annars vegar var ekki hugað að því að úthlutun kvótans yrði réttlát og gagnsæ og mundi ekki leiða til óhóflegrar auðsöfnunar sem mundi spilla sáttum. Og hins vegar fórst fyrir að tryggja eiganda auðlindarinnar, þjóðinni, sanngjarnan hlut í arðinum af henni, og hafði þjóðin þó einmitt barist fyrir aðganginum að miðunum og fært fórnir í þeirri baráttu.
Græðgin og nýlendustefnan
Ein afleiðing kvótakerfisins, eins og það hefur þróast í meðförum stjórnvalda og samtaka útvegsmanna, hefur orðið sú að kvótinn hefur safnast á sífellt færri hendur eins og alþjóð veit, og virðist sem sumum stjórnmálamönnum finnist jafnvel enn ekki nóg að gert í því efni. Sumum fyrirtækjum hefur ekki heldur dugað að hafa íslensk fiskimið undir, heldur hafa þau sótt á mið í öðrum löndum og jafnvel í fjarlægum heimsálfum. Þau virðast láta sér í léttu rúmi liggja hvort slík hegðun stuðlar að því að úlfaldinn komist í gegnum nálaraugað.
Samherjamálið er ljótt mál hvað sem lagakrókum líður. Múturnar eru ljótur verknaður sem felur meðal annars í sér að arðinum af auðlindinni er stolið af réttum eiganda, namibísku þjóðinni. Auk þess er farið á svig við þá stefnu namibískra stjórnvalda að afli frá fiskimiðum landsins skuli verkaður í landinu. Orðspor Íslands er svert og unnið gegn langtímahagsmunum okkar allra; við erum ekki búin að bíta úr nálinni með það. Sárast af öllu er þó að horfa upp á það að íslenskt fyrirtæki er þarna komið í sama hlutverk gagnvart fátækri smáþjóð og útgerðarfyrirtæki breska nýlenduveldisins tóku sér gagnvart okkur sjálfum fyrir rúmlega hálfri öld. Græðgin hefur snúið þorskastríðinu á haus!
Ekki er síður leitt að heyra að fjármálaráðherra landsins mælir græðginni bót og segist ekki missa svefn af þessu máli. Hann stekkur upp á nef sér þegar menn vilja tryggja sem best að mál af þessu tagi fái sannfærandi rannsókn, og virðist telja að eigin loforð hans eigi að duga okkur. Skyldu þessi viðbrögð hans vera til þess fallin að auka traust okkar á honum?
Höfundur er prófessor á eftirlaunum við Háskóla Íslands.