Nú er tæp vika í þingkosningar í Bretlandi. Boris Johnson, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, boðaði til þeirra nánast undir þeim formerkjum að þær séu þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit, útgönguna úr Evrópusambandinu. Þegar tók að líða á kosningabaráttuna hefur þó komið í ljós að breskum almenningi er ekki alveg sama um önnur málefni líðandi stundar.
Ég bý í Canterbury, 60 þúsund manna bæ í suðaustur Englandi, sem fær að kalla sig borg því hér er dómkirkja landsins og sæti erkibiskupsins af Kantaraborg. Svæðið er fremur einsleitt, flestir íbúar tilheyra efri millistétt og langflestir eru hvítir á hörund. Hér eru þó einnig þúsundir háskólanema, enda þrír háskólar í borginni. Canterbury hafði verið öruggt vígi Íhaldsflokksins í meira en eina og hálfa öld, þangað til Verkamannaflokkurinn vann óvæntan, og mjög tæpan, sigur árið 2017. Það var Rosie Duffield sem hafði Sir Julian Brazier undir, en hann hafði verið þingmaður borgarinnar í þrjátíu ár fyrir Íhaldsflokkinn. Duffield var algjör nýgræðingur í stjórnmálum, en hún er einstæð móðir sem vann áður fyrir sér sem ófaglærður aðstoðarkennari í grunnskóla og reynt fyrir sér í skrifum og kvikmyndagerð. Canterbury varð þá rauður depill í því bláa hafi sem Kent-hérað er ennþá. Sigur Verkamannaflokksins hér í borg þótti ein óvæntustu úrslit kosninganna 2017, og má með góðum vilja líkja því við að Vinstri græn myndu landa sigri í Garðabæ, svo óvænt þóttu úrslitin. Sigurinn hefur verið skýrður með því að Verkamannaflokknum í Canterbury tókst að virkja háskólanema í borginni og fá þá á kjörstað í stórum stíl. Nú er tvísýnt með að Canterbury haldist rauð, enda skildu aðeins tæplega 200 atkvæði á milli Duffield og frambjóðanda Íhaldsmanna fyrir tveimur árum og eru aðrar aðstæður, og óhagstæðari, uppi í dag í landsmálunum.
Öflug grasrót Verkamannaflokksins
Það verður þó að segjast að miðað við braginn á borginni að Verkamannaflokkurinn er mun sýnilegri en aðrir flokkar. Þrátt fyrir að Íhaldsflokknum sé spáð sigri má sjá skilti og plaköt til stuðnings Duffield og Verkamannaflokknum út um alla borg, fólk gengur um með kosninganælur og víða má sjá fótgönguliða að bera út fagnaðarerindið.
Boris molar múrinn
Hvað sem kosningabaráttunni í Canterbury líður þá eru enn stærri tíðindi líkleg til að berast úr norðurhluta landsins þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Nú er talað um að Johnson takist að gera það sem engum Íhaldsmanni hefur tekist, að mynda sprungu í „Rauða múrinn“ í Norður-Englandi og Norður-Wales. Þennan múr mynda stórar borgir eins og Manchester, Liverpool, Sheffield og Hull. Vandinn er þó stærstur í minni bæjum og úthverfum í Rauða múrnum, sem áður voru mikil iðnaðarsvæði, eins og Stoke, Derby, Middlesborough o.s.frv. Verkamannaflokkurinn hefur getað gengið að þingsætum á þessum svæðum nánast vísum í áratugi. Sú alþjóðlega þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum, að vinnandi fólk hefur fjarlægst vinstriflokka, kemur illa niður á Verkamannaflokknum í Norður-Englandi. Þau sæti eru flokknum nauðsynleg ætli hann sé að landa sigri.
Í Norður-Englandi eru fyrir á fleti stórir hópar fólks sem hafa kosið Verkamannaflokkinn til áratuga en kusu með Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016. Verkamannaflokkurinn hefur verið að fjarlægst þennan kjósendahóp, og nú er svo komið að þeir eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Þetta á aðallega við karla á miðjum aldri og upp úr, sem hafa íhaldssamari skoðanir í félagsmálum og vilja sjá Brexit, harðari innflytjendalöggjöf og andsvar við hnattvæðingunni sem hefur leikið iðnaðarhéröðin grátt.
Arfleið Thatchers víkur fyrir Brexit
Sjálfsagt hefði einhver látið segja sér það tvisvar að verkamenn í gömlum kolaframleiðslu- og verksmiðjubæjum kysu Íhaldsmenn í stórum stíl. Þar unnu áður þúsundir í kolanámum sem ríkisstjórnir Íhaldsmanna, með Margaret Thatcher í broddi fylkingar, létu loka og verksmiðjur og annar iðnaður á svæðunum fylgdi fljótlega með og störfin flutt til landa þar sem vinnuafl var ódýrara. Efnahagsleg og félagsleg hnignun hefur síðan einkennt þessi svæði, sem og talsverð fyrirlitning á Íhaldsmönnum og Thatcher. Á síðari árum hefur andrúmsloftið þó frekar einkennst af vantrausti í garð stjórnmálamanna almennt, andstöðu við innflytjendur og stuðningi við Brexit.
Johnson hefur höfðað með skýrum hætti til þessara hópa. Hann hefur boðað miklar fjárfestingar í innviðum sem og styrki til svæða í Norður-Englandi sem hafa farið halloka, kallað eftir harðari innflytjendalöggjöf og lofað að koma Bretlandi út úr Evrópusambandinu. Margir kjósendur Verkamannaflokksins í „Rauða múrnum“ virðast því ætla að horfa framhjá vofu Thatchers og setja til hliðar gömlu fyrirlitninguna á Íhaldsmönnum.
Hinn eini sanni Brexit-flokkur
Í þessu liggur einmitt helsta sóknarfæri Íhaldsflokksins, því hann er orðinn hinn raunverulegi Brexit-flokkur. Vissulega er í framboði annar flokkur með því nafni undir forystu Nigel Farage, en hann hefur hinsvegar nánast dregið sig úr baráttunni og undir rós lýst yfir stuðningi við Johnson og Íhaldsflokkinn. Af þessum sökum hefur kosningabarátta Íhaldsflokksins verið frekar lágstemmd að öðru leyti en hvað varðar Brexit. Þó Johnson sé tíðrætt um aukin fjárframlög í heilbrigðiskerfið og fjölgun lögregluþjóna, er það meira í framhjáhlaupi og af hálfgerðu áhugaleysi. Stefnuskráin er þunn af yfirlögðu ráði, því þegar öllu er á botninn hvolft snýst allt um Brexit.
Hin pólitíska staða er sú að ef Íhaldsflokkurinn vinnur verður útgangan að veruleika á næstu tveimur mánuðum (eða því lofar flokkurinn allavega). Ef flokknum mistekst að ná meirihluta, verður útgöngunni frestað um óákveðinn tíma. Mjög ólíklegt er að Verkamannaflokkurinn hljóti meirihluta þingmanna, og komi til þess að Íhaldsflokkurinn tapi er líklegast að Verkamannaflokkurinn gangi til samninga við aðra flokka um einhvers konar minnihlutastjórn. Stefna Verkamannaflokksins er að semja upp á nýtt við Evrópusambandið og setja samninginn í þjóðaratkvæði, sem Jeremy Corbyn segi að taki aðeins hálft ár. Þetta yrði hann hinsvegar að semja um við Skoska þjóðarflokkinn og Frjálslynda demókrata. Hvort það takist er erfitt að segja og niðurstaðan gæti allt eins orðið aðrar þingkosningar snemma á næsta ári.
Sprungurnar í Rauða múrnum segja þó ekki allt um gengi Verkamannaflokksins. Fyrir aðeins nokkrum vikum stefndi í sögulegt afhroð hans, en nú, viku fyrir kosningar eru kannanir tvíræðar. Dregið hefur saman milli stóru flokkanna tveggja, Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins. Íhaldsflokkurinn hefur dalað lítillega á meðan Verkamannaflokkurinn hefur sótt í sig veðrið. Akkílesarhæll Íhaldsflokksins gæti nefnilega verið hans eigin kjósendur sem áður voru tryggir, þ.e. þeir Íhaldsmenn sem styðja áframhaldandi veru í Evrópusambandinu og hugnast ekki harðlínustefna Johnsons. Þessir kjósendur gætu setið heima eða kosið annað en Íhaldsflokkinn. Það er því ekki hægt að ganga neinu vísu og niðurstaðan gæti allt eins orðið þing án starfhæfs meirihluta (e. hung parliament).
Heilbrigðiskerfið selt Trump
Forysta Verkamannaflokksins hefur reynt hvað hún getur að leggja áherslu á önnur mál en Brexit, þá aðallega heilbrigðiskerfið, þjóðnýtingu lestakerfisins og afnám skólagjalda í háskólum. Stóra kosningabomba flokksins átti án efa að vera uppljóstrun Jeremy Corbyns á leyniskjölum sem á að hafa verið lekið úr samningaviðræðum ríkisstjórnar Johnsons við Bandaríkjastjórn um fríverslun eftir Brexit. Samkvæmt þeim skjölum er breska heilbrigðiskerfið á borðinu í samningaviðræðunum, og Verkamannaflokkurinn hefur haldið því fram að ekki aðeins muni Johnson einkavæða heilbrigðiskerfið heldur selja Donald Trump það í bútum. Uppljóstranirnar hafa ekki farið eins hátt og Corbyn ætlaði sér, og frekar má segja að hann hafi hlaupið á sig og lítið mark verið tekið á ásökununum. Afleiðingarnar virðast frekar vera þær að nú grassera samsæriskenningar á netinu um að Corbyn sé í slagtogi við rússneska hakkara sem hafi stolið gögnunum. Nokkuð stór hluti kjósenda virðist vera tilbúinn að trúa flestu illu upp á Corbyn, og það að hann sé föðurlandssvikari er því ekki svo langsótt í eyrum margra, enda mælast vinsældir hans í algjöru lágmarki.
Gyðingahatur og ylvolgt Brexit
Það er ekki bara vandræðagangurinn í kringum uppljóstrun þessara leyniskjala sem hafa komið Corbyn í koll. Honum hefur ekki tekist að verjast ásökunum um gyðingahatur í Verkamannaflokknum með sannfærandi hætti, og hefur þótt koma illa út í viðtölum að undanförnu vegna þessa. Corbyn hefur einnig átt í vandræðum með að verja stefnu Verkamannaflokksins í Brexit, sem kveður á um að semja upp á nýtt við Evrópusambandið og boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem valkostirnir yrðu fyrirliggjandi samningur eða áframhaldandi vera.
Johnson hefur líka fatast flugið
Johnson hefur einnig fengið sinn skerf af gagnrýni. Ýmis óviðurkvæmileg ummæli hans í gegnum tíðina hafa verið rifjuð upp. Hann hefur sagt börn einstæðra mæðra vera illa upp alin, fáfróð og óskilgetin, samkynhneigða karlmenn vera tank-topped bumboys (illþýðanlegt á íslensku) og ummæli hans um svart fólk er líklega best að sleppa að hafa eftir, en eru mest í ætt við eitthvað sem gæti hafa komið fram í sögunni um Svarta Sambó. Johnson virðist þó ætla að sleppa nokkuð billega og kjósendur ekki erfa þetta sérstaklega við hann. Hans helsta afsökun er sú að hann hafi jú skrifað svo mikið í gegnum tíðina að eflaust megi þar finna sitthvað misjafnt.
Þá hefði leiðtogaráðstefna NATO-ríkjanna, sem fór fram í London í vikunni, átt að vera tækifæri fyrir Johnson til að sanna sig sem heimsleiðtoga. Því tækifæri glutraði hann niður í vandræðagangi í kringum Donald Trump Bandaríkjaforseta. Nærvera Trumps þótti óþægileg fyrir Johnson. Trump hefur áður farið fögrum orðum um sinn breska kollega, sem er vont fyrir þann síðar nefnda því Trump er fádæma óvinsæll í Bretlandi. Þá hefur Johnson reynt að fjarlægja sig frá Trump vegna meintrar sölu breska heilbrigðiskerfisins til bandarískra fjárfesta. Ráðstefnan var svo kórónuð með myndbandi sem náðist af Johnson á tali við Justin Trudeau, Emmanuel Macron og fleiri, þar sem viðstaddir virtust gera stólpagrín af forsetanum. Trump móðgaðist, flýtti heimför sinni og fór í fússi. Í staðinn fyrir að koma fram sem statesman og landsfaðir, virkaði Johnson óöruggur og jafnvel svolítið vandræðalegur í þessu havaríi.
Í skugga árásarinnar á London Bridge
Þá eru glæpir og öryggi almennings ofar í huga kjósenda en árið 2017. Hnífstunguárásin á London Bridge í síðustu viku mun síst draga úr þeim áhyggjum. Þrátt fyrir að foreldrar eins fórnarlambanna hafi beðið stjórnmálamenn um að nýta sér ekki þessi voðaverk í pólitískum tilgangi, þá hafa stjórnmálamenn allra flokka gert sér mat úr þeim. Ásakanir ganga á milli, Johnson segir að Corbyn vilji fara mjúkum höndum um glæpamenn, á meðan Verkamannaflokkurinn sakar Íhaldsmenn um öfgafulla refsigleði.
Árásarmaðurinn var dæmur hryðjuverkamaður, sem var undir eftirliti lögreglu og hafði fengið bæjarleyfi til að sækja ráðstefnu um endurhæfingu fanga í London, en þangað mátti hann annars ekki fara því hann var enn álitinn hættulegur. Það er erfitt að segja til um á þessum tímapunkti hvort árásin muni hafa afgerandi áhrif á kosningarnar, það er ómögulegt að greina áhrif árásarinnar frá öllu öðru sem er að eiga sér stað í orrahríðinni sem stendur yfir. Þó er gott að hafa í huga að stjórnmálasálfræðin segir okkur að ótti og hræðsla, eðlilegar tilfinningar sem kvikna upp hjá almenningi í kjölfar hryðjuverkaárása, færi fólk til hægri frekar en vinstri (sjá t.d. hér og hér).
Sannarlega sögulegar kosningar?
Það er því enn talsverð spenna í kosningabaráttunni og allt getur gerst. Það er oft sagt um hverjar kosningar sem standa fyrir dyrum að þær séu sögulegar og úrslit þeirra sérstaklega mikilvæg. Það má þó færa sannfærandi rök fyrir því að kosningarnar í ár séu sannarlega sögulegar. Þær gætu það þýtt varanlega breytingu á landslagi breskra stjórnmála ef Íhaldsflokkurinn nær nýjum landvinningum í Norður-Englandi, sem og að Brexit verði loksins að raunveruleika. Þá eru hinsvegar enn eftir stórmál, eins og fríverslun við Evrópusambandið, útfærsla landamæranna á Norður-Írlandi, sem og samband Bretlands við umheiminn allan.
Höfundur er doktorsnemi í stjórnmálasálfræði við University of Kent.