Í lok ársins 2007 sagði færeyska ríkisstjórnin upp öllum fiskveiðiheimildum við Færeyjar með 10 ára fyrirvara og skyldi að því loknu taka upp nýtt kerfi, þar sem stefnt skyldi á uppboð á aflaheimildum. Áður en að því kom fór makríll að berast í umtalsverðum mæli inn í landhelgi Færeyja og árið 2011 voru í fyrsta sinn boðin upp 20.000 tonn af samtals 150.000 tonnum sem Færeyingar skömmtuðu sér.
Í upphafi árs 2018 var síðan farið af stað með nýtt kerfi þar sem boðið var upp 15 til 25% af veiðiheimildum helstu tegunda. Þá voru sett veiðileyfagjöld á aðrar aflaheimildir sem eiga að vera afkomutengd, þ.e. fylgja afkomu greinarinnar í heild sinni, svipað því fyrirkomulagi sem haft er á Íslandi.
Hægt er að bjóða í veiðiheimildir til eins, þriggja eða átta ára og er verðið á heimildum til þriggja eða átta ára tíma fast hlutfall af markaðsvirði á hverjum tíma. Á fyrri hluta þessa árs voru hæstu verð á veiðiheimildum fyrir makríl 6,62 danskar krónur fyrir kílóið, sem samsvarar um 120 ísl. kr. Uppboðsverð á botnfiski, aðallega þorski, var hæst 8,31 danskar krónur, um 150 ísl. kr. Til viðmiðunar er á Íslandi veiðigjald á makríl (með sérstöku veiðigjaldi) 13,55 krónur og veiðigjald á þorsk 13,88 krónur.
Það er hægt að rökræða endalaust mismunandi forsendur veiðileyfagjalds og hversu hátt það á að vera. Hins vegar er auðvelt að sýna fram á það sem fyrirtækin geta raunverulega greitt og treysta sér til – á uppboði. Séu einhverjar þær aðstæður, gæði hráefnisins, möguleikar í markaðssetningu, o.s.frv. sem valda verri afkomu þessara veiða hér á landi, mun það koma fram í markaðsverði á aflaheimildum.
Höfundur er framkvæmdastjóri og heimspekingur en MA-verkefni hans í heimspeki var: „Er uppboðsleið réttlát leið til úthlutunar aflaheimilda?“