Ömurlegar fréttir hafa verið til umræðu undanfarna daga. Spurningin vaknar: Hverjir eru samherjar í þessu stríði?
Er allt starfsfólk Samherja – samherjar? Alþýða og auðvald? – Svarið er vissulega nei.
Eru það hákarlarnir í Namibíu og mennirnir sem keyptu kvótann af þeim og greiddu mútur, „ráðgjöf“, til að liðka fyrir kaupunum; og létu sig ekki muna um að kaupa þennan kvóta á hærra verði en þeir kaupa kvótann okkar á Íslandi? – Já, þá má nefna samherja.
Eru íslenskir ráðamenn Samherja og namibískir hákarlar samherjar? Þeir sem með verkum sínum orsökuðu atvinnumissi fjölda fátæks fólks í Namibíu ? – Já, þeir eru í hæsta máta samherjar.
Er almenningur á Íslandi og stjórnendur Samherja - samherjar? – Nei, alþýðan á Íslandi tekur þátt í uppbyggingu samfélagsins með því að greiða ákveðinn skatt til hagsbóta fyrir okkur öll. En þeir sem flytja mikla fjármuni til Tortóla og annarra skattaskjóla – þeir hafa sagt sig úr lögum við land og þjóð.
Gífurlegur munur á viðbrögðum rannsakenda
Áþekk lög eru í gildi um mútur í Namibíu og á Íslandi. Einmitt þess vegna er athugunarvert að bera saman viðbrögð stjórnvalda og opinberra rannsakenda í báðum ríkjunum. Í Namibíu eru hinir grunuðu settir í gæsluvarðhald; gögn þeirra rannsökuð og reikningar þeirra frystir. Á Íslandi er málið skoðað fyrir luktum dyrum án þess að hinir grunuðu séu settir í gæsluvarðhald; án þess að húsrannsóknir séu gerðar hjá fyrirtækinu Samherja; án þess að eignir Samherja séu kyrrsettar og án þess að fjármunir fyrirtækisins og stjórnenda þess séu frystir.
Talsverð óvissa ríkir um hvernig málin munu þróast í Namibíu. Í landinu ríkir mikil spilling meðal æðstu stjórnenda þess og óvíst er hvort rannsakendur málanna fái hina grunuðu dæmda fyrir ósvinnuna. Bjarni Ben fjármálaráðherra telur einmitt að hægt sé að skýra atburðarásina alla með því að benda á þessa spillingu. Og hann er rétti maðurinn til að úttala sig um málið; hann hefur reynsluna; hann sat á skýrslunni um Panamaskjölin fram yfir síðustu kosningar, væntanlega sökum þess að hann mat það svo að fólkið í landinu væri ekki í stakk búið að skilja þessa flóknu hluti.
Lán í óláni
Þó kaldhæðnislegt sé má segja að það hafi verið lán í óláni að málið komst í hámæli. Nú neyðist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að grípa til róttækra aðgerða. En miklar efasemdir hljóta að vakna við það að Bjarni Ben og Kristján Júlíusson eiga að bera hitann og þungann á viðbrögðunum.
Það læðist að manni spurningin hvort VG hefðu ekki átt að leggja meir áherslu á að fá fjármálaráðuneytið frekar en forsætisráðuneytið í núverandi ríkisstjórn. Ég hefði treyst Katrínu betur til að taka á spillingarmálum á Íslandi en fulltrúum frjálshyggjunnar. En sjálfsagt hafa þingmenn VG lagt meira upp úr því að fá samþykkt útþynnt auðlindaákvæði í stjórnarskrána.
Skömm fyrir þjóð og land
Í dag eru margir, sem skammast sín fyrir að vera Íslendingar. Ekki af því að við höfum gerst sek um að arðræna fátækt ríki í Afríku, heldur fremur vegna þess að við höfum ekki staðið okkur í því að koma í veg fyrir svona glæpi.
Við hefðum átt að draga meiri lærdóma af kollsteypu Íslands í hruninu.
Við hefðum átt að koma í veg fyrir að óprúttnir fjárglæframenn svindli á okkur og á fólki í öðrum löndum með ósvífnum ránskap.
Við komumst út úr kreppunni með átaki sem kostaði margskonar fórnir.
Glæpurinn sem ræddur er í fréttunum þessa dagana er því að stórum hluta okkur að kenna.
Höfundur er framhaldsskólakennari.