Ráðgjafafyrirtækið CoreMotif hefur nú tvö ár í röð framkvæmt rannsóknina Fjárfestingar í upplýsingatækni. Könnunin var nú gerð meðal 1075 æðstu stjórnenda fyrirtækja á íslenskum markaði og var svarhlutfallið 4,83%. Í henni eru viðhorf stjórnenda gagnvart rekstri komandi árs eru könnuð en helsti áherslupunktur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á tengsl milli afkomuspár fyrirtækja og fjárfestingum í upplýsingatækni.
Ánægjulegt er að sjá á niðurstöðunum að eftir allt sem á undan hefur gengið síðastliðið ár búast um 55% stjórnenda við tekjuaukningu árið 2020 samanborið við 2019. Væntingarnar eru þó hófstilltari nú en þær voru fyrir árið 2019 þegar 68% bjuggust við tekjuaukningu. Flestir stjórnendur búast einnig við auknum útgjöldum í upplýsingatækni en stærstur hluti áætlar auka útgjöld um allt að 10 prósent.
Eva Dögg Þórisdóttir ráðgjafi hjá CoreMotif bendir á að þar sem búið sé að framkvæma rannsóknina tvisvar megi lesa úr niðurstöðunum áhugaverðra fylgni milli afkomuspár og væntra útgjalda til upplýsingatækni. Þannig muni til að mynda bæði í spám fyrir árið 2019 og 2020 um 10 prósentustigum milli væntinga til aukinna tekna og auknum útgjöldum í upplýsingatækni og sama mynstur megi sjá í öðrum svarflokkum.
Niðurstöður sýna einnig að fjöldi starfsmanna sem vinna við upplýsingatækni muni haldast óbreyttur hjá flestum fyrirtækjum en að aukin áhersla verði lögð á þjálfun starfsfólks. Það helst vel í hendur við það að aðeins 65% stjórnenda telur fyrirtæki sitt búa yfir allri eða megninu af þeirri þekkingu sem þarf til þess að klára þau verkefni farsællega sem nú eru í gangi eða stendur til að ráðast í árið 2020. Þetta bil virðast stjórnendur þó einnig ætla að brúa með verktökum og ráðgjöfum en rúmlega fjórðungur áætlar að nýta sér ráðgjafa og verktaka í auknum mæli árið 2020. Upplýsingatækni virðist því spila stærra hlutverk í rekstri fyrirtækja með hverju ári og fyrirtæki eru að bregðast við því með aukinni fjárfestingu á ýmsum sviðum.
Þessar niðurstöður undirstrika sívaxandi mikilvægi upplýsingatækni í rekstri fyrirtækja segir Jón Grétar Guðjónsson ráðgjafi hjá CoreMotif. Hann bendir ennfremur á það að skilin á milli hefðbundinna fyrirtækja og upplýsingatæknifyrirtækja séu sífellt að verða óljósari, sérstaklega nú þegar svo mörg fyrirtæki hafa stigið stór skref í átt að stafrænni umbreytingu.
Frekari niðurstöður og skýrslu um rannsóknina sjálfa má sækja á vefsíðu CoreMotif, www.coremotif.com undir hlekknum Research. CoreMotif er ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í stjórnendaráðgjöf til stærri fyrirtækja með áherslu á upplýsingatækni og nýsköpun. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 og hefur nú starfsstöðvar bæði í Reykjavík og Stokkhólmi.
Höfundur er búsettur í Stokkhólmi og er stofnandi og forstjóri ráðgjafafyrirtækisins CoreMotif ehf.