„Ég er stoltur sjóðsfélagi“, sagði frænka mín um ónefndan verðbréfasjóð í jólaboði um daginn. „Sáuð þið tilkynninguna frá þeim fyrir helgi, um minniháttar breytingu á fjárfestingarstefnunni? Ótrúlega spennandi“, hélt hún áfram. Nokkrir gestir í jólaboðinu tóku í sama streng eða nefndu til sögunnar aðra sjóði sem þeir voru sérstaklega spenntir fyrir.
Ofangreind frásögn er uppspuni. Svona samtal hefur væntanlega aldrei átt sér stað, enda eru hefðbundnir sjóðir í eðli sínu ekki mjög spennandi. Um og upp úr síðustu aldamótum voru samskonar samtöl aftur á móti nokkuð algeng í jólaboðum, þá varðandi einstök fyrirtæki frekar en sjóði. Frænkur og frændur voru stoltir hluthafar í fyrirtækjum sem þau höfðu trú á. Fylgdust með fréttum af þeim og voru hluti af einhverri vegferð, sem meðeigendur.
Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Bein eign einstaklinga á hlutabréfamarkaði hefur lækkað úr því að vera 11,5% árið 2007 og niður í 4,5% í dag. Augljósasta skýringin er að „hér varð hrun“. Það kemur samt fleira til, enda hafði framangreint hlutfall lækkað úr 17,2% í 11,5% á árunum 2002 til 2007. Önnur skýring er að smám saman var dregið úr skattalegum hvötum til hlutabréfakaupa, þar til þeir voru afnumdir árið 2002. Þriðja skýringin, og sú sem ég ætla að staldra aðeins við hér, er aukin áhersla banka á að einstaklingar fjárfesti í sjóðum frekar en hlutabréfum einstakra fyrirtækja.
Áður en lengra er haldið skal tekið fram að tilgangur minn með ritun þessarar greinar er ekki að hallmæla sjóðum. Þessi „árás“ á sjóði er sviðsett til þess að fanga athygli lesenda (já, ég skrifa um það óspennandi hluti að ég nota verðbréfasjóði til þess að ná til fólks). Sjóðir eru ein mikilvægasta stoð fjármálakerfisins og frábær leið fyrir fólk til þess að dreifa áhættu með einföldum og skilvirkum hætti. Ég vil því veg þeirra sem allra mestan.
Þar komum við einmitt að kjarna málsins. Ég er sannfærður um að beinar fjárfestingar einstaklinga í hlutabréfum og fjárfestingar þeirra í sjóðum séu stuðningsvörur, frekar en staðgönguvörur. Ef við beinum fólki frá því að kynna sér málin og kaupa hlutabréf og bjóðum þeim einungis að fjárfesta í tölum á blaði um sögulega ávöxtun og fjárfestingarstefnu gæti það hreinlega misst áhugann, sem kemur á endanum niður á sjóðunum sjálfum.
Að mínu mati þurfum við meira jafnvægi. Fleiri stolta hluthafa, sem fjárfesta hluta af sparnaði sínum í einstaka fyrirtækjum og dreifa svo áhættunni með fjárfestingum í sjóðum, innlánum og öðrum sparnaðarformum. Dræm þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar í för með sér, þar á meðal að nýliðun á markaði verður minni en ella og spennandi vaxtarfyrirtæki ná ekki að fjármagna sig. Lítil fyrirtæki með stóra drauma reiða sig gjarnan meira á fjárfestingar einstaklinga heldur en verðbréfasjóða, svo ávinningurinn er skýr.
Við þurfum að koma okkur úr því fari að horfa alltaf fram hjá almenningi sem þátttakanda í fjármögnun og rekstri atvinnulífsins. Hvetjum fólk til þess að kynna sér málin og taka eigin ákvarðanir, í bland við að útvista fjárfestingum til sjóða og annarra fagaðila. Í því felast mikil vannýtt tækifæri sem eru öllum aðilum fjármálamarkaðarins sem og atvinnulífinu til mikilla hagsbóta. Eflum fræðslu og endurhugsum alla upplýsingagjöf til fjárfesta, út frá mismunandi þörfum og þekkingu þeirra. Hóflegur skattaafsláttur til hlutabréfakaupa myndi einnig gera mikið til þess að hreyfa við nálinni.
Með öðrum orðum, komum fjárfestingum aftur á matseðilinn í jólaboðunum – en gerum það með ábyrgum hætti, svo gestirnir fái ekki í magann.
Höfundur er viðskiptastjóri hjá Nasdaq Iceland.