Hvað getum við lært af Norðmönnum?

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar um sjávarútveg í Noregi og á Íslandi.

Auglýsing

Kjarnagrein mín 12. des. s.l. um auðlindarentu og auðlindagjöld hefur vakið talsverð viðbrögð frá lesendum, einkum af landsbyggðinni. Kjarninn í gagnrýninni er þessi: Enda þótt aflamagnskerfi með framsali hafi náð tilætluðum árangri varðandi sjálfbærni veiða (með takmarkaðri sókn) og aukna arðsemi, þá hefur hagnaðurinn (auðlindarentan) safnast á fáar hendur og fórnarkostnaðurinn (sjávarpláss án veiðiheimilda) með tilheyrandi byggðaröskun og verðfalli eigna verið of hár. Við höfum ekkert sinnt hinum samfélagslega kostnaði. Þeir sem þetta segja hafa mikið til síns máls. Þetta er ástæðan fyrir því, að okkur hefur mistekist að skapa sátt um fiskveiðistjórnarkerfið.

 Að þessu leyti hefur Norðmönnum tekist mun betur til en okkur.  Þjóðhagslega er sjávarútvegurinn hvergi nærri eins mikilvægur hjá Norðmönnum og hjá okkur. Útflutningur sjávarafurða (og þ.m.t. fiskeldi)  skilar rúmlega 6% af gjaldeyristekjum Norðmanna vegna útflutnings. Olía og gas malar norsku þjóðinni gull umfram allt annað. Hvort tveggja eru auðlindir, sem að lögum eru sameign norsku þjóðarinnar. Nýtingarheimildir eru boðnar upp, og auðlindarentan rennur í sameiginlegan þjóðarsjóð. Stefna Norðmanna varðandi auðlindanýtingu  og þjóðhagslega arðsemi hefur vakið athygli um allan heim.

Norsk fiskveiðistjórnun byggir lögum samkvæmt á þrennu: Sjálfbærni, arðsemi og samfélagslegri ábyrgð. Sjávarútvegurinn er burðarás atvinnulífs í strandbyggðum Noregs. Ef ekki væri fyrir fiskveiðar, fiskvinnslu og fiskeldi, lægi við landauðn í þessum byggðarlögum. Útgerð, fiskvinnsla og fiskeldi eru forsenda atvinnu og búsetu á hinni löngu strandlengju Noregs.

Auglýsing

Þótt margt sé líkt með fiskveiðikerfi Norðmanna og Íslendinga, er reginmunur þar á að einu leyti. Á Íslandi skortir algerlega alla löggjöf um hina samfélagslegu ábyrgð þessa atvinnuvegar, sem er burðarás á landsbyggðinni. Á níunda áratugnum leiddu Norðmenn í lög margvísleg ákvæði um samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna gagnvart byggðarlögum á landsbyggðinni og settu að skilyrði fyrir úthlutun veiðiheimilda. Þess vegna ríkir, að flestra mati, meiri sátt um sjávarútvegsstefnuna þar í landi en hér. Við eigum að kynna okkur reynslu Norðmanna af þessari löggjöf og framkvæmd hennar. Það er óumdeilt, að Norðmenn hafa náð miklum árangri í alþjóðlegum samanburði með auðlindastefnu sinni og að af því megi mikið læra.

Þann 30. mars, 2017  birti eg hér í Kjarnanum grein um þetta efni undir fyrirsögninni „Hvað getum við lært af Norðmönnum?“ Þar segir meðal annars eftirfarandi:

Samvinnurekstur 

Í nýútkominni bók um, hvað Skotar geti lært af samskiptum Norðurlandaþjóða við Evrópusambandið, birtist fróðleg grein um þetta efni eftir norskan náttúruvísindamann, Duncan Halley að nafni (hann er skoskur að uppruna, en norskur ríkisborgari) (1). Í greininni kemur fram, að um auðlindanýtingu og dreifingu arðs af auðlindinni gilda tvenn lög: Lögin um auðlindanýtinguna hafa að markmiði að tryggja sjálfbærar fiskveiðar og þjóðhagslega arðsemi af rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Hin lögin kveða á um eignarhald á útgerðarfyrirtækjum með það að markmiði að tryggja, að arðurinn nýtist sem best byggðarlögum, sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, meðfram hinni löngu strandlengju Noregs. Það er samfélagslegi þátturinn.

Þessi lög kveða á um, að fiskiskip verða að vera í eigu einstaklinga, sem sjálfir stunda sjó eða vinna við stjórnun útgerðar. Þetta hefur leitt til þess, að flestir sem stýra útgerðarfyrirtækjum hafa sjálfir verið virkir sem sjómenn og/eða skipstjórnarmenn.  Ef skip eru í eigu hlutafélags, verður hlutafélagið að vera í eigu starfandi sjómanna eða stjórnenda í viðkomandi byggðarlagi. Fiskvinnslufyrirtæki mega eiga allt að 49.9%, en ráðandi hlutur verður að vera í eigu starfandi sjómanna, núverandi eða fyrrverandi, sem verða að starfa við útgerðina. M.ö.o. hluthafar verða að vera tengdir útgerðinni og byggðarlaginu. Við þetta bætist síðan, að samkvæmt lögum er afurðasalan í höndum samvinnufyrirtækja.

Samfélagsábyrgð

Norsk fiskveiðistjórnun byggir því lögum samkvæmt á þrennu: sjálfbærni, arðsemi og samfélagslegri ábyrgð. Sjávarútvegurinn er burðarás atvinnulífs í strandbyggðum Noregs. Ef ekki væri fyrir fiskveiðar, fiskeldi og fiskvinnslu, lægi við landauðn í þessum byggðarlögum. Útgerð og fiskvinnsla er einfaldlega forsenda atvinnu – og þar með –  búsetu. Sjávarútvegurinn stendur fyrir mikilli verðmætasköpun. Hann er næststærsti útflutningsgeirinn. Á það er lögð rík áhersla, að sjávarútvegurinn sé rekinn í sátt við hið náttúrulega umhverfi. Meira en 70% allra fiskveiða eru úr stofnum, sem njóta vottunar fyrir sjálfbærni. Þetta er hæsta hlutfall, sem þekkist í heiminum. Þess vegna eru norskir fiskeldismenn að færa sig um set til Íslands, þar sem lög og reglur um vernd náttúrunnar eru öll í skötulíki. 

„Helstu nytjastofnar eru í góðu ásigkomulagi“, að sögn OECD. „Nýting sjávarauðlindarinnar og stjórnun fiskveiða byggir á niðurstöðum vísindalegra rannsókna“, að sögn FAO, matvælastofnunar SÞ. „Fiskveiðistjórnun Norðmanna er fyrsta flokks í heiminum“, að sögn Marine Stewardship Council.

Vegna örra tækniframfara var svo komið á áttunda áratugnum, að margir fiskistofnar innan norsku lögsögunnar voru ofveiddir. Sumir stofnar beinlínis hrundu (eins og gerðist innan lögsögu ESB). Ríkið dældi gríðarlegum fjármunum inn í greinina til þessa að forða gjaldþrotum og brottflutningi fólks úr strandbyggðunum.  

Kerfisumbætur

Ráðist var í kerfisumbætur, sem hafa skilað miklum árangri. Á s.l. 30 árum (frá 1985-2015) hefur hrygningarstofn uppsjávarfisktegunda vaxið um 51%. Hrygningarstofn djúpsjávartegunda hefur vaxið sem svarar 340%. M.ö.o. nýtingu sjávarauðlindarinnar hefur verið hagað með þeim hætti, að afrakstur auðlindarinnar hefur vaxið umtalsvert.

Sértækir styrkir til sjávarútvegsins hafa verið aflagðir fyrir utan undanþágu frá sérstöku mengunargjaldi á eldsneyti. Eftir standa styrkir vegna t.d. endurhæfingar og starfsþjálfunar, sem gilda almennt fyrir atvinnulífið. 

Öfugt við Evrópusambandið hafa norskir sjávarútvegsráðherrar aldrei sniðgengið vísindalega ráðgjöf um aflamark. Aðalatriðið er, að lagaákvæðum um samfélagslega ábyrgð er fylgt eftir, þannig að tekjur og arður sjávarútvegsfyrirtækja rennur um æðakerfi samfélagsins í sjávarbyggðum. Þetta á ekki bara við um tekjur starfsfólksins heldur einnig arð fyrirtækjanna og hagnað eigendanna. Fiskistofnarnir eru í góðu ásigkomulagi. Undantekningarnar eru deilistofnar, sem að hluta tilheyra fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Víðtæk samfélagsleg sátt ríkir um þetta fyrirkomulag auðlindanýtingar og samfélagsábyrgðar. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

1. Grein Dr. Duncans Halley „Fishing, Forestry and Agriculture and the Norwegian Model“ birtist í ritinu: „McSmörgaardsbord – What post-Brexit Scotland can learn from the Nordics“, Luath Press ltd., 543/2 Castle Hill, The Royal Mile, Edinburgh EH1 2ND.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Við mölunina eru notuð tæki sem eru búin hnífum eða löngum plastþráðum sem snúast hratt og sjálfvirkt. Afköstin skulu vera, að því er fram kemur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans, nægilega mikil til að tryggja að öll dýrin séu deydd samstundis.
Mölun karlkyns hænuunga „er hryllileg iðja“
Á Íslandi er heimilt að beita tveimur aðferðum við aflífun hænuunga; gösun og mölun. Báðum aðferðum er beitt á tugþúsundir unga á ári. „Allir karlkyns ungar sem fæðast í eggjaiðnaði eru drepnir eftir að þeir klekjast út,“ segir formaður Samtaka grænkera.
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar