Í viðjum kvóta og kvótaþaks

Þórólfur Matthíasson skrifar um innviði og innviðavanda sjávarútvegs og landbúnaðar á Íslandi.

Auglýsing

Í þess­ari grein er ætl­unin að tæpa á nokkrum atriðum sem snúa að innviðum og inn­viða­vanda land­bún­aðar á Íslandi ann­ars vegar og sjáv­ar­út­vegi á Íslandi hins veg­ar. Þessar greinar búa um margt við ólíkar ytri aðstæð­ur. En eins og vikið verður að undir lokin er þær runnar af sömu rót þó svo áhrifa­máttur hafi snú­ist við og land­bún­aðar nú minni máttar í öllum sam­an­burði. Vikið verður að óleystum vanda­málum sem tengj­ast innviðum hvorrar greinar fyrir sig, en augum einnig beint að sér­kennum kvóta­kerf­anna í báðum grein­um.

Óleyst verk­efni í land­bún­aði við ára­mót

Þrátt fyrir umfangs­mik­inn opin­beran fjár­stuðn­ing og háa toll­múra er afkoma sauð­fjár­búa ákaf­lega bág­borgin og virð­ist heldur fara versn­andi. Alla vega séu tölur Hag­stof­unnar skoð­að­ar. Tvennt gruggar þá mynd tals­vert. Í fyrsta lagi ásókn fjár­sterkra aðila (er­lendra og inn­lendra) í bújarð­ir. Í öðru lagi atvinnu­hátta­breyt­ing í sveit­um. Hinir fjár­sterku aðilar sækj­ast reyndar ekki eftir jörðum til að stunda búskap heldur til að byggja upp lax­veiði eða aðra afþr­ey­ingu fyrir efna­fólk. Atvinnu­hátta­breyt­ingin teng­ist ferða­mennsku, þ.e.a.s. afþr­ey­ingu venju­legs fólks og milli­stétt­ar­fólks. Árið 2015 skil­aði Rann­sókn­ar­stofnun Háskól­ans á Akur­eyri skýrslu um sam­fé­lags­lega þýð­ingu sauð­fjár­bú­skap­ar. Þar var reynt að rök­styðja þá til­gátu að sauð­fjár­bú­skapur væri límið sem héldi byggðum saman. Nú þarf ekki annað en að aka eftir þjóð­vegum lands­ins til að átta sig á að lífið á lands­byggð­inni er hvorki salt­fiskur né sauð­kind heldur ferða­mað­ur­inn. Sauð­fjár­bú­skapur er ekki lengur límið í byggð­un­um. Það má reyndar einnig velta fyrir sér hvaða raun­veru­leika, ef nokkrum, afkomu- og efna­hags­tölur Hag­stof­unnar fyrir sauð­fjárbú lýs­ir. Fáir, ef nokkrir, sauð­fjár­bændur búa ein­vörð­ungu við tekjur af sauð­fjár­rækt. Tekj­urnar eru „drýgð­ar“ með rekstri tengdum ferða­mennsku, skóla­akstri og annarri þjón­ustu­starf­semi. Það er full ástæða til þess að breyta fram­setn­ingu afkomu- og rekstr­ar­talna fyrir fyr­ir­tæki í sveitum lands­ins og hætta að miða fram­setn­ingu við ímynd­aðar ein­ingar á borð við sauð­fjár­bú.

Auglýsing
Hverju sem því líð­ur, þá eru nú óvenju góðar aðstæður til að „skipta um stýri­kerfi“ á lands­byggð­inni, hverfa frá þeirri hug­mynd að eitt hryggjar­stykkið skuli vera sauð­fjár­ræktin sem býr, eins og áður seg­ir, við lélega afkomu auk síminnk­andi inn­an­lands­neyslu og árlegrar bruna­út­sölu á umfram­birgðum í útlönd­um. En svo virð­ist sem for­ystu­menn í land­bún­aði og í Atvinnu­vega­ráðu­neyti loki augum bæði fyrir tæki­færum og fyrir vanda­málum í grein­inni. Eins og rakið er hér fyrir neðan hafa bændur og stjórn­völd komið sér saman um að festa í sessi fyr­ir­komu­lag bein­greiðslna sem mun tefja búhátta­breyt­ingu veru­lega og nán­ast banna þeim sem vilja bregða búi að gera það með reisn. Jafn­framt er gerð gang­skör að því að setja hömlur á kaup á jörðum ef ætl­unin er að nýta þær ekki eða nýta þær til úti­vistar og lax­veiða. Hér virð­ist sem sam­komu­lag sé um að „álútir skuli menn ganga og hoknir í hnjánum“, enda hentar slíkt göngu­lag vel í þýfðu lands­lagi.

Staðan í mjólk­ur­fram­leiðsl­unni er tals­vert önnur en í sauð­fjár­rækt­inni, á ytra borði alla vega og sé horft til nið­ur­stöðu rekstr­ar­reikn­ings. En þar með er ekki nema hálf sagan sögð. Eft­ir­spurn eftir mjólk­ur­af­urðum er haldið uppi með háum tollum á ostum og smjöri. En um helm­ingur inn­lendu fram­leiðsl­unnar er nýttur í vinnslu þess­ara afurða. Þá hafa tísku­sveiflur tíma­bundið aukið eft­ir­spurn eftir fitu­hluta mjólk­ur­inn­ar. Sú sveifla er sjálf­sagt eitt­hvað að snú­ast við auk þess sem mat­ar­venjur yngra fólks eru í veru­legri deiglu þessi miss­erin (núna þarf mið­aldra fólk og eldra að læra að búa til vegan mat vilji það lokka allan barna og barna­barna­flokk­inn í hátíð­ar­mat um jól­in). Kvóta­kerfi í mjólk, sem kúa­bændur hafa sam­þykkt að fram­lengja og við­halda, auð­veldar sam­þjöppun í fram­leiðsl­unni. En, eins og lýst er ágæt­lega í kvik­mynd­inni Hér­aðið hafa sumar afurða­stöðvar „að­stoð­að“ suma bændur til að skuldsetja sig langt umfram greiðslu­getu búa sinna. Til­gangur afurða­stöðva­eig­enda er að sjálf­sögðu að stuðla að breyttri land­fræði­legri dreif­ingu kúa­bú­skap­ar. Það er því hætt við að stór hluti af afkomu kúa­bænda fari í að greiða vexti af lánum til kvóta­kaupa og til kaupa á sjálf­virkum vél­bún­aði.

Í óveðr­inu sem gekk yfir landið um miðjan des­em­ber kom reyndar í ljós að vél­væð­ing mjólk­ur­bú­skap­ar­ins og stækkun búanna hafði verið gerð meira af kappi en for­sjá. Fjöldi grip­anna er orð­inn slíkur að þær tvær til þrjár mann­eskjur sem eru í færum til að sinna þeim getur það alls ekki nema með aðstoð raf­knú­ins tækja­bún­að­ar. Þegar svo háttar þurfa að vera til staðar áætlun B og jafn­vel áætlun C ef svo illa vill til að raf­magns­af­hend­ing frá almenn­ings­veitu rofn­ar. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sölu­að­ila kostar vara­afls­stöð knúin af drátt­ar­vél á bil­inu hálft til 1 pró­sent af stofn­kostn­aði róbóta­fjóss. Í des­em­ber­veðr­inu kom í ljós að margir bændur hafa kosið að treysta frekar á lukk­una en að tryggja öruggan rekstur þrátt fyrir til­tölu­lega lít­inn til­kostn­að. Sú stað­reynd bendir til þess að efna­hagur búanna sé frekar tæp­ur.

Auglýsing
Talsmenn land­bún­aðar hafa lengi haldið á lofti að ríf­legur stuðn­ingur skatt­greið­enda við land­bún­að­ar­fram­leiðslu væri nauð­syn­legur til að tryggja fæðu­ör­yggi. Þeir sem hafa rýnt þá orð­ræðu hefur reynst erfitt að festa hönd á hvernig fjár­fram­lög til land­bún­aðar geti tryggt öruggt fram­boð mat­væla ef flutn­ings­leiðir til lands­ins rofna. Reynslan af des­em­ber­veðr­inu sýnir að inn­lenda fram­leiðslan er býsna ber­skjölduð gagn­vart ytri áföll­um. Jafn­framt sýndi sú reynsla að tals­menn bænda og ráð­gjafar þeirra eru ekk­ert að setja örygg­is­sjón­ar­mið á odd­inn þegar fram­leiðsla er skipu­lögð á ein­stökum búum.

Kvóti í land­bún­aði

Kvóti í land­bún­aði ásamt til­heyr­andi reglu­verki (m.a. inn­flutn­ings­gjöldum og toll­um) er í raun til­raun stjórn­valda og hags­muna­sam­taka til að tak­marka aðgang að tak­mark­aðri auð­lind. Hin tak­mark­aða auð­lind er greiðslu­vilji inn­lendra neyt­enda. Inn­flutn­ings­gjöldin tak­marka mögu­leika neyt­enda til að bregð­ast við háu verð­lagi með því að kaupa erlendan varn­ing þó hann sé miklu ódýr­ari ótoll­aður en inn­lendur varn­ing­ur. Hags­muna­sam­tök og ein­stakir bændur hafa svo ákveðið að haga fram­kvæmd kvóta­setn­ingar með ólíkum hætti eftir því hvað fram­leitt er. Mark­aður með kvóta í sauð­fjár­rækt er skipu­lagður þannig að hand­hafar kvóta hafa lít­inn eða engan hag af að selja. Fram­leiðslan breyt­ist því afar lítið bæði sé litið til magns og land­fræði­legrar dreif­ing­ar. Mark­aður með kvóta í mjólk­ur­fram­leiðslu skapar miklu sterk­ari sölu­hvata en mark­aður með kvóta í sauð­fjár­rækt. Í raun virkar mark­aður með mjólk­ur­kvóta sem nokk­urs konar eft­ir­launa­við­bót fyrir bændur sem hætta búskap. Jafn­framt skap­ast mögu­leikar á flutn­ingi fram­leiðslu milli lands­hluta og milli búa. Ein­stakir úrvinnslu­að­ilar hafa jafn­vel aðstoðað bændur í nærum­hverfi við að ná til sín kvóta með hag­stæðri lána­fyr­ir­greiðslu.

Kvóti í sauð­fjár­rækt

Kvóti í sauð­fjár­rækt er með all sér­stöku sniði. Hand­hafar kvóta öðl­ast skil­yrtan rétt til greiðslna úr rík­is­sjóði (bein­greiðsla). Kvót­inn er í formi ærgilda (stundum kallað greiðslu­mark til að rugla óinn­vígða!). Skil­yrðið er að fyrir hvert rík­is­stutt ærgildi verður sauð­fjár­bóndi að halda minnst 0,7 (0,6) vetr­ar­fóðr­aðar ær á húsi. Styrkur á hvert ærgildi er 6-8 þús­und krónur á ári sé skil­yrði um vetr­ar­á­setn­ing upp­fyllt. Vegna skil­yrð­is­ins um vetr­ar­á­setn­ing er fyr­ir­komu­lagið fram­leiðslu­hvetj­andi. Setjum sem svo að bóndi sem er með 100 ærgilda greiðslu­mark kom­ist að því að hent­ug­ast sé fyrir hann vegna mark­aðs­að­stæðna að setja ein­ungis á 50 kind­ur. Þá stendur hann frammi fyrir því að tapa bein­greiðsl­um. Kvóta­kerfið í sauð­fjár­rækt tak­markar því ávinn­ing ein­stakra bænda af að minnka fram­leiðslu og á þannig sinn þátt í að við­halda offram­leiðslu lamba­kjöts.

Bændur hafa átt kost á að selja greiðslu­mark. Sá sem vill selja fær greitt sem svarar 2ja ára bein­greiðslu (sem er um það bil 5-10% af verð­mæti greiðslu­lof­orðs­ins). Ríkið er svo skuld­bundið til að selja aftur á sama verði og keypt var. Þ.e.a.s. ríkið er skuld­bundið til að „selja“ lof­orð um að borga sem svarar 100-200 þús­und krónur að núvirði á 12-14 þús­und krón­ur. Með þessu er offram­leiðsla tryggð í fram­tíð­inni. Með end­ur­nýjun sauð­fjár­samn­ings snemma á árinu 2019 var þetta kerfi, sem var með sól­ar­lags­á­kvæð­um, gert var­an­legt. Þó var þak á greiðslum fyrir inn­leyst greiðslu­mark hækkað lít­il­lega.

Almennt eru kvótar í atvinnu­starf­semi tæki til að draga úr offram­boði og laga fram­leiðslu að mark­aði. Stjórn­völd og bænda­sam­tökin hafa komið sér saman um kvóta­fyr­ir­komu­lag í sauð­fjár­rækt sem vinnur þvert á slík mark­mið, þrátt fyrir að offram­leiðsla sé árlegt og við­var­andi úrlausn­ar­efni.

Kvóti í mjólk

For­sendur mjólk­ur­fram­leiðslu á Íslandi hafa verið nokkuð aðrar en for­sendur sauð­fjár­fram­leiðsl­unn­ar. Í skjóli toll­verndar er lít­ill inn­flutn­ingur á ost­um, en um helm­ingur mjólk­ur­fram­leiðsl­unnar er ráð­stafað til fram­leiðslu osta og skyrs (m.v. prótín-inni­hald). Þó svo neysla mjólk­ur­af­urða á mann drag­ist heldur saman hefur heild­ar­eft­ir­spurn auk­ist nokkuð vegna fjölg­unar ferða­manna. Bein­greiðslur til mjólk­ur­bænda eru fram­leiðslu­tengdar með mun beinni hætti en til­fellið er varð­andi sauð­fjár­bænd­ur. Hvert býli fær greiðslu á hvern fram­leiddan lítra enda sé sú fram­leiðsla innan þess mjólk­ur­kvóta sem býlið hef­ur. Mjólk­ur­sam­salan tekur við allri mjólk en getur verð­fellt þá mjólk sem mjólk­ur­fram­leið­endur fram­leiða umfram kvóta.

Auglýsing
Samkvæmt búvöru­samn­ingi stóð mjólk­ur­fram­leið­endum til boða að aftengja fram­leiðslu og bein­greiðslur og gera rík­is­stuðn­ing­inn minna háðan umfangi fram­leiðsl­unn­ar. Um það var kosið á árinu 2019. Bændur ákváðu að við­halda hinu fyrra kerfi. Í því felst m.a. heim­ild til að selja bein­greiðslu­rétt­inn milli býla. Hug­myndir voru uppi um að taka upp svipað fyr­ir­komu­lag og er varð­andi greiðslur í sauð­fjár­rækt­inni. Þ.e.a.s. að tak­marka upp­hæð greiðsln­anna við 10 til 20% af raun­virði greiðslu­marks­rétt­ar­ins. Sú hug­mynd náði ekki fram að ganga, en hefði dregið mjög úr sam­þjöppun kvóta og fækkun kúa­búa.

Óleyst vanda­mál í sjáv­ar­út­veg um ára­mót

Frá hruni hefur afkoma í sjáv­ar­út­vegi verið með ólík­indum góð, sjá hér og hér. En þó heildin komi vel út, þá á það sama ekki endi­lega við um allar und­ir­ein­ing­ar. Þannig stóð núver­andi rík­is­stjórn, m.a. með tryggum stuðn­ingi Vinstri Grænna að því að létta útgerð­inni greiðslu veiði­gjalda vegna meintrar bágrar afkomu ákveð­ins hluta báta­flot­ans, sjá hér. Loðnan er að breyta atferli sínu sem hefur veru­leg áhrif á umsvif á aust­ur­hluta lands­ins á fyrri hluta hvers árs. Mak­ríll kom í lok banka­hruns og bjarg­aði miklu. Í fram­hald­inu var hann kvóta­sett­ur, en ekki tókst betur til en stjórn­völd reynd­ust hafa haft rangt við að áliti Hæsta­rétt­ar, sjá hér. Nú eru for­svars­menn Vinnslu­stöðv­ar­innar að reikna út hversu mikið þeir hefðu getað hagn­ast á þeim kvóta sem þeir fengu ekki. Vit­an­lega vilja menn sýna sem hæsta tölu þegar kemur að fram­lagn­ingu bótakrafna. Sú furðu­lega staða er reyndar uppi að for­stjóri Vinnslu­stöðv­ar­innar reynir á sama tíma, í rit­deilu við for­stjóra Íslenskrar erfða­grein­ing­ar, að halda því fram að mak­ríll sé í raun verð­lítil skepna! Kannski verður nið­ur­staðan sú að Vinnslu­stöðin láti staðar numið í til­raunum til að fá bætur úr rík­is­sjóði fyrir vanút­hlut­aðan mak­ríl­kvóta vegna mögu­legra bak­reikn­inga sem slíkur mál­flutn­ingur kallar á ann­ars vegar frá sjó­mönnum og hins vegar frá almenn­ingi í land­inu, eig­anda fisk­veiði­auð­lind­ar­inn­ar.

Sjó­menn og útgerð­ar­menn hafa lengi deilt um verð­lagn­ingu á afla, sjá hér. Ásak­anir um alls konar fiff með milli­verð­lagn­ingu og flutn­ing hagn­aðar frá veiðum til vinnslu og frá vinnslu til sölu­fyr­ir­tækja í útlöndum hafa flögrað. Sam­kvæmt nýlegri umfjöllun í fjöl­miðlum á borð við Kveik, Stund­ina, Al Jazeera og Wiki­Leaks virð­ist sem íslenskt sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hafi beitt slíkum bók­halds­brellum til að kom­ast hjá skatt­greiðslum í Namib­íu. Seðla­bank­anum mistókst að sanna sama athæfi á fyr­ir­tækið gagn­vart íslenskum skatta- og gjald­eyr­is­yf­ir­völd­um. Sjálf­sagt eru ekki öll kurl þar komin til graf­ar, en víst er að sjáv­ar­út­veg­ur­inn í heild býr við laskaðan orðstír í fram­hald­inu.

Eins og rakið er hér fyrir neðan hafa sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki kom­ist fram­hjá svoköll­uðu kvóta­þaki með ein­földum fiff­um. Búast má við að lög­gjaf­inn verði neyddur til að herða reglur og setja sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­unum stól­inn fyrir dyrn­ar. Í því sam­bandi er athygl­is­verð sú hug­mynd for­stjóra og stjórnar Brims hf að opna fyrir aðkomu erlendra aðila að eign­ar­haldi í íslenskum sjáv­ar­út­vegi. Hugs­an­lega er hug­mynd for­stjór­ans sú að stofna fyr­ir­tæki með „óvirk­um“ erlendum aðilum sem gætu tekið hluta af kvóta fyr­ir­tæk­is­ins „í fóst­ur“ og kom­ast þannig hjá því að selja kvóta frá fyr­ir­tæk­inu vegna harð­ari fram­kvæmd kvóta­þaks­á­kvæð­is­ins.

Nú þegar atferli íslensks sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækis í Namibíu hefur verið afhjúpað hafa kröfur almenn­ings um alvöru hlut­deild í afrakstri af nýt­ingu sjáv­ar­auð­lind­ar­innar harðn­að. Við­brögð sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja gefa ekki góðar vonir um að lausn sé í sjón­máli sem báðir aðil­ar, eigi­endur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja ann­ars vegar og almenn­ingur hins veg­ar, geti vel við unað.

Kvóti í sjáv­ar­út­vegi

Ekki er ástæða til rekja sögu kvóta­setn­ingar í sjáv­ar­út­vegi hér. Aðeins að minna á að hag­fræði­leg rök þeirrar kvóta­setn­ingar eru mun „heil­brigð­ari“ séð frá hag­fræði­leg­um/­neyt­endasinn­uðum sjón­ar­hóli en rök fyrir kvóta­setn­ingu í land­bún­aði. Ástæðan er sú að ofsókn í fiski­stofna hækkar kostnað á hvert veitt kíló jafn­framt því sem ofsókn veldur afla­minnk­un. Fiskikvótar geta þannig lækkað verð og aukið fram­boð á neyslu­fiski, alla vega á pappír og þegar til (mjög) langs tíma er lit­ið. Fiskikvótar eru þannig ekki „sam­særi“ um að fénýta neyt­endur eins og halda má fram að til­fellið sé með sumar útfærslur kvóta­kerfa í land­bún­aði.

Auglýsing
En þó svo kvóta­kerfi í fisk­veiðum geti verið hag­fræði­lega séð heil­brigð­ari fyr­ir­bæri en kvóta­kerfi í land­bún­aði er ekki þar með sagt að þau séu það í fram­kvæmd­inni. Þegar kvóta­kerf­inu var komið á á Íslandi á ára­bil­inu 1984 til 1990/2000 var reynt að takast á við sum þeirra vanda­mála sem fyr­ir­séð voru. Reynt var að koma í veg fyrir sam­þjöppun afla­heim­ilda með ákvæðum um hámark kvóta sem gæti verið á hendi eins fyr­ir­tæk­is. Einnig var reynt að koma í veg fyrir óhóf­legan flutn­ing kvóta (og þar með atvinnu­tæki­færa) milli byggð­ar­laga með því að veita sveit­ar­stjórnum for­kaups­rétt að fiski­skipum sem væri ella seldur út úr sveit­ar­fé­lag­inu. Lög­gjaf­inn gerði sér hins vegar ekki grein fyrir þeirri geig­væn­legu eigna­myndun sem myndi fylgja kvóta­setn­ing­unni á þeim tíma sem grund­vall­ar­lögin voru sett. Í reynd hafa þær skorður sem lög­gjaf­inn vildi setja við óheppi­legum afleið­ingum kvóta­setn­ingar í sjávar­út­vegi verið býsna hald­litl­ar. Fá dæmi eru um til­raunir sveit­ar­stjórna til að nýta for­kaups­rétt enda hefur kvóti helst flust frá smáum og fátækum sveit­ar­fé­lögum til stærri og rík­ari. Und­an­tekn­ing er þegar Vest­mann­ey­ingar reyndu að nýta sér for­kaups­rétt í tengslum við sölu Bergs-Hug­ins til Síld­ar­vinnsl­unn­ar. Nið­ur­staða Hæsta­réttar var að lögin tækju aðeins til for­kaups­réttar á sölu skipa en ekki til sölu á afla­heim­ildum eða fyr­ir­tækjum í heild sinni. Afla­marks­laus skip eru gagns­lítil til atvinnu­sköp­unar og því er laga­á­kvæði um for­kaups­rétt sveit­ar­fé­laga frekar lélegur brand­ari en stjórn­tæki. Þá er einnig komið í ljós að Sjáv­ar­út­vegs­ráðu­neytið túlkar hug­takið „tengdir aðil­ar“ með öðrum hætti en gert er í atvinnu­líf­inu almennt þegar svo­kallað kvóta­þak er reiknað út. Þannig telj­ast Sam­herji og Síld­ar­vinnslan ekki tengdir aðilar sam­kvæmt sjáv­ar­út­vegs­ráðu­neyt­inu þó svo þeir telj­ist það sam­kvæmt skatta­lögum og öðrum lögum sem fjalla um fjár­hags­legt hæði. Þetta þýðir að ákvæði um hámark eign­ar­halds á kvóta eru óvirk. Tvær eða þrjár fyr­ir­tækja­sam­stæður gætu skipt á milli sín öllum kvóta á Íslands­miðum með því einu að búa dreifa kvót­anum heppi­lega á fiffuð dótt­ur­fé­lög.

Loka­orð

Atvinnu­starf­semi á Íslandi var frá aldaöðli skipu­lögð í kringum land­bún­að. Árið 1703 var land­bún­aður eina fram­færsla 70% býla, en 15% stund­uðu sjó­sókn á vori og önnur 15% bæði vor og haust (Hag­skinna, bls 209). Árið 1801 eru ómagar (þar af 2 fang­ar!) álíka margir og þeir sem telj­ast hafa sjó­sókn að aðal­starfi eða um 2 þús­und í hvorum flokki af 47 þús­und íbú­um. Það er því ekki mikil alhæf­ing að full­yrða að „býli“ hafi verið grunn­ein­ing gamla þjóð­skipu­lags­ins á Íslandi. Sér­hæf­ing var lítil og byggð­ist á landa­fræð­inni; þeir sem voru við sjáv­ar­síð­una sóttu sjó, aðrir lifðu af því sem sauð­kind og stöku kú gátu gef­ið. Stærsti hluti neyslu­fanga í mat og klæði var heima­feng­inn. Hvert sveita­heim­ili var sjálf­stæð efna­hags­leg heild sem þurfti lítið af aðföngum utan frá nema járn og snæri. Nú er öld önnur og hlut­deild land­bún­aðar í mann­afla­notkun 1,7% eða svipað og hlut­deild þurra­búð­ar­fólks af mann­fjöld­anum 1703. Því nefni ég þetta að þó svo „þurra­búð­ar­fólk“ sé nú í sömu stöðu hlut­falls­lega og land­bún­að­ar­fólk þá er enn haldið í þá hug­mynd, í laga­textum og stefnu­mótun hags­muna­sam­taka og rík­is­stjórna, að lands­menn skuli sem mest nær­ast á afurðum af inn­lendum sauð­kindum og inn­lendum kúm og helst ekki flytja inn annað en drátt­ar­vél­ar, girð­ing­ar­efni og áburð!

Sjáv­ar­út­veg­ur­inn byggir nú afkomu sína og skipu­lag á flóknu reglu­verki sem stjórn­völd hafa komið á. Í krafti þess reglu­verks verða til ótrú­legir fjár­mun­ir. Allt frá því kvóta­kerf­inu var komið á hefur almenn­ingur gert kröfu á eðli­lega hlut­deild í þeim umfram­hagn­aði sem verður til fyrir atbeina almanna­valds­ins. Sú krafa hefur þyngst nú þegar almenn­ingur sér hvaða afleið­ingar auð­söfn­un, að ekki sé sagt græðg­is­legt fram­ferði ein­stakra útgerð­ar­manna á erlendri grund hefur fyrir ásýnd og orð­spor lands­ins út á við. Von­andi verður ekki reynt að svara kröfum um aukin veiði­gjöld og harð­ari eft­ir­fylgni gagn­vart kvóta­þak­inu með nýjum fiffum af hálfu eig­enda útgerð­ar­fyr­ir­tækja.

Höf­undur er pró­­fessor í hag­fræði við Háskóla Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Róbert Farestveit, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Vilhjálmur Hilmarsson
Samkeppni skiptir sköpum fyrir lífskjör á Íslandi
Kjarninn 19. apríl 2021
Frosti Sigurjónsson
Nóbelsverðlaunahafi segir ivermectin vinna á COVID-19
Kjarninn 19. apríl 2021
Kári Stefánsson (t.v.) og Þórólfur Guðnason.
Samstarf Þórólfs og Kára „langoftast“ og „næstum því alltaf“ ánægjulegt
Mun meira máli skiptir hvernig við hegðum okkur heldur en af hvaða afbrigði veiran er, segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Sóttvarnalæknir segir þátt fyrirtækisins í baráttunni gegn COVID-19 hafa skipt sköpum.
Kjarninn 19. apríl 2021
Alls störfuðu um 130 manns hjá SaltPay hér á landi áður en til uppsagna dagsins kom.
Hópuppsögn hjá SaltPay
SaltPay segir upp tugum starfsmanna hér á landi í dag, aðallega starfsmönnum sem hafa starfað við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar. SaltPay keypti Borgun síðasta sumar.
Kjarninn 19. apríl 2021
Samfylking sé tilbúin með frumvarp sem skyldar komufarþega til að dvelja í sóttvarnahúsi
Formaður Samfylkingar spurði forsætisráðherra hvort til stæði að breyta sóttvarnalögum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Ekki við núverandi fyrirkomulag að sakast að mati forsætisráðherra, heldur við þá sem fylgja ekki reglum.
Kjarninn 19. apríl 2021
Sigríður Ólafsdóttir verður í öðru sæti listans og Eiríkur Björn í því fyrsta.
Eiríkur Björn og Sigríður leiða Viðreisn í Norðausturkjördæmi
Fyrrverandi bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði og Akureyri verður oddviti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum.
Kjarninn 19. apríl 2021
Harpa opnaði árið 2011. Kostnaður við rekstur fasteignarinnar og uppsafnað viðhald er að skapa alvarlega stöðu.
„Alvarleg staða“ hjá Hörpu vegna skorts á fjármagni til að sinna viðhaldi
Alls hafa eigendur Hörpu, ríki og borg, lagt húsinu til 14,4 milljarða króna í formi greiðslna af lánum vegna byggingu þess og rekstrarframlaga. Í fyrra nam rekstrarframlag þeirra 728 milljónum króna. Mikill vandi framundan vegna uppsafnaðs viðhalds.
Kjarninn 19. apríl 2021
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller á upplýsingafundi dagsins.
44 smit um helgina – Breytingar orðið í niðurstöðum landamæraskimanna
„Atburðir helgarinnar eru vissulega vonbrigði og við höfum fengið nú staðfest svo um munar að breska afbrigðið er til staðar í samfélaginu,“ segir Alma Möller landlæknir.
Kjarninn 19. apríl 2021
Meira úr sama flokkiÁlit