Mikið afskaplega er nú gaman að vera hér á klakanum í sprengilægðum, rafmagnsleysi, ófærð og guðmávitahvað, og geta jafnframt fylgst með því hvernig hamingjunni vex sífellt ásmegin á Jólunum. Nýverið voru okkur Íslendingum að berast þau stórkostlegu tíðindi um hvernig ást við fyrstu sýn getur allt í einu blómstrað hjá fyrrverandi forseta okkar og spúsu hans. Reyndar ekki þeirra í millum, en Guð láti á gott vita. Herra fyrrverandi forseti og eindreginn jafnaðarmaður til margra ára‚ Ólafur Ragnar Grímsson, lét svo lítið að leyfa okkur pöplinum að njóta mynda sem hann hafði tekið af hvolpi í snjó með konu sinni. Henni Dorrit Mússajeff. Það er sú hin sama sem stökk svo glaðhlakkalega upp í fangið á mótmælendum þegar Ísland hrundi undir forsæti mannsins hennar. Og pöpullinn fagnaði.
En hér ber eitthvað nýrra við sem gæti sýnt landanum hversu gæfuríkur Íslendingurinn er á Jólunum. Blessunin hún Dorrit varð sum sé „ástfangin við fyrstu sýn“ af klónuðum hvolpi. Það að verða ástfanginn við fyrstu sýn þykir jafnan ákaflega rómantískt hérlendis sem utanlands og yfirleitt lofsvert. Sumir telja það til marks um að örlögin hafi með einhverjum hætti hagað málum á þann veg að hver sá sem verður ástfanginn við fyrstu sýn sé sjálfur lukkunnar pamfíll í lóttói lífsins. Yfirleitt vísar það í hrifningu á eigin tegund. Mikið afskaplega væri nú gaman ef að allir landsmenn gætu trúað slíkum ævintýrum.
Þannig er nú málum samt háttað á þessum Jólum að manni ber að skilja sem svo að þau hjónakornin hafi sjálf stuðlað að sinni eigin stórkostlegu gæfu út af klónuðum hvolpi. Og að frúin hafi orðið ástfangin við fyrstu sýn. Kraftaverk gerast, Guði sé lof og dýrð!
Einhverra hluta vegna er hvolpklónið nefnt „Samson“. Mér skilst að nafngiftin stafi af því að frú Dorrit lét klóna hundinn sinn sem dó og henni var ákaflega annt um. Sá hét víst Sámur. Hér ber okkur Íslendingum að staldra við og íhuga hversu nátengd þau hjónakornin eru í raun sögu okkar. Öll þekkjum við hvernig Gunnar á Hlíðarenda barðist gegn ofureflinu allt fram í andlátið og kallaði snemma í þeim hildarleik til hunds síns: „Sárt ert þú leikinn Sámur fóstri og búið svo sé til ætlað að skammt skuli okkar í meðal.“
Fagnaðarerindi fyrrverandi forseta okkar og spúsu hans felst í því að nú þurfi aldrei að vera skammt á milli okkar og Samsons, klónuðum niðja Sáms. Ég vil óska öllum landsmönnum þeirrar gæfu að hafa efni á því að klóna gæludýrin sín svo að þeim öðlist að upplifa ást við fyrstu sýn. Þetta er hinn magnþrungni örlagavefur sem Dorrit og Ólafi hefur tekist að spinna, samofnum við sögu okkar, úr launhelgum klónunar.
Þetta er hinn sanni andi Jólanna!