Skömmu fyrir jól birti Hagstofa Íslands stutta frétt á heimasíðu sinni, sem litla athygli hefur vakið í fjölmiðlum. Þetta áhugaleysi fjölmiðla hlýtur að vekja nokkra undrun, því umfjöllunarefni fréttarinnar er málefni, sem oft er til umræðu á opinberum vettvangi og er jafnvel á stundum tilefni mikilla stóryrða og alhæfinga. Fréttin snerist sem sagt um niðurstöður lífskjararannsóknar stofnunarinnar, sem leiddi í ljós að tekjudreifing í landinu varð jafnari milli áranna 2017 og 2018 og að tekjudreifing hér á landi var ein sú jafnasta í Evrópu árið 2018. Tekjujöfnuður mældist mestur í Slóvakíu en næst og jöfn komu Slóvenía og Ísland. Breytingar milli ára eru ekki tiltakanlega miklar, en tekjujöfnuður á Íslandi mælist ívið meiri en undanfarin ár og staða landsins í evrópskum samanburði er áfram sú að ójöfnuður er hér minni en í flestum samanburðarlöndunum.
Tekjujöfnuður eykst – misskipting minnkar
Í frétt Hagstofunnar er greint frá tveimur mælikvörðum, sem sýna þessar niðurstöður. Annars vegar er um að ræða svokallaðan Gini-stuðul og hins vegar svokallaðan fimmtungastuðul, sem mælir hlutfallið milli tekna þeirra 20% tekjuhæstu og þeirra 20% sem lægstar tekjur hafa. Vitaskuld er hvorugur þessara mælikvarða algildur, óskeikull eða hafinn yfir gagnrýni, en þeir byggja þó á viðurkenndum aðferðum alþjóðlegra stofnana til að mæla jöfnuð og ójöfnuð í viðkomandi löndum. Þeir gefa afar sterka vísbendingu um þróunina milli ára í þessum efnum - hvort tekjujöfnuður fari vaxandi eða minnkandi - og hvernig landið standi í alþjóðlegum samanburði.
Svo virðist sem fjölmiðlum hafi almennt ekki þótt þessar niðurstöður fréttnæmar. Kannski er það vegna þess að ekki koma fram neitt sérstaklega miklar breytingar milli ára. Kannski er það vegna þess að fjölmiðlamenn telji alveg sjálfsagt að tekjujöfnuður aukist milli ára og að hann sé meiri hér á landi en í nánast öllum öðrum löndum Evrópu. Kannski er bara meiri eftirspurn eftir neikvæðum fréttum en jákvæðum. Ég veit ekki. Ég veit hins vegar að á undanförnum árum hefur ekki verið neinn skortur á fullyrðingum á opinberum vettvangi um að hér á landi fari misskipting vaxandi og ójöfnuður sé hér mikill miðað við þau lönd sem við berum okkur helst saman við. Slíkar fullyrðingar hafa ítrekað komið fram í umræðum á Alþingi, í ræðum róttækra verkalýðsforingja og hjá ýmsum álitsgjöfum í fjölmiðlum. Þeir sem hafa uppi málflutning af þessu tagi gera hins vegar yfirleitt enga tilraun til að rökstyðja þessar fullyrðingar, enda verður slíkur rökstuðningur ekki sóttur í tölfræðilegar upplýsingar um þróunina hér á landi eða samanburðartölur frá öðrum löndum. Samanburðarhæfar upplýsingar sýna þvert á móti að tekjujöfnuður hér á landi fer vaxandi og misskipting minnkar.
Lífskjarasamningarnir og aðgerðir stjórnvalda
Áhugavert er að skoða þessar upplýsingar í samhengi við umræður um kjaramál, sem hafa verið fyrirferðarmiklar á árinu. Sá jöfnuður í tekjudreifingu, sem hér kemur fram, er í ágætu samræmi við yfirlýsta stefnu bæði aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Verkalýðshreyfingin, vinnuveitendur og ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa verið nokkuð samstíga í því að svigrúm til kjarabóta bæri einkum að nýta til að lagfæra stöðu þeirra tekjulægstu. Þetta hefur verið útgangspunktur í kjarasamningum og jafnframt hafa margvíslegar aðgerðir stjórnvalda, meðal annars á sviði skattamála, tekið mið af markmiðum af þessu tagi. Eins og alltaf má deila um einstök skref í þessum efnum og útfærslu aðgerða, en meginstefnan hefur verið skýr og skilað árangri.
Lífskjarasamningarnir eru áreiðanlega mikilvægasti áfanginn á sviði efnahagsmála á árinu sem er að líða og jafnvel á kjörtímabilinu öllu. Með þeim eru stigin mikilvæg skref til að varðveita þá miklu kaupmáttaraukningu, sem náðst hefur á undanförnum árum, og standa vörð um stöðugleikann í efnahagslífinu, sem er forsenda áframhaldandi árangurs. Það er mikið fagnaðarefni að aðilum vinnumarkaðarins tókst á endanum að komast að raunhæfum og ábyrgum niðurstöðum við samningaborðið og að nauðsynleg aðkoma stjórnvalda byggði líka á traustum grunni en ekki innistæðulausum loforðum.
Viðkvæm staða en tækifæri framundan
Lífskjarasamningarnir eiga ríkan þátt í því að verðbólga hefur haldist vel innan marka á árinu og að forsendur hafa verið til meiri vaxtalækkana en við höfum séð um langt skeið. Þetta tvennt, ásamt skattalækkunum, skiptir miklu þegar við tökumst á við ytri aðstæður sem um margt eru erfiðari en undanfarin ár. Á árinu sem er að líða hefur atvinnulífið þurft að takast á við erfiðari skilyrði, loðnubrest, fall Wow og fleira, og vissulega er afkoman enn erfið hjá fyrirtækjum í ýmsum greinum, en þrátt fyrir það er engin ástæða til svartsýni og horfur eru vonandi heldur að batna aftur.
Til þess að atvinnulífið nái sér vel á strik að nýju þurfa stjórnvöld að halda áfram að bæta starfsumhverfi og skilyrði fyrirtækjanna, svo sem með frekari skattalækkunum, og halda áfram mikilvægri innviðauppbyggingu, sem nýtist bæði til skemmri tíma og lengri. Stjórnvöld þurfa um leið að gæta að stöðugleikanum og gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr efnahagslegri og pólitískri óvissu, því hvort tveggja er mikilvægt til að þokkalegur fyrirsjáanleiki ríki varðandi aðstæður atvinnulífisins. Velgengni atvinnulífsins og verðmætasköpun á þeim vettvangi er svo aftur forsenda þess að kaupmáttur alls almennings haldi áfram að vaxa og að unnt sé að fjármagna mikilvæga þjónustu hins opinbera, sem hefur líka veruleg áhrif á lífskjör landsmanna allra.