Síðastliðið haust var fyrsta Nýsköpunarstefna fyrir Ísland kynnt af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem skipaði stýrihóp og verkefnisstjórn fyrir verkefnið fyrir rétt rúmu ári síðan. Í stýrihópnum voru fulltrúar atvinnulífs, háskóla- og vísindasamfélags, sprota- og tæknifyrirtækja og þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi og tók innan við ár að mynda stefnuna.
Nú höfum við í fyrsta sinn stefnu til að styðja okkur við sem þjóð. Draumurinn er að fólk, fyrirtæki og stofnanir geti notað þessa stefnu sem leiðarljós þegar þau skoða með hvaða hætti þau gætu nýtt nýsköpun, því það er ekki nokkur spurning að við þurfum á nýsköpun að halda á þessum tímum breytinga og nýrrar tækni.
Síðustu ár hefur fjöldi þeirra sem hefur séð möguleikana í nýsköpun vaxið töluvert. Það hjálpar líka heilmikið að stjórnasáttmáli núverandi ríkisstjórnar inniheldur mörg markmið hvað varðar nýsköpun. Samtök Iðnaðarins hefur einnig breytt skipulagi innanbúðar hjá sér þannig að einn af þremur stoðum þeirra er nú hugverkageirinn, fjölmörg sprotafyrirtæki eru að verða til og áfram mætti telja.
MIT háskólinn í Boston hefur sett fram nokkuð skýrar leiðbeiningar fyrir það hvað þurfi til svo að nýsköpun blómstri hjá þjóðum og landssvæðum. Þeir hafa sett fram svokallað 5 stakeholder model. Í stuttu máli snúast þeirra leiðbeiningar um mikilvægi þess að halda uppi samtali á milli fimm hagsmunaaðila nýsköpunar. Þessir fimm hagsmunaaðilar sem eru: Ríkisstjórn, menntakerfi, fyrirtæki, fjárfestar og frumkvöðlar.
Um leið og við grípum til aðgerða og sjáum árangur er mikilvægt að við segjum umheiminum frá okkar styrkleikum hvað varðar nýsköpun. Styrkleikarnir hérlendis liggja meðal annars í orkutengdri tækni, heilbrigðistækni, sjávarútvegstækni, upplýsingatækni og listum svo eitthvað sé nefnt. Þar eigum við að leggja áherslur og bjóða sérfræðingum heims í dans, án þess að loka á að annars konar nýsköpun verði til og þar með meiri verðmætasköpun.
Breyta þarf viðhorfi margra til nýsköpunar. Nýsköpun er nefnilega ekki bara eitthvað krúttlegt í íslensku atvinnulífi. Marel, Össur, CCP og Nox Medical hefðu aldrei orðið til ef ekki væri fyrir nýsköpun. Öll þessi fyrirtæki, og fjölmörg minni fyrirtæki, byggja sína starfsemi að stóru leyti á nýsköpunarstarfi og ljóst er að nýsköpunardrifin fyrirtæki búa til fjölmörg störf og umfangsmiklar útflutningstekjur — sem skiptir verulegu máli í stóra samhenginu.
Siðferðileg sjónarmið þurfa einnig að vera í fyrirrúmi þegar sköpunarkraftinum er beitt, því tækninýjungarnar sem munu koma fram á næstu árum, á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar, eru þess eðlis að við þurfum að muna að beita gagnrýnni hugsun og töluverðri tilfinningagreind svo ekki fari illa.
Þórdís Kolbrún, nýsköpunarráðherra, hefur þegar kynnt fyrstu aðgerðirnar í þágu nýsköpunar á Íslandi, aðgerðir sem munu styrkja, hvetja og hlúa að frumkvöðlastarfi á Íslandi.
En gleymum ekki að það geta allir verið með í þessari vegferð. Eins og segir í fyrsta leiðarljósi Nýsköpunarstefnunnar: Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar.
Boltinn er kominn til okkar.