Allt í einu fór orðið Úkraína að glymja í fréttunum. Hvers vegna? Jú, Donald Trump, forseti Bandaríkjanna hafði hringt í nýkjörinn forseta Úkraínu, Valdimar Selenskí (Volodymyr Zelensky), en hann er einskonar „Jón Gnarr“ þeirra Úkraínumanna, grínisti sem á mettíma kleif til æðstu metorða. Jón Gnarr varð borgarstjóri Reykjavíkur, Selenskí fór skrefinu lengra og velti úr sessi „súkkulaðikónginum“ Petro Porósjenkó í forsetakosningum í apríl. Sá hefur auðgast á framleiðslu og sölu á súkkulaði.
Flokkurinn „Þjónn fólksins“ fékk svo síðar á árin 2019 meirihluta á úkraínska þinginu, „Verkhovna Rada“ en um er að ræða sama nafn og grínþættir Selenskís báru og gerðu hann vinsælan. Bæði í Úkraínu og Bandaríkjunum eru því sjónvarpsstjörnur við völd. Það er ef til vill tímanna tákn.
Hið „fullkomna“ símtal
Áðurnefnt símtal Trumps snerist í fyrstu um að óska Selenskí til hamingju með stórsigurinn í kosningunum og sjálfur lýsti Trump símtalinu sem „fullkomnu“. Síðar í símtalinu gerðist hins vegar það sem nú liggur til grundvallar ákæru á hendur Trumps um brot í starfi (e. impeachment).
Spilling útbreidd
Hunter Biden, sem er lögfræðingur að mennt, hafði verið fenginn til þess að rannsaka spillingu innan gasfyrirtækisins Burisma, sem er einn stærsti orkuframleiðandi Úkraínu. Meðal annars sætti eigandi þess, Mykola Zlochevsky, rannsókn varðandi peningaþvætti. Hann er einn af ríkustu mönnum Úkraínu, tilheyrir þeim sem kallaðir eru „ólígarkarnir“ og hafa safnað ótrúlegum auðæfum. Spilling er landlægt vandamál í Úkraínu og talið er að margir þessara auðmanna hafi nýtt sér það í gegnum tíðina. Sem stendur er Úkraína númer 120 af 180 löndum yfir spillingu, með um 32 stig, þar sem 100 stig eru þau lönd sem eru með minnsta spillingu. Danmörk er í efsta sæti listans með um 88 stig, minnst spilltasta land í heimi.
En málið með símtalið gerist enn flóknara. Úkraína er eitt af fyrrum lýðveldum fyrrum heimsveldis sem einu sinni hét Sovétríkin (1922-1991). Þetta mikla kommúnistaveldi liðaðist endanlega í sundur árið 1991 og urðu þá öll lýðveldi þess sjálfstæði ríki. Þar með talið Úkraína. Ástandið í Úkraínu hefur hins vegar einkennst af gríðarlegum pólitískum átökum og gríðarlegri spillingu síðan þá.
Forsetinn hrakinn frá völdum
Veturinn 2013-14 kom til mikilla mótmæla í Kiev gegn þáverandi forseta landsins, Viktor Janúkóvits, sem naut stuðnings Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Mótmælin snerust í raun um afstöðu Úkraínu til Evrópu/vestursins. Mótmælin hófust þegar Janúkóvits hætti snögglega við að undirrita samstarfssamning við ESB-ríkin og hallaði sér enn frekar að Rússum í staðinn. Mótmælin mögnuðust og fóru fram á Madian-torginu („Maidan“ þýðir torg) í miðborg Kiev. Í febrúar 2014 skutu leyniskyttur á mótmælendur og talið er að tugir hafi fallið. Landið rambaði á barmi borgarastríðs, en mótmælunum lauk með því að Janúkóvits flúði land, til Rússlands. Í framhaldi af þessu var Petro Posjénkó svo kosinn forseti.
Pútín hrifsar Krímskagann
Í kjölfar þessara atburða, þann 27. febrúar 2014, tóku óeinkennisklæddir hermenn frá Rússlandi yfir stjórnarbyggingar á Krímskaga. Á næstu vikum innlimaði Vladimír Pútín í raun skagann inn í Rússland. Um sama leyti lýstu þjóðernissinnar, hliðhollir Pútín, í austustu hérðuðum Úkraínu (svokallað Donbas-svæði) yfir sjálfstæði og þar með skall á stríð milli yfirvalda í Úkraínu/Kiev og aðskilnaðarsinna, sem vilja tilheyra Rússlandi. Um er að ræða héruðin Donetsk og Luhansk, sem í desember fengu í reynd sjálfstæði innan Úkraínu.
Í klemmu milli austurs og vesturs
Með þessu er Úkraína í raun í klemmu á milli austurs og vesturs, vanbúinn her Úkraínu hefur ekki getað staðið almennilega gegn herjum aðskilnaðarsinna, sem eru rækilega studdir af Rússlandi, meðal annars með fullkomnum BUK-loftvarnarflaugum, sem aðskilnaðarsinnar notuðu til að skjóta niður farþegaþotu frá ríkisflugfélagi Malasíu sumarið 2014. Þar létust um 300 saklausir borgarar.
Vladimír Pútín, ásamt aðskilnaðarsinnum, hefur tekist að búta Úkraínu í sundur. Það er gott fyrir Pútín, veik og óstöðug Úkraína er eitthvað sem passar honum vel. Hann hefur ekki áhuga á að Úkraína nálgist „vestrið“ meira en nú er. Pútin hefur þar að auki lýst mikilli vanþóknun sinni á aðild ýmissa ríkja fyrrum Austur-Evrópu og Eystrasaltslandanna að bæði ESB og NATO. Úkraína er hvorki í NATO eða ESB og Pútín vill halda því þannig.
Frysti hernaðaraðstoð
Víkur þá aftur að „símtalinu fullkomna“ á milli Trump og Selenskí. Komið hefur í ljós að tæpum tveimur klukkustundum eftir símtalið, þá hafi hernaðaraðstoð til Úkraínu upp á um 390 milljónir dollara verið stöðvuð af bandarískum yfirvöldum (Hvíta húsinu = Donald Trump). Talið er þetta hafi átt að nota sem einskonar „skiptimynt“ og borga út þegar aðilar í Úkraínu væru búnir að „grafa upp skít“ („dig up dirt“) á Joe Biden og son hans, Hunter.
Málsókn bandaríska þingsins gegn Donald Trump grundvallast á þessu, því svona lagað gerir ekki forseti Bandaríkjanna að mati þeirra sem standa í málarekstrinum gegn Trump og telja Demókratar (sem eru með meirihluta í fulltrúadeildinni) að með þessu hafi Trump brotið stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Fulltrúadeild bandaríska þingsins greiddi atkvæði um málið fyrir skömmu og niðurstaða þess var að ákæra Trump í tveimur atriðum; a) misnotkun valds, (e. abuse of power) og b) hindrun á störfum þingsins (e. obstruction of congress). Þaðan fer málið til öldungadeildar, þar hafa repúblikanar völdin og þar skal dæmt í málinu. Litlar sem engar líkur eru á að málið fari í gegn þar. Engu að síður stendur eftir að Trump er þriðji forseti í sögu Bandaríkjanna sem er ákærður fyrir embættisbrot.
Vængstýft land með merka sögu
Hvað Úkraínu varðar, þá er staðan þannig að á 20 ára valdafmæli sínu getur Vladimír Pútin státað sig af því að hafa „vængstýft“ Úkraínu á margan hátt. Úkraína er efnahagslega veikburða og hafa verið gríðarlegar sveiflur í hagvexti undanfarin á. Árið 2009 varð samdráttur upp á um 15% og tæp 10% árið 2015. Síðan þá hefur landið heldur rétt úr kútnum og í fyrra var hagvöxtur um 3.5%. Landið er í 127. sæti hvað varðar þjóðartekjur á ann samkvæmt lista Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ísland er í 5. sæti á þeim lista.
Ungir leiðtogar í erfiðum verkefnum
Úkraína er skilgreint sem „ný-markaðssvæði“, þ.e. ríki sem er að feta sig eftir braut markaðsbúskapar, frá kommúnisma og alræði. En þessi ganga hefur enn sem komið er verið þyrnum stráð, mestmegnis vegna stríðs, pólitískra átaka og botnlausrar spillingar. Selenskí, hinn nýi forseti, er meðal annars að reyna að bæta úr þessu, sem og samskiptunum við Rússa, þ.e.a s. Pútín. Fyrir innlimun Krím og borgarinnar Sevastopol voru íbúar Úkraínu um 48 milljónir, en teljast nú vera um 42 milljónir. Það þýðir að Úkraína er ein fjölmennasta þjóð Evrópu. Það er mikið i húfi fyrir þessa „nýfrjálsu“ þjóð að vel takist upp og að hún geti komist á braut lýðræðis, mannréttinda og markaðsbúskapar.
Volodomyr Selenskí forseti Úkraínu verður 42 ára gamall í lok janúar. Hann ber sama fornafn og ein frægasta sögupersóna landsins, prins Volodymyr/Valdimar, sem var uppi seint á 10. öld. Ef Úkraína er talin með Evrópu, þá er Selenskí yngsti ríkjandi forseti álfunnar og landsins sjálfs. Það er mikil áskorun fyrir hann að sinna þessu embætti, í pólitísku umhverfi sem er þrungið bæði spennu/stríði og spillingu. Til stuðning hefur hann ríkisstjórn Oleksiy Honcharuk , sem verður 36 ára gamall á árinu. Meðalaldur nýs þings Úkraínu er einnig sá lægsti í Evrópu, eða um 40 ár. Verkefni hins unga þings og þessara ungu manna næstu misserin eru því ærin, en þeir stefna að verulegum umbótum í anda frjálslyndis á úkraínsku samfélagi.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði frá A-Evrópudeild Uppsalaháskóla í Svíþjóð.