Heimahjúkrun er orðin nokkuð vel þekkt fyrirkomulag hér á landi en líklega er heimaspítali framandi hugtak fyrir flesta. Allavega kom ég að fjöllum þegar ég las þetta fyrst og varð að kynna mér það frekar.
Greinarhöfundur er með vöðvarrýrnunarsjúkdóm og handleggsbrotnaði á síðasta ári. Meðan ég lá á Landspítalanum í Fossvogi var verið að koma með fólk á öllum tímum sólarhrings inn á herbergið. Það var verið að nýta hvert pláss sem losnaði til að hleypa fólki af göngum bráðadeildarinnar sem þurfti að liggja þar vegna plássleysis.
Það kom mér því ekki á óvart að Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítala, lýsti því nýlega yfir í grein í Læknablaðinu að hann óttaðist að „stórslys“ væri í vændum og líklega mætti rekja andlát sjúklings til þess að hann hafi verið útskrifaður of snemma. Rannsókn á því máli er nú í gangi.
Fjöldi fólks með króníska sjúkdóma þarf reglulega að leggjast inn á sjúkrahús til að fá meðferð við sjúkdómum sínum og eða fylgikvillum. Þessu fylgir mikið rask fyrir sjúklinga og aðstandendur.
Mikið af tíma sjúklingsins innan spítalans er varið í bið eftir rannsóknum, viðtölum, lyfjagjöf og öðru. Sjúklingunum finnst því tíma sínum illa varið. Mörgum finnst einnig að þeir séu að tefja starfsfólk frá mikilvægari verkum.
Það væri miklu þægilegra að fá þessa þjónustu heima en það er óraunhæft. Eða hvað?
Brigham and Women's Hospital og Harvard Medical School fóru af stað með tilraun til að athuga hvort þjóna megi sjúklingum frekar heima frá. Niðurstöðurnar voru birtar í grein í Annals of Internal Medicine í desember 2019.
Úrtakið fyrir tilraunina var slembivalið. Valdir voru sjúklingar sem ekki voru með lífshættulega kvilla sem gætu krafist neyðaraðgerða. Þeir fengu heimsókn frá hjúkrunarfræðingi tvisvar á dag og lækni daglega. Auk þess voru sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og aðrir sérfræðingar kallaðir til eftir þörfum.
Það sem gerði tilraunina raunhæfa nú er að nýsköpun hefur leitt til mikilla framfara í lækningatækjum. Tækin eru orðin notendavænni og ódýrari án þess að slegið sé af gæðakröfum.
Niðurstöðurnar voru heimaspítalanum verulega í hag. Kostnaður við sjúklinga sem fengu meðferð heiman frá var 39% lægri en viðmiðunarhópsins sem dvaldi á sjúkrahúsi. Þjónusta við þá krafðist færri rannsókna, 3 á móti 15, heimasjúklingarnir vörðu minni tíma í kyrrstöðu eða liggjandi, miðgildi 12% á móti 23% og líkur á endurkomu innan 30 daga voru mun ólíklegri, 7% á móti 23%.
En þá má spyrja sig, er ekki með þessu verið að færa ummönnun yfir á aðstanendur og auka álag á þá? Í viðtali við einn greinarhöfund kom fram að þetta hafi verið skoðað sérstaklega og það hafi sýnt sig að álagið frekar minnkaði þar sem aðstanendur þurfa oft ekki síður að fylgja sjúklingi á spítala og bíða með viðkomandi. Álagið á þá hafi því minnkað.
Brigham and Women’s Hospital ákvað að ljúka tilrauninni á undan áætlun til að hefja innleiðingu sem fyrst. Upp er komin heimasíða til að kynna þjónustuna fyrir sjúklingum sem og þeim sem hafa áhuga á að innleiða samskonar kerfi.
Í núverandi stjórnarsáttmála er lögð áherslu á eflingu nýsköpunar. Nýsköpunaráætlun fyrir næsta áratug er komin út og ráðherra nýsköpunar hefur verið ötul í sínu starfi í þessum málaflokki.
Ofangreint verkefni er augljóst dæmi um mátt nýsköpunar til að bæta lífsgæði og draga úr kostnaði og álagi. Ég hvet stjórnvöld og stjórnendur heilbriðgiskerfisins að kynna sér verkefnið vel. Enn fremur vona ég að nýsköpun í heilbrigðiskerfinu verði efld og bind ég þar miklar vonir við nýstofnaðan klasa BioMed Iceland.