Skortur á hjúkrunarrýmum er ein af megin ástæðum þess vanda sem bráðadeild Landspítalans á við að etja. Ætla má að í dag vanti að minnsta kosti 300-400 ný hjúkrunarrými og um 100 rými því til viðbótar þurfa að bætast við árlega næstu tvo áratugi vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar.
Vegna þessa skorts liggja tugir sjúklinga á hverjum tíma á Landspítalanum sem hafa lokið meðferð en hafa ekki heilsu til að fara heim. Því til viðbótar bíða rúmlega 400 einstaklingar eftir hjúkrunarrýmum á hverjum tíma. Þess vandi er vel þekktur og hefur verið stöðugt til umræðu á undanförnum árum. En á sama tíma hefur lítið sem ekkert verið gert til að taka á honum. Á undanförnum áratug hafa um 450 ný rými verið tekin í notkun en á móti hefur um 360 rýmum verið lokað. Fjölgun hjúkrunarrýma á heilum áratug er því um 90 – það samsvarar 9 rýmum á ári. Á sama tíma hefur þörf fyrir hjúkrunarrými aukist um 50 til 100 á ári hverju.
Vantar 700 rými fram til 2023 – aðeins 200 í sjónmáli
Engin breyting hefur orðið til batnaðar það sem af er þessu kjörtímabili. Miðað við framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðuneytisins má gera ráð fyrir um 170 nýjum rýmum á þessu kjörtímabili. 40 ný rými voru tekin í notkun á Seltjarnarnesi á síðasta ári og Hrafnista opnar 100 ný rými við Sléttuveg á þessu ári. Að auki er gert ráð fyrir um 25 nýjum rýmum í Árborg á næsta ári.
Fyrir rúmu ári síðan skrifaði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, grein í Morgunblaðinu þar sem því var heitið að hjúkrunarrýmum myndi fjölga um 550 fram til ársins 2023. Líkast til mun sú aukning ekki duga til að mæta vaxandi þörf á þessum tíma. Það er hins vegar enn verra að það bólar ekkert á efndum á stærstum hluta þessa loforðs ráðherrans. Í framkvæmdaáætlun ráðuneytisins er gert ráð fyrir 37 nýjum rýmum á landsbyggðinni árið 2021 og engum nýjum rýmum árið 2022. Rétt er að hafa í huga að verktími framkvæmda sem þessara er tvö til þrjú ár hið minnsta.
Það eru því allar líkur á því að þessi vandi muni aðeins versna á næstu tveimur til þremur árum. Ráðherra gaf fögur fyrirheit í fyrrnefndri grein en hér vantar efndir – ekki bara orð.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.