Enn á ný kýta Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins um það hvort raforkuverð á Íslandi er samkeppnishæft eður ei. Þær þrætur eru ekki ný tilkomnar og líklega myndu Samtök iðnaðarins helst vilja að Landsvirkjun yrði brotin upp, til að veikja samningsstöðu fyrirtækisins. En þetta með orkuverðið er ekkert mjög flókið. Staðreyndin er sú að varla nokkurs staðar á byggðu bóli bjóðast fyrirtækjum langtímasamningar um raforkukaup á eins hagstæðu verði eins og hjá íslenskum orkufyrirtækjum. Íslenskur raforkumarkaður er augljóslega samkeppnishæfur.
CRU: Verð Landsvirkjunar er samkeppnishæft
Landsvirkjun (LV) fékk nýverið sérfræðing frá greiningarfyrirtækinu CRU til að bera saman raforkuverð LV við orkuverðið í nokkrum helstu samkeppnislöndunum. Niðurstaða CRU var sú að verðið hjá LV sé prýðilega samkeppnishæft. Og varla nokkur dæmi um ódýrara orkuverð til stóriðju, nema á afmörkuðum markaði í Kanada þar sem stórar vatnsaflsvirkjanir eru í nokkrum tilvikum í eigu álfyrirtækja, svo og í ríkjum við Persaflóann þar sem stóriðja nýtur ódýrra gasauðlinda.
SI: Málflutningur CRU er villandi
Samtök iðnaðarins (SI) virðast ósátt við þá niðurstöðu CRU að LV sé að bjóða samkeppnishæft orkuverð og segir framkvæmdastjóri SI að LV (og CRU) dragi þarna upp ranga mynd af raforkumarkaðnum. SI benda á að CRU hafi notast við tölur frá 2018 og þær endurspegli ekki stöðuna í dag, því nú séu bæði Elkem og Norðurál að borga hærra raforkuverð en 2018. Einnig segir framkvæmdastjóri SI að það skekki samanburðinn að ekki sé litið til markaðarins í heild, heldur einungis lítils brots af markaðnum og allt heimfært upp á það.
LV: Raforkuverð til álvera á Íslandi er víst samkeppnishæft
LV hefur svarað SI og hafnar fyrirtækið málflutningi SI um að mynd CRU sé ekki lýsandi fyrir stöðuna. Haft er eftir framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar LV að fyrirtækið beri fullt traust til sérfræðiþekkingar CRU og að raforkuverð til álvera á Íslandi sé vel samkeppnishæft við það sem álverum bjóðist annars staðar í heiminum. Þar að auki muni samkeppnisforskot endurnýjanlegu íslensku raforkunnar líklega aukast enn meira í framtíðinni vegna baráttunnar við loftslagsbreytingar.
Hið rétta: Hvergi hagstæðari langtímasamningar en vaxandi samkeppni
Hvor hefur rétt fyrir sér; LV eða SI? Það er rétt hjá SI að raforkuverð LV til Elkem og Norðuráls hækkaði mikið á árinu 2019. Sú hækkun var fyrirséð (enda voru gömlu orkusamningarnir orðnir úr takti við verðþróun á raforkumörkuðum). Því má réttilega halda því fram að 2018 sé ekki heppilegt viðmiðunarár, þar sem hluti stóriðjunnar á Íslandi var þá að greiða miklu lægra orkuverð en nú er.
Það er engu að síður svo að nánast hvergi annars staðar bjóðast stórnotendum raforku jafn hagstæðir langtímasamningar eins og hér á Íslandi. Sú staðreynd skapar fyrirtækjum hér, sem þurfa að kaupa mikið rafmagn, mun þægilegri og áhættuminni rekstrarskilyrði en gerist og gengur víðast hvar erlendis. Um leið eru vissulega dæmi um að stórnotendur raforku geti i einhverjum tilvikum tímabundið fengið ódýrari raforku annars staðar. En samkeppnishæfni Íslands vegna hógværs og lítt sveiflukennds raforkuverðs er mjög mikil.
Stórnotendur verða að vera opnir fyrir tækifærum
Áður fyrr var eitt helsta einkenni íslenska raforkumarkaðarins að þar bauðst stórnotendum sannkallað botnverð. Með mikið breyttu markaðs- og samkeppnisumhverfi, svo sem vegna stóraukinnar álframleiðslu í Kína og vaxandi útflutnings á áli þaðan, hafa orðið miklar breytingar í rekstrarumhverfi vestrænna álfyrirtækja. Þetta á við um fleiri framleiðslugreinar eins og t.d. framleiðslu á kísli og kísilafurðum. Ekki verður komist hjá því að stórnotendur bæði á Íslandi og annars staðar horfist í augu við þessar staðreyndir.
Dæmi um stórnotendur raforku sem reyna með uppbyggjandi hætti að auka arðsemi sína eru t.a.m. norsk stóriðjufyrirtæki. Þar er víða rík áhersla lögð á að auka verðmætasköpun fyrirtækjanna með framleiðslu á virðismeiri afurðum. Um leið leitast stórnotendur raforku þar í landi við að gera langtímasamninga við vindorkufyrirtæki sem tryggja þeim sem ódýrasta raforku og styrkja endurnýjanlega ímynd viðkomandi stórnotenda jafnvel enn meira. Ef stórnotendur raforku á Íslandi ætla að standa sig í samkeppninni þurfa þeir líka að vera opnir fyrir tækifærunum og vera tilbúnir að takast á við breytt markaðs og tækniumhverfi.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.