Árið 1970 skrifaði nýfrjálshyggju-hagfræðingurinn Milton Friedman grein í New York Times Magazine um hlutverk fyrirtækja í samfélaginu, sem eftir var tekið (sjá hér).
Boðskapurinn var sá, að eina hlutverk fyrirtækja væri það að skila eigendum þeirra (hluthöfum) sem mestum gróða.
Fyrirtæki hefðu engar skyldur gagnvart starfsmönnum sínum, viðskiptavinum, birgjum, neytendum eða samfélaginu almennt.
Allt tal um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja er einfaldlega sósíalismi, sagði Friedman!
Þó samfélagið skaffaði fyrirtækjum vegi, hafnir, flugvelli, menntað starfslið, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og veitti þeim aðgang að sameiginlegum auðlindum þá skipti það engu máli.
Gróðinn skyldi bara renna til „eigenda” fyrirtækjanna.
Þessi nýfrjálshyggjuboðskapur Friedmans náði smám saman útbreiðslu á Vesturlöndum og gekk undir nafninu „the shareholder view of capitalism“.
Þetta var kapítalismi fyrir ríkasta eina prósentið – og yfirleitt enga aðra.
Þessar hugmyndir greiddu götu óheftari markaðshyggju, aukinna skattfríðinda fyrir hátekju- og stóreignafólk, aukinnar einkavæðingar og fjandsamlegri afstöðu gagnvart velferðarríkinu.
Hagsmunir auðmanna voru í fyrirrúmi. Og almenningi var talin trú um að væn brauðmylsna myndi falla niður til þeirra af veisluborðum auðmanna.
Það reyndist vera blekkingin ein.
Aukinn ójöfnuður var rökrétt afleiðing.
Viðskiptaráð Bandaríkjanna hafnar nú sjónarmiði Friedmans
Viðskiptaráð Bandaríkjanna (US Business Roundtable) gerðist snemma einn helsti fylgjandi og boðberi þessarar nýfrjálshyggju Friedmans þar vestra, frá og með árinu 1978.
Á Íslandi varð Viðskiptaráð Íslands sömuleiðis einn róttækasti talsmaður nýfrjálshyggjunnar, ásamt Samtökum atvinnulífsins og forystu Sjálfstæðisflokksins, einkum frá og með tíunda áratugnum.
Í ágúst sl. urðu þau miklu tíðindi að Viðskiptaráð Bandaríkjanna hafnaði loks þessari kreddu nýfrjálshyggjunnar og lagðist á sveif með talsmönnum samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, sem kölluð er „the stakeholder view of capitalism“ (sjá hér).
Fyrirtæki eiga nú að þjóna öllum, en ekki bara fámennri yfirstétt hluthafa eða auðmanna, segir Viðskiptaráð Bandaríkjanna. Fyrirtæki skuli bera ábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum, viðskiptavinum, birgjum, neytendum og einfaldlega samfélaginu öllu.
Þessi umsnúningur er merkilegur vegna þess að þarna er ekki um einhverja gagnrýnendur eða fræðimenn að ræða, heldur fulltrúa allra helstu stórfyrirtækja Bandaríkjanna. Fulltrúa ríkasta eina prósentsins.
Þetta er viðbragð elítunnar í atvinnulífinu við vaxandi tilfinningu almennings á Vesturlöndum fyrir því að kapítalisminn sé ekki lengur fyrir almenning heldur bara fyrir fámenna yfirstétt. Þetta tengist einnig vaxandi áhyggjum af umhverfismálum.
Þarna hafa því orðið mikil tímamót í höfuðvígi bandaríska kapítalismans.
Davos lokar líka á nýfrjálshyggju Friedmans
En vindurinn snýst nú víðar gegn nýfrjálshyggjunni en í Bandaríkjunum.
Í Davos í Sviss fundar nú heimselíta viðskipta og stjórnmála, eins og verið hefur sl. 50 ár, á ráðstefnu World Economic Forum.
Klaus Schwab, stofnandi og stjórnandi World Economic Forum, hefur lengi verið talsmaður „stakeholder capitalism“, þó það sjónarmið hans hafi ekki verið ríkjandi í Davos til þessa, enda nýfrjálshyggjan yfirleitt efst í hugum þeirra viðskiptajöfra og stjórnmálamanna sem þar hafa mætt.
En nú er öldin önnur í Davos!
„Stakeholder capitalism“ með samfélagslega ábyrgð og almannahag að leiðarljósi er nú mjög áberandi á dagskránni og Klaus Schwab sjálfur skrifaði kröftuga grein gegn sjónarmiðum Miltons Friedman í tímaritið Foreign Affairs í síðustu viku (sjá hér).
Klaus Schwab talar opinskátt um að nýfrjálshyggjutími síðustu fjögurra áratuga hafi stóraukið ójöfnuð og skaðað bæði samfélög og umhverfi.
Þess vegna verði kapítalisminn að breytast – ekki seinna en strax!
Endalok nýfrjálshyggjutímans?
Þetta eru svo mögnuð umskipti í sjónarmiðum hjá þessum talsmönnum fyrirtækja og kapítalisma, elítu efnahagslífsins, að spyrja má hvort þetta sé bara fagurgali til að kaupa vinsældir og slá ryki í augu almennings?
Sjálfsagt er að hafa fyrirvara á þessu og spyrja um efndir. Yfirstéttin er líklega mest að hugsa um að bjarga kapítalismanum frá sjálfum sér – draga úr mesta óhófinu.
Hins vegar er það óneitanlega mikilvægt að rétttrúaðir nýfrjálshyggjumenn skuli nú viðurkenna opinberlega að þeir séu að ganga af trúnni.
Það er nýtt!
Og það er til marks um hve afleit reynslan af nýfrjálshyggjutímanum hefur verið fyrir almenning – aðra en elítuna.
Vinstri- og miðjustjórnmál og allir gagnrýnendur nýfrjálshyggjunnar þurfa nú að sigla skipinu alla leið í höfn og tryggja endalok þessara neikvæðu áhrifa Friedmans og söfnuða hans.
Menn geta gert það í nafni þess að innleiða á ný blandaða hagkerfið sem var ríkjandi á Vesturlöndum frá lokum seinni heimsstyrjaldar til um 1980 og sem þjónaði almenningi mun betur en hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur gert.
Eða bara til að byggja betra og sjálfbært samfélag fyrir alla.
Til mikils er að vinna.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.