Húsmóðirin og leikskólinn

Halla Gunnarsdóttir, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, minnir á að sú umræða sem nú stendur yfir um opnunartíma leikskóla í Reykjavík eigi sér djúpar rætur og langa sögu.

Auglýsing

Þegar hreyfingin Wages for house work ruddi sér til rúms á 7. og 8. áratug síðustu aldar með ákalli um að heimilisstörf ættu að vera launuð eins og hver önnur vinna, kallaði það ekki aðeins á umræðu um eðli og inntak heimilisstarfa, heldur einnig umönnunarstarfa. Hreyfingin átti rætur sínar á Ítalíu og þarna var leitast við að endurskilgreina vinnu, en um leið fjölskylduna og hlutverk karla og kvenna, barna og foreldra, innan hennar.  

Hér má til einföldunar draga upp mynd af móðurinni – í þessu samhengi hinni ítölsku húsmóður – sem gætir barna og elur þau upp, sinnir eldri ættingjum, leggur mat á borð og borðar sjálf síðust, ef þá yfirleitt. Þarfir fjölskyldunnar ganga framar hennar eigin þörfum. En þar sem við erum öll manneskjur (líka konur) þá kemur að skuldadögum, a.m.k. í huga hinnar örþreyttu móður. Því geta fylgt stöðugar áminningar til barnanna um allt sem fyrir þau er gert og uppkomin börn standa raunar í skuld við móður sína til eilífðarnóns. 

Ítölsku femínistarnir reyndu að byggja upp annars konar skilning á fjölskyldunni. Börn og foreldrar væru í þessu saman. Börn væru sjálfstæðir einstaklingar innan fjölskyldunnar, þeim mætti fela ábyrgð og þau væru líka fær um að sýna öðrum skilning. Karlar og konur hjálpuðust jafnvel að. Þetta er nær því samfélagsskipulagi sem Ísland vill kenna sig við – afrakstur mikillar kvennabaráttu og stjórnmálabaráttu – og sennilega myndu fæst okkar vilja skipta því út. 

Auglýsing
En þetta er og var viðkvæm umræða. Baráttan gegn hugmyndinni um hina fórnfúsu móður gat auðveldlega orðið að baráttu gegn hinni fórnfúsu móður, þar sem konur voru dæmdar fyrir að hafa leikið það hlutverk sem þær töldu að þeim bæri. 

Þessi inngangur er rétt til að minna á að sú umræða sem nú stendur yfir um opnunartíma leikskóla í Reykjavík á sér djúpar rætur og langa sögu. Hún snertir mörg okkar persónulega og er um leið óþægileg áminning um hvað það er stutt síðan þræta þurfti um gildi almennra leikskóla. Þá er nærtækt að rifja upp að margir töldu að leikskólar ættu eingöngu að vera til staðar fyrir einstæða foreldra og aðra sem stæðu höllum fæti. Þessa hugmynd má enn heyra í því formi að jöfnunarhlutverk leikskóla sé bundið við að tryggja nógu langa vistun til að einstætt foreldri geti unnið fullan vinnudag. Þetta er vissulega mikilvægt. En leikskólar jafna líka tækifæri barna í milli, með því að bjóða upp á menntun og samfélag þar sem ólíkir samfélagshópar koma saman. Þeir stuðla að kynjajafnrétti í atvinnulífinu og við ákvarðanatöku, en líka kynjajafnrétti heima við – og það er ekki hægt að hafa nógu mörg orð um mikilvægi fjárhagslegs sjálfstæðis kvenna, þar á meðal í tengslum við baráttuna gegn heimilisofbeldi. 

Aðstæður foreldra leikskólabarna geta verið mjög mismunandi. Sum okkar komast auðveldlega af með átta klukkustunda vistunardag og jafnvel styttri, en önnur ekki. Þetta á ekki eingöngu við um einstæða foreldra, heldur líka til dæmis foreldra sem hafa engan annan stuðning að reiða sig á eða foreldra þar sem annað foreldrið (t.a.m. iðnaðarmenn) vinnur langan vinnudag og getur sjaldan sótt barn á leikskólann. Í þessu sambandi er ómögulegt að skilja hver ákvað að átta klukkustunda vistunardagur væri hæfilegur en 8,5 eða 9 klukkustundir ekki. Í því er engin brú. 

Aðstæður barna eru líka mismunandi. Sumum reynist erfitt að vera lengi á leikskóla, önnur eiga erfitt með að vera lengi heima hjá sér. Það er nefnilega margt sem er börnum fyrir bestu. Þeim er fyrir bestu að eiga gott og öruggt samband við foreldra sína. En það getur líka verið þeim fyrir bestu að hafa fleiri fullorðna í lífi sínu sem þau geta reitt sig á og bundist böndum. Smám saman höfum við lært að það er ekki endilega börnum fyrir bestu að hafa eina fórnfúsa, dálítið alltumlykjandi móður í lífi sínu. Fæðingarorlof beggja foreldra hefur gefið góða raun, ekki aðeins fyrir jafnrétti á vinnumarkaði heldur líka fyrir börn. 

Uppbygging almennra leikskóla er ein farsælasta stjórnmálaákvörðun okkar tíma. Leikskólar Íslands eru á heimsmælikvarða, sem uppeldis- og menntastofnanir (og hér má vara við þeirri tilhneigingu að skilja að uppeldi og menntun í umræðum um skóla), en líka sem hornsteinn samfélagsskipulags þar sem konur eru ekki neyddar til að velja á milli þess að vinna og að eiga börn. Það þarf ekki nema stutta heimsókn til lands þar sem þetta frelsi er ekki fyrir hendi til að skilja gildi þess. 

Hins vegar hefur gildismat samfélagsins ekki endilega haldist í hendur við þetta, eins og sjá má af bágum starfskjörum innan leikskólanna. Kannski ætlumst við til þess sama af starfsfólki leikskólanna og einu sinni var vænst af húsmóðurinni: að það haldi stöðugt áfram og fórni sér fyrir fjöldann. Þessa gætir einnig í starfskjörum umönnunarstétta almennt, sem að langstærstum hluta eru mannaðar konum. Þetta er eitt af stóru viðfangsefnum stjórnmálanna til næstu ára og um leið verkefni samfélagsins. Hér þarf að byggja upp sátt um að rétta þessa skekkju af. Stytting opnunartíma leikskóla bætir eflaust stöðuna á leikskólum, sem er vel. En sem einstök aðgerð verður það ekki til að leiðrétta þessa skekkju, heldur mögulega til að ýkja hana. Hér þarf miklu fleira að koma til.

Höfundur er ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi árið 2019 þegar Ísland tók við formennsku í ráðinu. Rússar taka við keflinu á fundi ráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.
Ísland lætur af formennsku í Norðurskautsráðinu
Sjálfbær þróun og umhverfismál eru grundvallarstef norðurslóðasamvinnu en mega þessi mjúku mál sín einhvers þegar Rússar eru að efla hernaðarlega uppbyggingu og Bandaríkjamenn bregðast við með aukinni viðveru, m.a. á Íslandi?
Kjarninn 16. maí 2021
Um það bil helmingur Dana afþakkar fjölpóst.
100 þúsund tonn af auglýsingapésum
Mánaðarlega fá Danir samtals átta til níu þúsund tonn af auglýsingapésum inn um bréfalúguna. Stór hluti pésanna fer ólesinn í ruslið. Nú ræðir danska þingið breytingar á reglum þannig að borgararnir þurfi að biðja um að fá pésana.
Kjarninn 16. maí 2021
Tony Blair segist vera með lausnir á vanda Verkamannaflokksins og raunar annarra stjórnmálaafla frá miðjunni og til vinstri.
Tony Blair segir að Verkamannaflokkurinn þurfi að fara alveg á byrjunarreit
Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands segir að sinn gamli flokkur eigi sér ekki viðreisnar von ef hann haldi áfram á sömu braut. Algjörrar endurræsingar sé þörf, bæði í efnahagsmálum og umræðum um samfélagsmál, þar sem þeir róttækustu vaði uppi.
Kjarninn 15. maí 2021
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
„Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað – frá Búrgundí í Bústaðahverfið“
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr hvers vegna íslensk stjórnvöld viðhaldi einokunartilburðum varðandi áfengissölu.
Kjarninn 15. maí 2021
Davíð Helgason, stofnandi og fyrrum forstjóri Unity.
Vorblað Vísbendingar er komið út
Vísbending hefur gefið út sérstakt vorblað þar sem nýsköpun er í brennidepli. Blaðið er opið öllum, en í því má meðal annars finna viðtal við Davíð Helgason, stofnanda Unity.
Kjarninn 15. maí 2021
Þótt almennt atvinnuleysi hafi dregist saman fjölgar í hópi langtímaatvinnulausra
Þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en tólf mánuði fjölgaði um 288 í síðasta mánuði þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ráðist í átak til að draga úr atvinnuleysi hópsins. Atvinnuleysi hjá þeim sem hafa verið án vinnu skemur en sex mánuði dregst saman.
Kjarninn 15. maí 2021
Jarðfræði á mannamáli
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá sjötti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 15. maí 2021
Hjarðónæmi sífellt fjarlægari draumur
Fjölmargar hindranir þyrfti að yfirstíga svo hjarðónæmi gegn COVID-19 verði að veruleika. Nýju og meira smitandi afbrigðin breyta jöfnunni og hækka nauðsynlegt hlutfall bólusettra til að ónæmi samfélags náist.
Kjarninn 15. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar