Á árinu 2018 bárust þær fréttir frá bandaríska atvinnuvegaráðuneytinu (U.S. Department of Labor) að vegna mikillar fækkunar blaða- og fréttamanna í Bandaríkjunum á undanförnum árum væru almannatenglar nú orðnir sex sinnum fleiri en blaða- og fréttamenn. Á árunum 2008-2018 fækkaði stöðugildum blaða- og fréttamanna um heil 23% í Bandaríkjunum. Ef aðeins er litið til blaðamanna á dagblöðum þá varð fækkunin 50% á tímabilinu. Á sama tíma fækkaði útgefnum dagblöðum í Bandaríkjunum um 45% og mest varð fækkunin á staðbundnum miðlum.
Ógnvænleg þróun fréttamiðla í Evrópu
Þróunin í Evrópu er engu skárri en í Bandaríkjunum. Árið 2018 var talið það versta í rekstrarsögu sænskra prentmiðla. Auglýsingatekjur á dagblaðamarkaði minnkuðu um 11% á milli áranna 2017 og 2018. Í Noregi hafa auglýsingatekjur dagblaða dregist saman um 35% á síðustu fimm árum og í Danmörku minnkuðu auglýsingatekjur dagblaða um 73,5% á árunum 1999 til 2018. Í Bretlandi hefur einnig orðið gríðarlegur samdráttur í auglýsingatekjum. Þar fækkaði stöðugildum blaðamanna á dagblöðum um 50% á síðustu tíu árum. Stöðugildum blaðamanna fækkaði um 40% á sama tímabili í Hollandi og 25% í Þýskalandi.
Þrátt fyrir að blaðamönnum hafi fjölgað á netinu og að fækkun fréttamanna á ljósvakamiðlum hafi ekki verið jafn hröð og á dagblaðamarkaði veldur þróun blaða- og fréttamennsku í hinum vestræna heimi miklum áhyggjum. Fjölmiðlar eru hornsteinar lýðræðis og því þarf að tryggja að þeir geti sinnt því mikilvæga hlutverki þegar áskriftar- og auglýsingatekjur dragast saman vegna tæknibreytinga og alþjóðavæðingar. Sjálfstæðir og öflugir fjölmiðlar sem hafa grundvallargildi blaða- og fréttamennsku að leiðarljósi eru vettvangur lýðræðislegrar umræðu. Þeir eru grundvöllur þess að almenningur geti mótað sér skoðanir með upplýstum og rökstuddum hætti. Slíkir fjölmiðlar setja erlendar fréttir í innlent samhengi, þeir eru nauðsynlegur þáttur í því að vernda tungumál þjóða og miðla sögu og menningu þeirra.
Á rannsóknarblaðamennska sér framtíð?
Vegna þessarar þróunar hefur verið bent á að rannsóknarblaðamennska sé í sérstaklega mikilli hættu. Geta fréttamiðla til að greiða blaða- og fréttamönnum laun og leggja út í kostnað vikum og mánuðum saman til að rannsaka mál skerðist verulega þegar tekjur minnka ört. Sífellt færri miðlar hafa því getu til miðla slíku efni því rannsóknarblaðamennska er bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Spyrja má hvort fjölmiðlar muni í náinni framtíð hafa getu til að skapa þrýsting á stjórnvöld og fyrirtæki, krefjast svara við áleitnum spurningum og upplýsa um mikilvæg málefni sem varða almenning allan. Reynslan sýnir að það er mikilvægur hluti af opnu lýðræðissamfélagi að sterkir og sjálfstæðir fjölmiðlar geti veitt nauðsynlegt aðhald og gætt almannahagsmuna.
Neikvæð áhrif Facebook og Google á fjölmiðlamarkaðinn á heimsvísu
En hvað hefur breyst og hvert eru tekjur fjölmiðla að fara? Tæknibreytingar og breytt fjölmiðlanotkun hefur leitt til þess að samkeppnin er orðin gríðarlega mikil og markaðurinn orðinn alþjóðlegur. Á árinu 2018 fór um 35% af heildarauglýsingatekjum á dönskum markaði til Facebook og Google, eða um 86 milljarða íslenskra króna. Í Svíþjóð er markaðshlutdeild þessara tveggja bandarísku risa hin sama og í Danmörku og fengu Facebook og Google 182 milljarða íslenskra króna í auglýsingatekjur á sænskum markaði árið 2018. Nú er svo komið að auglýsingatekjur Facebook og Google eru hærri en samanlagðar áskriftar- og auglýsingatekjur dagblaða í Svíþjóð. Það sama gildir um danska og norska markaðinn á árinu 2018.
Þó að staðan sé slæm í dag er framtíðin heldur ekki björt fyrir fréttamiðla á Norðurlöndunum. Tölur sýna að vöxtur á auglýsingamarkaði í Danmörku á árinu 2018 var með þeim hætti að 85% aukningarinnar fór til Facebook og Google en aðeins 15% teknanna dreifðist á danska miðla. Í Svíþjóð fer 54% af heildarauglýsingatekjum nú til netmiðla sem gerir Svíþjóð að því ríki heims þar sem hlutfallslega mestu er varið til auglýsinga á netinu. Langstærsti hluti þess fjár fór til Facebook og Google á árinu 2018.
Umræða um skattlagningu bandarísku risanna
Mikið hefur verið rætt um það í ríkjum Evrópu að bandarísk fyrirtæki, eins og Facebook og Google, greiði ekki skatta í þeim ríkjum þar sem þau fá auglýsingatekjur sínar. Þau leggja ekkert til samfélagsins og draga úr getu Evrópuríkja til að hlúa að lýðræði og menningu. Hundruð og þúsundir milljarða fara út úr Evrópu í formi auglýsingatekna til Facebook og Google, fjármunir sem hægt væri að nota í faglega blaða- og fréttamennsku og innlent efni sem speglar sögu og samtíma ríkja Evrópu. Þetta er ástæða þess að umræða um skattlagningu þessara fyrirtækja í ríkjum Evrópu verður æ háværari.
Þó að sífellt fleiri fréttamiðlar á netinu séu orðnir áskriftarmiðlar í hinum vestræna heimi duga áskriftartekjur ekki til að vega upp á móti minnkandi auglýsingatekjum og eftir atvikum minnkandi áskriftartekjum dagblaða. Heildartekjur blaða- og fréttamiðla fara því ört minnkandi um allan hinn vestræna heim með skaðlegum áhrifum fyrir bæði lýðræði og menningu.
Erfið staða íslenskra fréttamiðla
Í nýrri skýrslu Reuters Institute við Oxford háskóla um þróun blaða- og fréttamennsku, fjölmiðlunar og tækni fyrir árið 2020 er fjallað um tekjuhorfur fréttamiðla. Skýrslan byggir á upplýsingum frá 233 forsvarsmönnum fjölmiðla í 32 ríkjum. Þar kemur fram að 50% þeirra telja að áskriftargjöld verði megintekjustofn fréttamiðla á næstu árum. Þá segja 35% að blandaðar tekjur frá áskrifendum og auglýsingum verði megintekjustofn miðlanna á næstu árum. Aðeins 14% telja að hægt sé að treysta á auglýsingatekjur til að fjármagna fréttamiðla á næstu árum.
Þetta eru afar slæmar fréttir fyrir íslenska fréttamiðla sem að stærstum hluta hafa aðeins tekjur af auglýsingum en hlutfallslega mun færri fréttamiðlar fá áskriftartekjur á Íslandi í samanburði við nágrannaríkin í Evrópu. Raunar sýna tölulegar upplýsingar bæði vestan- og austanhafs að í ríkjum þar sem fjölmiðlar reiða sig að nánast öllu leyti á auglýsingatekjur er fækkun blaða- og fréttamanna hlutfallslega mest.
Í þessari hnattrænu þróun verða spurningar áleitnar um hvernig tryggja eigi sjálfstæði og fjárhagslega getu íslenskra fjölmiðla til að veita nauðsynlegt aðhald og tryggja almannahagsmuni. Einnig hvernig hægt verður að tryggja rannsóknarblaðamennsku á Íslandi. Þá má spyrja hvaða áhrif það hefur á lýðræðið þegar hlutfall almannatengla og blaða- og fréttamanna er orðið sex á móti einum eins og í Bandaríkjunum. Það vekur jafnframt spurningar um það hvernig hægt verði að tryggja að almenningur fái aðgang að hlutlægum og vönduðum upplýsingum til að taka upplýsta afstöðu til manna og málefna.
Íslenskir fréttamiðlar fá fæstir áskriftartekjur og þurfa því alfarið að reiða sig á ört minnkandi auglýsingatekjur sem fara nú í auknum mæli til Facebook og Google. Fækkun blaða- og fréttamanna á undanförnum mánuðum gefur jafnframt sterkar vísbendingar um stöðu og þróun íslenskra fréttamiðla. Þróunin hér á landi virðist vera í samræmi við þróunina í nágrannaríkjum Íslands þar sem fækkun stöðugilda blaða- og fréttamanna hefur verið afar hröð á síðustu árum. Þó að nákvæmar tölur liggi ekki fyrir um þróun og stöðu á íslenskum fjölmiðla- og auglýsingamarkaði eru slíkar upplýsingar aðgengilegar á Norðurlöndum og í öðrum ríkjum Evrópu. Þær tölur sýna að það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af framtíð íslenskra fréttamiðla.
Höfundur er framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.