Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari það í helvíti sem ég drap hann. Og þó
– Jón Hreggviðsson, bóndi á Rein, í skáldsögunni Íslandsklukkan
Þessi orð komu mér í huga þegar ég las um viðbrögð Félags atvinnurekenda (FA) við færslu minni á Facebook og viðtali sem fréttamaður átti við mig í framhaldinu. Það sem fór illa í talsmann FA var fullyrðing um að heildsalar hafi misst spón úr aski sínum, eftir að tekið var á áralangri misnotkun og svindli við innflutning blóma.
Krafist er sannana og krafist að ég rökstyðji mál mitt.
Kannski er sanngjarnt að krefjast þess að FA leggi spilin á borðin og sýni svart á hvítu að reglur hafi aldrei verið brotnar?
Eftirfarandi blasir við.
Frumkvæði tollayfirvalda
Tollayfirvöld hafa haft frumkvæði að breytingum á eftirliti með innflutningi búvöru. Jafnvel má segja að frumkvæði þeirra hafi breytt mestu í starfsumhverfi landbúnaðar á undanförnum árum. Starfsmenn Tollsins komu m.a. á fund Samráðshóps um búvörusamninga og ræddu framkvæmd innflutnings. Ég get ekki rakið efnislega hvað fór fram á þeim fundum. En tvennt stendur upp úr. Í fyrsta lagi komst hreyfing á breytingu tollnúmera á innfluttar búvörur – til að gera eftirlit skilvirkara og nákvæmara. Var það tilviljun að þetta þurfti? Veruleikinn var sá að hægt var að koma til landsins afurðum á röngum forsendum. Sumir kalla þetta smygl aðrir svindl.
Í öðru lagi hófu tollayfirvöld átak 2017 til að fylgjast með innflutningi á garðyrkjuafurðum, meðal annars blómum. Betra eftirlit hefur gjörbreytt starfsskilyrðum innlendra blómaframleiðenda. Með hertu eftirliti jókst eftirspurn eftir tollkvótum blóma. Rýrnun framleiðanda minnkaði úr 25% í allt niður í 3% af blómum til heildsala og verslana.
Eru þessi dæmi ekki til vitnis um að pottur hafi verið brotinn? Að reglum hafi ekki verið fylgt.
Einnig má nefna að fjöldi starfsmanna fyrirtækja hafa lýst því hvernig snúið var á innflutningyfirvöld. En slík ummæli hafa takmarkað gildi í umræðu sem þessari – en þar sem er reykur, er oft eldur.
Að þessu sinni verður látið liggja á milli hluta að benda á aðra þætti s.s. tilraunir til að fela uppruna blóma, eins og t.d. með stælingu á fánarönd Sambands garðyrkjubænda.
Til hver er barist?
Það er í þessari stöðu, hækkandi verð á tollkvótum og styrkari stöðu blómaframleiðenda sem FA snéri sér til stjórnvalda með kröfu um að gjörbylta starfsumhverfi heillar atvinnugreinar. Það eru enn nokkrar tegundir blóma sem enn njóta takmarkaðrar tollverndar og það verður skortur á ákveðnum blómum á alþjóðlegum blómadögum. Engin er að þræta fyrir það og þá er opnað það brúað með innflutning.
Reynsla Noregs
Það er áhugavert í þessu sambandi að skoða reynslu Noregs af því að fella niður starfsumgjörð (tollvernd) blómaframleiðslu. Um það er til ágæt skýrsla. Í stuttu máli kemur þar fram að við tollalausan innflutning á blómum frá Afríku lagðist nánast af innlend framleiðsla. Eftir að innlenda framleiðslan hvarf, hækkaði verð á blómum aftur og innflytjendur stórjuku sinn hagnað.
Um meinta ást á frelsi
Við sem viljum fjölbreytt atvinnulíf og að starfsumhverfi taki breytingum, auki hagkvæmni og styðji við eðlilega og sanngjarna samkeppni verðum oftar en ekki að sitja undir þeim ásökunum að ganga erinda sérhagsmuna. En hver er raunverulegur vilji FA, fyrst þau ágætu samtök ákváðu að gera mig að óvini sínum fyrir að benda á framgöngu þeirra gagnvart blómaframleiðendum? Er samkvæmni í málflutningi eða ráða þar þröngir sérhagsmunir?
Í þessu sambandi má benda á tvö nýleg þingmál sem eru ágæt dæmi um hvernig ást FA á frjálsri samkeppni birtist í raun.
Fyrra málið er frumvarp um breytingar á lögum um útboð á lyfjum. Þar fóru heildsalar mikinn gegn áformun stjórnvalda að auka samkeppni með þátttöku í norrænu samstarfi um útboð á lyfjum og ná fram sparnaði fyrir skattgreiðendur. Alþingi bárust kröftug mótmæli gegn þeim breytingum. Því var haldið fram að verið væri að kollavarpa starfsumhverfi fyrirtækja sem flyttu inn lyf. Ógna þekkingu á slíku starfi – fækka störfum og önnur gild og góð rök sem hagsmunasamtök nota. Þau vildu samkeppnismat á hvert fyrirtæki sem tæki þátt í slíku útboði. Að gætt yrði að mörgum þáttum til að ógna sem minnst stöðu íslenskra heildsala. Á þeim tíma mátti jafnvel segja að eitt fyrirtæki eða eigendahópur væri með markaðsráðandi stöðu.
Ég var einn þeirra þingmanna sem tók undir þetta sjónarmið vegna þess að ég tel að það verði að tryggja að allir sitji við sama borð og að tekið sé tillit til starfsumhverfis allra atvinnugreina. Um þetta má lesa í innsendum umsögnum og nefndaráliti á vef alþingis.
Hitt dæmið sem ég vil nefna er afstaða heildsala til frumvarps um aukið frelsi í verslun með áfengi. Þar lögðust heildsalar af miklum þunga gegn frelsinu. Hvers vegna? Jú þeir óttuðust að með auknu frelsi gæti ávinningur af innflutningi minnkað.
Nei umhyggja FA fyrir frelsinu er beint tengd hagsmunum. Með sama hætti snýst öll þessi barátta um starfsumhverfi landbúnaðar á Íslandi.
Í alltof langan tíma hefur framganga, eins og FA beitir ótt og títt, litað eðlilega umræðu um landbúnað og jafnvel um heilbrigða samkeppni á Íslandi.
Fjölbreytt atvinnulíf verður aldrei ef við ætlum að nota aðeins einn mælikvarða. Þannig verður vöndur atvinnulífs og byggðar á Íslandi að einu viðkvæmu blómi.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.