Aðeins tvennt hefði getað komið í veg fyrir verkföll í borginni. Að við héldum áfram að halda kjafti og vinna eða að borgaryfirvöld príluðu niður úr turninum sem þau dvelja í til að mæta kröfum okkar af réttlæti og sanngirni.
Hið fyrra er sögulegur ómöguleiki á þessari stundu. Hið síðara greinilega líka; hrörnun hugsjóna jafnaðarmennskunnar er svo langt gengin að jafnaðarmenn með áratuga reynslu af stjórnmálum geta talið sjálfum sér trú um að þeim komi kjaramál ekki við.
Rætur uppreisnar okkar ná langt niður í jarðveg þess samfélagsskipulags sem að við lifum í. Það verður varla dýpra komist. Láglaunakonur í umönnunarstörfum, hefðbundnum kvennastörfum, gera nú tilraun til að fá sjálfar að hafa eitthvað um það að segja hvernig vinnuaflið þeirra er verðlagt. Viðbrögðin eru auðvitað fyrirsjáanleg en ekkert minna ömurleg fyrir vikið. Aldraðir stjórar innan úr hreyfingu vinnandi fólks á Íslandi stíga fram og segja af mikilli alvöru: „Það þurfa alltaf einhverjar konur að vera á botninum og því er ekki hægt að verða við kröfum ykkar“. Menn sem að kenna sig við norræna jafnaðarmennsku, menn sem eru uppteknir við metnaðarfullar uppbyggingar á íþróttamannvirkjum, knattspyrnustúkum og keppnisvöllum, Bio-Dome og endurgerð Hlemmtorgs hrista höfuðið alvörugefnir: „Nú er þó allt of langt gengið, skilja þessar konur ekki að við einfaldlega getum ekki skipt okkur neitt af þeim eða tilveru þeirra?“ Menn sem kenna sig við gagnrýna hugsun ofar öllu segjast alltaf hafa stutt baráttu láglaunakonunnar en bara ekki núna, sökum þeirra aðferða sem beitt er. „Þegar hún getur loksins náð árangri blessunin, orðin herská og reið, ofbýður okkur einfaldlega hasarinn.“
Hér er ekkert pláss fyrir vangaveltur um stöðu konu sem hefur unnið frá unga aldri á útsölumarkaði kvenfyrirlitningarinnar. Ekkert pláss fyrir vangaveltur um ástæður þess að hún getur aldrei um frjálst höfuð strokið. Hvað þá samstöðu; hér er auðgljóslega ekki um að ræða konur sem klifið hafa metorðastigann. Hér getum við ekki skellt merkimiðanum „frumkvöðull“ á neina; aldrei hefur kona verið kölluð frumkvöðull fyrir að nota hendurnar sínar, heilann og hjartað til að sinna umönnunarstörfum. Hér er ekkert smart eða töff, bara láglaunakona með frekju. Hér er ekki pláss fyrir drauma um frelsi. Hér er frelsunin of dýr, láglaunakonan hlýtur að geta skilið það? Og aðferðirnar geta menn ekki samþykkt; markviss málflutningur og baráttuþrek hafa aldrei verið vænleg til árangurs, við skulum segja ykkur það!
Stundin er runnin upp: Tökumst allir hönd í hönd og höldum fast á málum: Það verður einfaldlega að stoppa þessar Eflingar-kellingar!
Samfélagsgerðin sem að við lifum inn í reiðir sig algjörlega á fólk í umönnunarstörfum, fyrst og fremst konur. Félagsleg endurframleiðsla er eins og Nancy Fraser segir „ómissandi bakgrunnsskilyrði svo að efnahagsleg framleiðsla geti átt sér stað í kapítalísku samfélagi.“ En þjóðfélagslegt mikilvægi allra þessara vinnandi handa er algjörlega falið, af ásettu ráði. Allar þessar sýnilegu hendur sem gera verðmætasköpun samfélagssins mögulega; þær eru verðmetnar eins og drasl. Þegar eigendur handanna segja: „Mér duga ekki launin mín til að sjá fyrir sjálfri mér,“ svarar æðsti yfirmaðurinn „Ég get skilið að það sé erfitt en þetta kemur mér samt ekki við.“
Allir þvo hendur sínar af því að bera ábyrgð á afkomu láglaunakonunnar á íslenskum vinnumarkaði. En hún skal þó á endanum bera ábyrgð á öllu. Höfrungahlaupi, verðbólgu, gengishruni; láglaunkonan sem hræðileg mara, ógæfa Íslands. Framkvæmdarstjóri SA, staðsettur efst á hrúgu efnislegra gæða, brjálast. „Framganga Eflingar eru svik við hagsmuni yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.“ Hagsmunir yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar eru að láglaunakonan haldi áfram að samþykkja að hún sé einskis virði. Allt annað er vanvirðing við Lífskjarasamninginn.
Á sama tíma, eða reyndar miklu fyrr, hafa háskólamenn þegar samið um Höfrungahlaup. Það gerðist um það bil hálfu ári eftir að Lífskjarasamningurinn var undirritaður. En það skiptir svo litlu máli að ekki einn einasti fréttamaður spyr formann BHM eða ráðherra hvernig standi á því að seint í október á síðasta ári hafi ríkið fært háskólafólki samning með innbyggðu höfrungahlaupi. Ekki einn einasti.
Við horfum yfir gjá sem virðist óbrúanleg, gjá búna til úr forréttindum og velmegun, skeytingarleysi og forherðingu, stéttskiptingu. Hinum megin við hana stendur fólk sem að ætlar ekki að sleppa af okkur takinu, sleppa okkur af útsölumarkaðnum. Alveg sama hvað við segjum, hvað við útskýrum. Samræmt heyrnaleysi valdastéttarinnar er svo magnað að það hlýtur að komast í sögubækurnar.
Rætur upprisunnar okkar ná langt niður í jarðveg þess samfélagsskipulags sem að við lifum í. Það verður varla dýpra komist. Þessvegna eru viðbrögðin svona ofsafengin. Þessvegna er afhjúpunin svona stórkostleg, hömluleysið svona magnað, heigulshátturinn svona mikill. Vegna þess að við erum komnar að rótunum, því sem að aldrei má hrófla við: Undirverðmetnu vinnuafli kvenna.
„Baráttan er bæði tækifæri og skóli,“ segja þær Cinzia Arruzza, Tithi Bhattacharya and Nancy Fraser, höfundar Femínismi fyrir 99%-in. „Hún getur umbreytt þeim sem að taka þátt í henni, endurmótað hugmyndir okkar um veröldina. Baráttan getur dýpkað skilning okkar á þeirri kúgun sem að við verðum fyrir – hvað orsakar hana, hverjir græða á henni, og hvað við verðum að gera til að brjótast undan henni.“
Stundin er runnin upp. Baráttan er okkar. Við hljótum að horfa bálreiðar um öxl. Við hljótum að bera höfuðið hátt. Allt sem að við eigum að baki mótar okkar, mótar afstöðu okkar. Við hljótum að hafna því að niðurstaðan í samtalinu um samfélagssáttmálann sé að við sjálfar, láglaunakonur í umönnunarstörfum, höfum aðeins eitt hlutverk í lífinu, að þola arðránið af fórnfýsi og undirgefni.
Við erum ekki fórnfúsar. Við erum ekki undirgefnar. Við vitum nákvæmlega hvers virði við erum fyrir samfélagið. Baráttuvilji okkar hefur vaxið og dafnað í því sjúklegu óréttlæti sem við höfum verið látnar þola. Nú er komið að því að við ætlum að fá það sem að við viljum. Og við þá sem að reyna að kremja baráttuna okkar, upprisuna okkar, höfum við þetta að segja: Við munum aldrei gefast upp.
Í augsýn er nú frelsi,og fyrr það mátti vera,
ný fylkja konur liðiog frelsismerki bera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í höndog höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á baken aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil.
Höfundur er formaður Eflingar.