Til hvers er reiðin? Á hún nokkurn tíma rétt á sér? Hvers vegna eru femínistar reiðir? Hvers vegna var Martin Luther King Jr reiður? Er ekki bara hægt að ræða málin?
Þegar samtöl sem áður voru þögul (og jafnvel í bakherbergjum) verða hávær er skiljanlegt að fólki bregði. Þegar fólk er skorað á hólm fyrir allra augum er það ögrun, dónalegt og óþægilegt. Hvað hefur borgarstjóri sér til saka unnið? Hvers vegna er Efling að grilla hann?
Kannski er það ekki Degi B. Eggertssyni að kenna að vinna sem konur unnu áður þegjandi og ókeypis sé enn undirborguð. Feðraveldið er ekki faðirinn sjálfur, það er stærra en svo. Stóra spurningin er hvað pabbi gerir þegar mamma vill ekki gera öll heimilisstörfin ókeypis lengur.
Í gær upplýsti þingmaður Pírata að hann stæði með láglaunafólki en ekki aðferðum stéttarfélagsins sem semur fyrir þeirra hönd. Borgarstjóri hefur þráfaldlega neitað að hitta starfsfólkið sitt sem er í samninganefnd Eflingar og segir þeim að samþykkja samning sem þau áttu engan hlut í að semja. Hann hefur sett réttlætið í nefnd og vill ekki hleypa því út. Framkvæmdastjóri SA kallar kjarabaráttu borgarstarfsmanna „svik við hagsmuni yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.“
Konurnar sem passa börnin leggja við hlustir. Þær geta ekki lifað á tekjunum af vinnu sinni. Það er ennþá álitið svik við samfélagið að breyta því. Þau reyna að láta í sér heyra á móti. En viti menn, á meðan starfsfólk leikskóla reynir að ná eyrum borgarstjórnar býður borgin Félagi kvenna í atvinnulífinu í veislu á Höfða. Jafnréttisbaráttan hefur greinilega misst af einhverjum stoppistöðvum, er komin bæði of langt og of skammt í einu.
Það er hægt að hlæja að þessu, það er hægt að fórna höndum og ákalla Guð. En það er líka hægt að verða reiður. Er þetta í lagi? Borgin er rekin með afgangi en vill ekki gefa hann eigin starfsfólki sem nær ekki endum saman. Borgarstjórn hampar jafnrétti en atyrðir baráttuna fyrir því. Stjórnmálastéttin, fólk sem fær milljón á mánuði og sjálfkrafa launahækkanir, skilur ekki að restin af heiminum þarf að fara í alvöru kjarabaráttu til að geta skrimt.
Málstaður borgarinnar er svo veikur að hún hefur kosið að segja hann ekki upphátt. Borgarstjóri, sem sér fram á 450 þúsund krónu sjálfvirka launahækkun á komandi samningstímabili, skaust í eitt skipti undan feldi til að klína ásökunum um „höfrungahlaup“ á starfsfólkið sitt. Hvað á það að þýða? Hefur borgarstjórnin ekki sjálfræði um eigin laun? Ber láglaunafólk ábyrgð á græðgi annarra? Er náttúrulögmál að lægstu laun geti ekki komist uppyfir framfærslu? Með svona bullmálstað að verja, og svona launakjör í sínum eigin vasa, er skiljanlegt að stjórnmálamenn hafi kosið að þegja.
Vandamálið í kjaradeilu Eflingar við borgina er nefnilega þetta: Allir eru sammála um að kröfurnar séu réttmætar, að borgin hafi efni á þeim, og að núverandi ástand sé óboðlegt. En það hefur líka náðst sátt meðal fólksins sem ákveður eigin laun að laun annarra skulu ekki hækka frekar.
Hvernig er þá hægt að verða annað en reiður? Hvernig er hægt að gera annað en að benda á hræsnina, sjálfumgleðina, gervifemínismann og plat-jafnaðarmennskuna?
Þetta hefur Efling gert, fyrir opnum dyrum og afdráttarlaust. Fólk hefur setið í hljóðeinangruðum bakherbergjum og beðið eftir að formaður Eflingar komi þangað að útkljá málin hljóðlaust. Það hefur ekki verið samþykkt. Öll samninganefndin hefur fengið að sitja samningafundi, kröfur Eflingar hafa verið birtar opinberlega og leynisamtöl hafa verið afþökkuð. Svarið hefur verið alger höfnun, dauðaþögn.
Maður hefði haldið að söguleg þátttaka í atkvæðagreiðslu um verkfall, og samþykki meira en helmings allra Eflingarfélaga að störfum hjá borginni, myndu gera út um samsæriskenningar um að félagið væri á einhverri ævintýraför eigin hugsjóna. Nú myndi fólk loks sjá að sér. Nei, þögnin heldur áfram. Í gær var síðasti samningafundur fyrir verkfall, þar sem ekkert þokaðist. Í dag, þegar verkfall hefst, hefur Fréttablaðinu tekist að hreinsa sig af öllum fréttum um það. Forsíða blaðsins er stór mynd af álft á Tjörninni.
Kellingin er farin að vera með læti, og kallarnir, af gömlum vana, ætla að humma það af sér. Á svona degi er ekkert annað hægt en að hampa reiðinni og baráttugleðinni, og fullvissunni um að samfélagið sé orðið vitrara en fólkið sem stýrir því. Í dag er verkfall, í dag verður ekki litið framhjá mikilvægi láglaunafólks borgarinnar. Það segir kannski sitt um það mikilvægi að á þriðja hundrað undanþága þurfti frá verkfallinu. Starfsfólkið sem nær ekki endum saman er svo mikilvægt að það má ekki hverfa frá í hálfan dag. Líf, heilsa og virðing samfélagsins reiðir sig á það.
Ég óska starfsfólki Reykjavíkurborgar sem í dag fer í verkfall alls hins besta. Samfélagið þarf þau. Þau eiga skilið sjálfstætt líf, heilsu og virðingu. Þau eiga skilið að á þau sé hlustað.