Uppsveifla efnahagslífsins sem hófst sumarið 2010 fjaraði út á nýliðnu ári. Nú er búist við að verg landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,2% á árinu. Orsök samdráttarins má rekja til minni umsvifa í ferðaþjónustu vegna gjaldþrots flugfélags sem síðan hefur haft áhrif víðs vegar um hagkerfið. Þannig er búist við að fjárfesting utan stóriðju, skipa og flugvéla dragist saman um 16% á milli ára (sjá Peningamál, 2019.4). Minni innflutningur mildaði áhrifin á landsframleiðslu en það var einkum innflutningur á fjárfestingavörum og varanlegum neysluvörum sem dróst saman.
Þannig má segja að samdráttur í ferðaþjónustu hafi kælt hagkerfið en innlendir aðila beint eftirspurn sinni í meira mæli að innlendri framleiðslu, dregið úr innflutningi, sem varð til þess að landsframleiðsla dróst ekki meira saman en raun ber vitni. En samdrátturinn kom fram á vinnumarkaði þar sem vinnustundum fækkaði, störfum fækkaði einnig og atvinnuleysi hefur hækkað. Góðu fréttirnar eru þær að vísbendingar eru um að samdrátturinn verði skammvinnur. Það eru líka góðar fréttir að verðbólga er nálægt verðbólgumarkmiði og verðbólguvæntingar sömuleiðis.
Orsakir samdráttar
Fækkun ferðamanna má rekja beint til falls flugfélags í marsmánuði. Hitt stóra flugfélagið átti einnig í nokkrum erfiðleikum vegna tæknilegra vandamála. Hins vegar er ekki augljóst að fall fyrra félagsins og tæknileg vandamál þess síðara geti ein útskýrt fækkun ferðamanna vegna þess að önnur flugfélög hefðu getað fyllt í skarðið og komið og fjölgað ferðamönnum.
Ein möguleg undirliggjandi ástæða þess að ferðamönnum hefur fækkað er sú að ferðamannastaðir fari í gegnum mismunandi „æviskeið“: Í upphafi koma ferðamenn sem uppgötva landið, þeir segja síðan öðrum frá og fleiri ferðamenn fylgja í fótspor hinna fyrstu, heimamenn fjárfesta í nýjum gististöðum og veitingastöðum og aukið framboð kallar á enn fleiri ferðamenn, markaðssetning eykst og vinsældir vaxa.
En svo kemur að því að fráhrindikraftar myndast, það verður þröngt á þingi á helstu ferðamannastöðum og upplifun ekki sú sama og gistirými skortir og það verður dýrt. Þá spyrst út að gisting sé dýr og fjöldi ferðamanna mikill og kannski heimamenn búnir að fá nóg af atganginum, orðspor landsins versnar og ferðamönnum tekur að fækka. Gististaðir verða ódýrari og fjárfestar geta orðið fyrir tjóni.
Önnur möguleg orsök samdráttarins er hár innlendur kostnaður sem stafar af því að meðallaun (raunlaun) eru hvergi hærri innan OECD, sjá Mynd 1 sem sýnir meðallaun fyrir OECD ríkin eftir að leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi. Hátt launastig minnkar samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna og hagnaður sem hlutdeild af þjóðartekjum verður lægri fyrir vikið. Á Mynd 2 er sýndur launakostnaður (laun og launatengd gjöld) sem hlutfall af virðisauka og er kostnaðurinn einungis hærri í Sviss og í Danmörku.
Mynd 3 sýnir raungengi sem er hlutfallslegt verðlag (miðað við viðskiptalönd) og hlutfallsleg laun. Þótt landið hafi orðið aðeins ódýra árið 2019 vegna lækkunar á gengi krónunnar haustið 2018 þá er það ennþá mjög dýrt og þarf að leita aftur til bóluáranna 2006-2007 eftir hærra hlutfallslegu verði og launum. Við komum nú að annarri líklegri ástæðu samdráttarins sem er hátt innlent verðlag og hátt launastig í samanburði við viðskiptalöndin.
Í töflu 1 er að finna hlutfall launa af rekstrartekjum í ýmsum undirgreinum ferðaþjónustu frá árinu 2003 til 2018. Hlutfallið hefur ekki ferið hærra á tímabilinu og hefur hækkað mikið síðustu árin. Launahlutfallið er nú 24.1% í farþegaflugi en var 16.2% árið 2003 og 12.4% árið 2013. Í rekstri gististaða er það 35.7% árið 2018 en var 32.3% árið 2013. Hlutfallið var 33.5% á veitingastöðum árið 2011 en er nú 39.7%.
Hár kostnaður innlendra flugfélaga gerir samkeppnisstöðu þeirra erfiða vegna þess að þau keppa við önnur flugfélög frá láglaunalöndum. Fall annars af tveimur stóru flugfélögunum í mars 2019 má þannig m.a. rekja til þess að verð á farmiðum stóð ekki undir rekstrarkostnaði. Fallið minnkaði síðan sætaframboð til landsins og komum ferðamanna fækkaði. En verðlag innan lands fælir einnig ferðamenn frá og ef innlend hótel og veitingastaðir lækka verð að gefnum launum þá bitnar það á hagnaði þeirra.
Lægra verð á hótelgistingu í vetur kemur væntanlega fram í verri afkomu þeirra. En þegar saman fara færri ferðmenn og há laun að viðbættum þeim launahækkunum sem samið var um í vor þá er grundvöllur undir rekstri margra fyrirtækja í ferðaþjónustu veikur. Fyrirtæki hagræða í rekstri um þessar mundir til þess að geta staðið undir kostnaði. Að sumu leyti er þetta jákvæð þróun, að veikustu fyrirtækin hætti reksti, önnur sameinist og dregið sé úr kostnaði og ekki er útlit fyrir meiriháttar skakkaföll og hrinu gjaldþrota í greininni þegar þetta er skrifað.
Framtíðarhorfur
Hagvexti í hálaunalandi eru skorður settar. Hagnaður sem hlutfall af þjóðartekjum er lægri og þá er hvati til fjárfestinga minni. Hátt hlutfallslegt verðlag veldur því að fyrirtæki búa við erfiða samkeppnisstöðu. Í útflutningi verður hagnaður minni og fyrirtæki í innflutningi fá samkeppni í gegnum netverslun og utanlandsinnkaupaferðir.
Hagkerfi þar sem laun eru há í samanburði við framleiðni fjárfesta minna innan lands og vaxa hægar. Þess í stað reyna þau að auka hagnað með því að hagræða og fækka starfsfólki með aukinni tækni eða með því að flytja störf til annarra landa. Þessi þróun er ekki alslæm, kostur hennar er sá að fyrirtækin auka framleiðni og ná kostnaði niður með hagræðingaraðgerðum.
Vesturlönd glímdu við atvinnuleysi og kreppu mestallan áttunda áratuginn í kjölfar hækkana á olíuverði á fyrri hluta áratugarins.
Í sumum löndum lækkaði kaupmáttur launa og atvinnuleysi jókst minna en í öðrum löndum lækkaði hann ekki og atvinnuleysi jókst mikið. Of hátt launastig, þ.e.a.s. of hátt fyrir fulla atvinnu, var þá talið vera vandamál sem rekja mætti til ósveigjanlegs vinnumarkaðar og sterkra verkalýðsfélaga sem ekki vildu gefa eftir í kaupkröfum. Sænski hagfræðingurinn Assar Lindbeck (1985) lagði á þessum tíma áherslu á að bilið á milli launa og framleiðni þyrfti að lækka til þess að atvinna gæti aukist.
Ekki ólíka sögu má segja af Íslandi nú í upphafi árs 2020 þegar atvinnuleysi fer vaxandi, kaupmáttur meðallauna er hærri en í öllum öðrum þróuðum ríkjum, launakostnaður fyrirtækja mikill en ýmis verkalýðsfélög krefjast engu að síður hærri launa og hóta verkföllum.
En hvað um launadreifinguna, meðaltölin segja ekki allt? Ef við röðum einstaklingum frá 1 til 100 þar sem einstaklingur 100 er með hæstar tekjur og einstaklingur 1 með lægstar ráðstöfunartekjur þá getum við notað hlutfall tekna einstaklings númer 90 og einstaklings númer 10 sem mælikvarða á ójöfnuð. Skv. tölum frá OECD er hlutfallið 3 fyrir Ísland árið 2014 og einungis lægra í einu landi, sem er Danmörk, með hlutfallið 2,9. Til samanburðar er hlutfallið 6,4 í Bandaríkjunum, 5,5 á Spáni, 5,0 í Grikklandi og 4,2 í Bretlandi.
Fátækt er einnig lítil samanborið við fátækt í öðrum löndum. Hlutfall þeirra sem hafa innan við 50% af miðtekjum (e. median income) var 6,5% árið 2014 en það var 17,5% í Bandaríkjunum, 10,5% á Bretlandi, 9% í Svíþjóð og Noregi og 6,8% í Finnlandi á sama ári (OECD). En það er ekki þar með sagt að auðvelt sé að framfleyta sér á lágum launum á Íslandi. Skert lífskjör koma þá fram í löngum vinnutíma og álagi og oft erfiðleikum á húsnæðismarkaði.
Fjölskyldur hröklast úr einu húsnæði í annað og fjárhagsáhyggjur eru viðloðandi. En lausnin felst þá ekki í launahækkunum sem stefna atvinnu í hættu heldur í auknu framboði á ódýru húsnæði og breytingum á skatta- og bótakerfum. Nýlegar breytingar á skattakerfinu eru í þessum anda.
Lokaorð
Á næstu misserum munu fyrirtæki hér á landi leitast við að lækka kostnað með aukinni tækni sem fækkar störfum og með því að flytja störf sem ekki krefjast staðbundinnar þekkingar til annarra landa. Hvorutveggja mun minnka atvinnu. Svo getur farið að þjóðin skiptist í tvo hópa, þá sem hafa vinnu og hina sem hafa ekki vinnu. Á meðan gæti hagvöxtur haldist lágur.
Staðan er ekki ósvipuð þeirri sem var á fyrri hluta tíunda áratugarins þegar fyrirtæki þurftu að venjast hærra vaxtastigi en raunvextir hækkuðu mikið frá níunda áratug fram á tíunda áratuginn, fyrirtæki sem ekki gátu mörg staðið undir hinum mikla vaxtakostnaði hættu rekstri (t.d. stór hluti Sambands Íslenskra Samvinnufélaga) og önnur hagræddu.
Þetta tímabil varði fram á lok áratugarins þegar lítil fjármálabóla, sem fólst í innflæði erlends fjármagns og auknum útlánum bankanna, bjó til hagvöxt sem svo fjaraði út árið 2001. Vextir eru nú lágir í samanburði við vexti tíunda áratugarins en þó mun hærri en áratugina tvo á undan, en launakostnaður mikill. Þetta ástand krefst einnig aðlögunar, að sum fyrirtæki hætti rekstri og önnur endurskipuleggi sig, tækni leysi starfsfólk af hólmi og störf séu flutt úr landi. Við sjáum allt í kringum okkur fyrirtæki leggja niðurstörf og tölvur koma í staðinn.
Stjórnvöld geta brugðist við þessu ástandi á tvennan hátt. Í fyrsta lagi gætu þau reynt að lækka gengi krónunnar til þess að auka hagnað fyrirtækja, einkum í útflutningi. En á þessari leið eru ýmsir meinbugir. Í fyrsta lagi er ekki víst hvernig unnt væri að lækka gengi krónunnar. Beinasta leiðin væri sú að Seðlabankinn byrjaði að kaupa gjaldeyri á ný en slíkt væri kostnaðarsamt fyrir hið opinbera.
Vaxtalækkun gæti haft gengisáhrif en lágir vextir í öðrum löndum myndu draga úr gengisáhrifum vaxtalækkana. Jákvæður viðskiptajöfnuður og hagstæð eignastaða gagnvart útlöndum hefur hækkað jafnvægisgengið og skapað traust á gjaldmiðli sem minnkar líkur á gengisfalli. Í öðru lagi er unnt að bíða eftir því að fyrirtæki hafi hagrætt nægilega mikið til þess að hagnaður aukist sem gerir þeim kleift að auka fjárfestingu og þar með hagvöxt. En slíkt ferli getur tekið fjölda ára. Þeim tíma er þó ekki sóað, fyrirtæki bæta rekstur sinn, en hagvöxtur kann að vera lítill um stund.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu, 17. janúar. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.