Hvenær verðum við sem þjóð tilbúin að taka alvöru umræðu um kjaramál? Umræðu sem snýst um sanngirni og hvernig við í sameiningu viðurkennum og styðjum við þær stéttir sem sinna mikilvægri grunnþjónustu í samfélaginu. Nú er Efling í viðræðum við Reykjavíkurborg um kjarasamning og vísar þar til þess að borgin hefur samið við aðra hópa um ákveðna leiðréttingu. Af hverju er ekki hægt að viðurkenna að ófaglærðir starfsmenn á leikskólum fái leiðréttingu á mikilvægu framlagi sínu til uppeldis næstu kynslóða þar sem þessir starfsmenn ganga í störf sem ekki er hægt að manna með fagfólki?
Við verðum sem samfélag að átta okkur á að lægstu laun ófaglærða duga ekki til þess að sinna grunnþörfum til lengri tíma og vinna að því að leiðrétta þann mismun sem í þessu felst. Efling hefur sýnt rækilega fram á þá ósanngirni sem ófaglærðir starfsmenn búa við í launakjörum og fer fram á ákveðna leiðréttingu sem ætti ekki að þurfa að hreyfa við forsendum lífskjarasamnings þar sem um sértæka aðgerð er að ræða og við ættum öll að vera sammála um að skiptir miklu máli.
Kaupmáttur hefur aukist á undanförnum árum sem er frábært og við finnum öll fyrir því að það munar miklu að hafa stöðugt verðlag og styrka hagstjórn. Á þeirri braut eigum við að halda áfram og tryggja stöðugleika og horfa til lengri framtíðar. Ef við sem þjóðfélag viðurkennum að „launagólfið“ er of lágt og vinnum að því að hífa upp lægstu launin til þess að lægstu tekjuhóparnir finni líka fyrir kaupmáttaraukningu þá mun okkur vegna vel.
Hið margumtalað höfrungahlaup lýsir ekki kjarabaráttu Eflingar þar sem kauphækkun eða ásættanleg leiðrétting vegna þess framlags sem ófaglærðir starfsmenn leggja til samfélagsins mun ekki hafa þau áhrif á hagstjórn eða önnur markmið lífskjarasamnings að nota þurfi það viðmið sem felst í höfrungahlaupi þegar rætt er um kjarasamninga. Það eru engir höfrungar í Eflingu en kannski mætti kanna hvort þar finnist mörgæsir?
Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og fulltrúi í miðstjórn ASÍ.