Þriðjudaginn 11. febrúar var haldinn aðalfundur GRÓ, sem eru samtök um tengsl heilsu við raka og myglu. Af fréttum má ráða að vandinn vegna myglumyndunar í húsnæði hérlendis sé mikill og flókinn. Hér er um mjög sérstætt fyrirbæri að ræða, afleiðingar myglunnar eru heilsufarslega alvarlegar, en orsakir virðast lítt greindar né skýrðar. Því hlýtur sú spurning að vakna: hvers vegna er málið ekki tekið fastari tökum af opinberri hálfu, hvers vegna er ekki hafin heildstæð opinber rannsókn á umfangi þess húsnæðis þar sem mygla hefur myndast, fjölda sýkinga og jafnframt reynt að komast að byggingatæknilegum orsökum raka innan húss? Ekki virðast heldur til tölulegar upplýsingar um fjölda mygluskaðaðra húsa, umfang sjúkdóma af völdum myglu, né upplýsingar um aðgerðir til handa þeim er sýkjast.
Í byrjun þessarar aldar fór að bera meira á myglugróðri víða í húsum hér á landi en áður var þekkt. Í kjölfar myglunnar fylgdu ýmis sjúkdómseinkenni þeirra er störfuðu eða bjuggu í viðkomandi húsnæði. Orsök þess eru öreindir (gró myglunnar) sem berast frá henni út í andrúmsloftið. Sum gró bera í sér eiturefni, og gró yfirhöfuð, geta valdið ýmsum ofnæmis- eða sjúkdómseinkennum fyrir vissa viðkvæma einstaklinga.
Lítið fór fyrir þessum myglufaraldri fyrstu árin, var sennilega þá mest áberandi í íbúðarhúsum, þar sem eigendur höfðu ekki áhuga á að auglýsa hann. Með tímanum fer myglan þó að valda vandamálum í opinberum byggingum og byggingum stærri fyrirtækja, þar sem margir störfuðu. Urðu þá sjúkdómsvandamálin meira áberandi, atvinnurekendur urðu með ýmsum ráðum að leysa vandamál starfsmanna sinna. En þó að myglufaraldurinn hafi nú þróast með auknum þunga í heilan áratug, hafa yfirvöld lítt sinnt honum, ekki sett í gang rannsóknavinnu hvorki til þess að greina hann né leysa.
Einnig hafa fréttir eða upplýsingar um þróunina eða umfang vandans lítt verið kannaðar né upplýsingastreymi verið stofnuð. Helst er að finna upplýsingar frá byggingardeild Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, en henni stýrir Dr. Ólafur Wallevik. Honum hefur ofboðið afskiptaleysi byggingaryfirvalda gagnvart málefninu eins og fram kemur t.d. í viðtali hans og Kjartans Guðmundssonar lektors við Stokkhólmsháskóla við Morgunblaðið í júlí 2017.
Þá nefnir hann nokkur dæmi af höfuðborgarsvæðinu, þar sem mygla hefur komið fram, svo sem Íslandsbankahúsið á Kirkjusandi, sem varð að tæma, svo og hús Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var hæð hjá Vegagerðinni tæmd vegna myglu, tilfelli kom fram á Landsspítalanum, í ráðuneytum, ýmsum skólum og svo má lengi telja. Ólafur segir í viðtalinu, að merkilegt sé meðan ráðuneytin berjist við vandann, fáist ekki fjármagn til þess að rannsaka orsakir hans. Þarna segir hann Íslendinga t.d. vera langt á eftir Svíum og tekur Kjartan Guðmundsson undir það, í Svíþjóð sé líka mögulegt að fá tryggingar.
Nú liggur það í augum uppi að hér er um það stórt vandamál að ræða, að ekki dugir eingöngu að ræða það og semja um einstakar óskilgreindar skaðabætur. Þegar skaði verður í byggingum af völdum myglu, og ekki síst ef það leiðir til heilsuskaða, er rannsókn á orsökum óhjákvæmileg.
Hvað mygluvandamálið varðar er um tvenns konar orsakasamband að ræða. Annars vegar er það byggingartæknilegt vandamál, þar sem mygla myndast á innra byrði húsa, sérstaklega útveggjum vegna raka, hins vegar er myglan eða gró hennar orsök sjúkdómseinkennanna. En grunnlausn heildarvandans er sú byggingatæknilega, þ.e. hvernig koma má í veg fyrir innan húss rakann.
Sjúkdómseinkennin hafa orðið tilefni til umræðna, þar sem orsakir þeirra geta verið margs konar og þekking jafnframt af skornum skammti. Þar hafa stór orð fallið, talið af ýmsum að um ímynduð einkenni sé að ræða. Ekki skal um það deilt, en benda má t.d. á skýrslu Alþjóðaheilsustofnunarinnar, World Health Organization (WHO) þar sem fram kemur í samantekt, að nægjanlegar sannanir séu fyrir hendi, úr rannsóknum frá ýmsum löndum og við mismunandi loftslagsskilyrði, að íbúar í rökum og myglugrónum byggingum, hvort heldur íbúðabyggingum eða opinberum þjónustubyggingum séu í aukinni áhættu að fá öndunarfærasjúkdóma vegna áhrifa myglu. Í lok síðasta árs tilkynnti Landlæknir að embættið hefði skipað vinnuhóp, til þess að gera tillögur um lausn vandans, enda höfðu mygluskaðar fundist í húsnæði embættisins.
En sjúkdómseinkennin vegna myglu eru afleiðing en ekki orsök vandamálsins. Takist að koma veg fyrir myglumyndunina í byggingum er málið leyst. Því er nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að innan húss myndist svo mikill raki, að mygla geti myndast og þrifist. Raki í húsum er flókið fyrirbæri, hann getur myndast af mismunandi ástæðum. Erlendis, í hlýju tíðarfari (og verulegum loftraka), er algengt að raki falli út á veggjum innanhúss, því þar er kaldara en úti. Því kaldara sem loft er því minni raka ber það. Hlýrra loft sem berst inn í kalt hús kólnar og rakinn fellur út á köldum veggjunum. Þá eykur eins og kunnugt er ýmis starfsemi innanhúss eins og böð og eldamennska enn á þennan vanda, ef húsnæðið er ekki nægilega vel loftað. Notkun loftkælingar eykur þessa hættu.
Útveggir í byggingum á Íslandi eru jafnan úr steinsteypu. Steinsteypa á að vera vatnsþétt en líklegasta skýringin á orsökum bleytu á innri byrði útveggja er að vatn berist gegn um vegginn t.d. í gegn um hársprungur eða hárpípur eða annars konar vatnsleki er fyrir hendi svo sem þakleki, lek útveggjaklæðning, lek vatnsrör o.þ.u.l. Hliðstætt vandamál var rannsakað í sambandi við alkali- og frostskemmdir í útveggjum húsa á tuttugustu öldinni, sérstaklega á tímabilinu 1956-1981. Þetta var rannsakað þá af Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins fyrir Steinsteypunefnd. Þar sem útveggir íslenskra húsa eru venjulega úr steinsteypu var augum beint að gerð hennar og skemmd hús tekin til skoðunar. Í ljós kom, að útveggirnir innihéldu mikinn raka. Frost- og alkalískemmdir koma aðeins fram, ef steypan hefur verulegt rakainnihald. Miðað við íslenskar veðuraðstæður, t.d. öflugt slagregn, var beint vatnsflæði gegn um steypuna talin líklegasta orsök svo mikils raka.
Niðurstöður Steinsteypunefndar um þetta efni eru skráðar í bókinni:
Í ljósi vísindanna, saga hagnýtra rannsókna á Íslandi, rit III í ritröð Verkfræðingafélags Íslands árið 2005, á bls. 259 – 260.
Þar stendur um gerð og hrærslu steinsteypu: „Við hrærsluna þarf sérstaklega að huga að magni þess vatns sem notað er. Sem viðmiðun er stuðst við þyngdarhlutfall milli sements og vatns, þannig að vatnið sé um helmingur þyngdar sements í hrærunni. Á byggingarstað má ekki breyta þessu hlutfalli með auknu vatnsmagni þó að steypan gangi illa í mótin. Slíkt verður best lagað með bættri kornasamsetningu steypuefnanna. Þó að steypan sé komin í mótin er gerð hennar ekki lokið. Gæta verður að hún þorni ekki of fljótt út og því má ekki slá mót of fljótt frá.“
Síðar á bls. 267 – 268 í sömu bók kemur fram: „Rannsóknirnar sýndu að upptaka vatns í útveggjasteypu var mikil og í ósamræmi við viðteknar skoðanir. Ástæður vatnsóþéttleika á þessum árum eru ekki nægjanlega skýrðar, en kenningin um að alkalískemmdir kæmu ekki fram í íbúðarhúsum byggðist á nægjanlegum vatnsþéttleika útveggjasteypu. Sömu lögmál gilda um frostskemmdir og eftir því sem menn töldu sig nálgast lausn í alkalímálinu var sjónum og rannsóknum í ríkara mæli beint að öðrum skemmdavöldum og bættum gæðum steinsteypunnar í heild sinni. Rannsóknirnar sýndu að frostskemmdir voru útbreiddar svo og hönnunar- og þurrkrýrnunarskemmdir. Nærtækast er að kenna steypugæðunum um flestar þessar skemmdir. Helst má ætla að of mikið vatn hafi verið notað við gerð steypunnar, sem veldur því að hún sogar í sig vatn. Skortur á aðhlynningu og að mótum hefur verið slegið frá of snemma veldur einnig þurrkrýrnun og örsprungum, sem valda vatnsísogi.“
Frost- og alkalívandamálið var svo á sínum tíma leyst með íblöndun possólanefna í sementið, steypan var aftur á móti áfram óþétt fyrir vatni. Það virðist hafa haft þær afleiðingar að áfram hefur steypti útveggurinn safnað í sig vatni og mygluvandamálið varð til. Það er því löngu kominn tími til þess að gera gangskör að álíka rannsókna-framkvæmdum og gerðar voru hjá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins á árunum allt fram til 1990 og nefndust „ástandskönnun á húsum“ og „innri gerð steinsteypu“, verði fram haldið, til þess að fá það endanlega staðfest, hvers vegna steypan hefur ekki nægan vatnsþéttleika eða að annars konar vatnsleki, svo sem leki úr vatnsleiðslum eða gegn um þök eða utanhúss klæðningar, sé fyrir hendi. Í því samhengi er mikilvægt að vísa til fyrrnefndrar rannsóknar Stokkhólmsháskóla frá árinu 2018 og niðurstaðna hennar (á ensku):
„This study investigated moisture problems in the typical Icelandic exterior wall regarding the risk of condensation and mould growth on the interface of the concrete and insulation. The following conclusions were drawn according to the assumptions made throughout this work.
Simulation results indicate that there is no condensation at the interior surface of the concrete in the Icelandic wall.
The Icelandic wall had ex-treme variations in temperature ranging between -7°C in the wintertime up to 29°C in the summertime.The total water content of the Icelandic wall does not dry out and is between 28 and 36 kg/m2 with Icelandic concrete.“
Að lokum er rétt að vísa til bókunar fulltrúa Sjálfstæðis- og Miðflokks í borgarstjórn Reykjavíkur á síðasta ári um mygluvandann í skólum borgarinnar í þessu tilviki Fossvogsskóla. Bókunin hljóðaði svo:
„Langvarandi fjársvelti meirihlutans í Reykjavík hvað snýr að viðhaldi á húseignum borgarinnar er nú að birtast í þeirri myrku mynd sem nú blasir við. Þetta ástand er afleiðing af uppsöfnuðum viðhaldsskorti og rangri forgangsröðun í stjórn borgarinnar. Ljóst er að endurskoða þarf alla verklagsþætti og verkferla er varða úttektir á skólahúsnæði og setja fram raunhæfa áætlun um endurbætur og viðhald. Ljóst er að fara þarf í allsherjarúttekt á skólahúsnæði í borginni í ljósi þeirra tilvika sem komin eru upp. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa nú þegar lagt fram tillögu þess efnis í borgarráði,“ segir enn fremur í bókun sjálfstæðismanna í umhverfis- og heilbrigðisráði.
Hér koma fram fullyrðingar um orsakir myglugróðursins, sem vantar rökstuðning rannsókna á viðkomandi byggingum. Miðað við túlkun fyrri rannsókna væru byggingargallar, svo sem hárpípuís og steypu eða leki gegnum vatnsleiðslur, þök eða utanhúss klæðningar, líklegri orsök myglunnar en skortur á viðhaldi og sýnir enn og aftur nauðsyn þess, að vönduð rannsókn fari fram á myglusköðuðu húsnæði, í Reykjavík og öðrum stöðum landsins.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála Sementsverksmiðju ríkisins.