Það er einkennileg upplifun að fylgjast með kjarabaráttunni. Álengdar heyrist tal um frekjudolluna í fararbroddi Eflingar. Þessa með óraunhæfu kröfurnar, sem er manna spenntust að klappstýra liðinu beint í verkfall. Nenni ekki einu sinni út í þá augljósu sálma hvernig sömu raddir myndu óma ef Sólveig væri karlmaður. Hún væri í það minnsta titluð eitthvað annað en frekjudolla! Það er líka súrt, já og súrrealískt, að fylgjast með borgarstjóra vorum draga lappirnar í þessari kjarabaráttu, hvort sem er í orði eða á borði. Öll ljós kveikt en enginn heima?
Stoppum aðeins og veltum þessu fyrir okkur: Alls starfa um 1.850 starfsmenn í Eflingu hjá Reykjavíkurborg. Að baki margra þeirra eru börn og fjölskyldur. Áður en lengra er haldið þá er vert að taka eftirfarandi fram: Þó grein þessi sé skrifuð með konur í aðalhlutverkum, þá er tilgangur hennar ekki einungis að styðja við konurnar, heldur einnig þá karlkyns starfsmenn, sem starfa hjá borginni.
Þau rök hafa heyrst að ekki þyki sanngjarnt að fólk, sem ákveður að ganga menntaveginn, standi uppi með há námslán til að borga af, á meðan þeir sem kjósa að fara beint út á vinnumarkaðinn þurfa ekki að borga af slíkum lánum. Fyrir mér er þetta ekki mjög flókið. Það er enginn neyddur til að ganga menntaveginn, í þessari grein ætla ég í það minnsta að gefa mér það. Hins vegar eiga ekki allir þann kost að ganga menntaveginn.
Svo er það krafa menntaða fólksins um launamuninn. Borgarstjórinn okkar þreytist seint á að útskýra fyrir almúganum að félagsmenn annarra stéttarfélaga eigi seint eftir að samþykkja þann litla mun sem verður á launum faglærðra og ófaglærðra, fái Efling sínu framgengt. Hann telur þannig líklegt að fleiri verkföll muni fylgja í kjölfarið. Með öðrum orðum: Ófaglærða fólkið þarf að fara að hætta þessu væli og sætta sig við „lífskjarasamningana“. Langbest væri auðvitað að öldurnar færi að lægja sem fyrst, svo okkar maður fái að hjóla átakalaust áfram.
En förum endilega „menntaleiðina“.
Við skulum í augnablik gefa okkur það að margir þeirra, sem velja að ganga menntaveginn, vilji af einhverjum ástæðum ekki vinna í einu þeirra fjölmörgu starfa sem tilheyra láglaunastéttinni. Á einungis að hampa þeim sem ganga menntaveginn? Eru tækifærin og hugsjónirnar einungis þeirra að eiga?
Og hvað með börnin? Getum við aðeins stoppað og hugað að því hver áhrif launa eru á börnin? Viljum við að hér alist upp börn, sem upplifi sig minna virði en önnur börn? Finnst okkur í lagi að hér séu börn, sem búi alltaf við skort, dæmd til að þurfa alltaf að sætta sig við minna? Langar okkur að búa í samfélagi þar sem til eru börn, sem upplifa kvíða og streitu, því þau fylgjast með buguðum foreldrum sínum skrimta, dag eftir dag? Eiga börn lögfræðingsins ein skilið að búa við öryggi, heita máltíð á kvöldin og upplifanir á borð við ferðir til útlanda? Eiga örlög barna ræstingakonunnar sjálfkrafa að vera þau að suma daga er ekkert nesti til fyrir þau að taka með í skólann, eða að þurfa að geyma skóladótið í plastpoka því mamma hefur ekki efni á að kaupa skólatösku handa öllum systkinunum? Eru það einungis börn þeirra hærra launuðu sem eiga að fá að njóta þeirrar gleði að halda afmælisveislu? Eiga börn láglaunaðra foreldra kannski bara að læra að halda kjafti og skilja að sumir fá að halda afmæli en aðrir ekki? Þurfa þau kannski bara að reyna að troða því inn í sína litlu, þrjósku hausa að mamma og pabbi hafa ekkert helvítis efni á að halda eitthvað afmæli? Eigum við að taka þessa umræðu í tengslum við afmælisgjafir, jólagjafir eða fermingargjafir t.d.?
Hvað með allt láglaunastarfsfólkið, hver svo sem ástæðan er fyrir því að það er hluti af téðri láglaunastétt? Er það fólk minna virði en fólk sem tilheyrir öðrum launastéttum? Þetta fólk vinnur ekki léttvæga vinnu. Staðreyndin er sú að vinnan þeirra er gríðarlega mikilvægur hlekkur í að samfélagið okkar gangi upp. Ég efa stórlega að margir geri sér grein fyrir því álagi sem hvílir á þessu starfsfólki. Eða ábyrgðinni sem oft er lögð á herðar þess. Ábyrgð og álag, líkamlega jafnt sem andlega. Þykir engin ástæða til að launaseðill þessa fólks endurspegli þessa ábyrgð og virði þetta álag? Kæra Reykjavíkurborg, hvar er viljinn til að meta starfsfólkið ykkar að verðleikum? Týndur og tröllum gefinn? Eða er hann enginn? Kannski bara miðfingur upp og áfram gakk?
Og hvað gerist þegar enginn fæst til að sinna þessum störfum, hvað þá? Það er löngu ljóst að það eru ekki allir tilbúnir að taka að sér störf láglaunafólks, þá sér í lagi nefni ég umönnunarstörf, en sjálf get ég vottað fyrir að fordómar ríkja gagnvart þessum störfum og það getur samstarfsfólk mitt líka. Ég hef ekki töluna á því hversu oft ég hef „réttlætt“ veru mína í starfinu. Ég hef líka margsinnis verið spurð hvort ég ætli ekki að fara að leita mér að annarri vinnu, líkt og það sé af og frá að ég gæti haft áhuga á minni vinnu. Það virðist fráleitur, í hugum margra, sá möguleiki að ég hafi gagn og oft á tíðum meira að segja gaman af vinnunni minni.
Verum bara heiðarleg í smástund. Margir líta svo á að störf sem þessi séu fyrir neðan þeirra virðingu. Þetta eru sannarlega þeir sem líta niður á konuna í mötuneytinu og finnst hún minna virði en þeir sjálfir. Þetta eru þeir sem átta sig ekkert endilega á, eða nenna yfir höfuð að spá í, mikilvægi þess að til staðar sé fólk sem sér til þess að passa upp á hreinlæti afa og ömmu á öldrunarheimilinu. Sjálfir myndu þeir nefnilega aldrei geta hugsað sér að inna slík störf af hendi. Svo eru aðrir sem hafa einfaldlega ekki skrokkinn í þessi störf, hvorki andlega né líkamlega. Enn aðrir vilja starfa við annað. Þrátt fyrir að launin hækki, líkt og Efling fer fram á, þá verður alltaf til fólk sem tikkar í áðurnefnd box og mun ekki sækja um þessi störf. Þó svo að Reykjavíkurborg sýni í verki að virðing sé borin fyrir t.d. öllu ræstingafólkinu sem þar starfar og sjái til þess að sú virðing endurspeglist á launaseðlum, þá verður samt alltaf til fólk sem mun aldrei sækja um þessi störf.
Eða...
Þykir sanngjarnara að Jóna, einstæð móðir, með tvö börn á leikskóla, sinni sínum átta tíma vinnudegi, komist í tæka tíð til að sækja börnin á leikskólann, en þurfi svo frá að hverfa og reiða sig á pössun fyrir börnin, því aukavinnan kallar?
Hvað með börnin sem fá ekki að vera börn, þessi sem þurfa sífellt að hlaupa undir bagga með foreldrum sínum, bera ábyrgð á heimilinu alltof snemma og passa upp á systkini sín? Því við skulum alveg átta okkur á að ekki hafa allir það svo gott að eiga traust bakland að leita til!!!
Væri ekki glæsilegra af Reykjavíkurborg, í það allra minnsta ögn mannúðlegra, að sjá umræddri móður fyrir launum - sanngjörnum launum - sem gera henni kleift að lifa með reisn, án þess að þurfa sífellt að hafa áhyggjur af því hvernig eða öllu heldur hvort aurinn mun endast út mánuðinn? Jafnvel að hún gæti átt eitthvað aukalega til að leggja fyrir? Þannig að Jóna og börn hennar gætu átt kvöldstundina saman og hún þannig átt tækifæri til þess að vera til staðar fyrir börnin sín? Þykir kannski bara frekja að fara fram á slíkan „munað“?
Þykir sjálfsagðara, af því að Stína fór ekki í háskóla, af ástæðum sem við vitum ekkert um, að hún geti bara sjálfri sér um kennt?
Er hún þar með dæmd til að sætta sig við ömurlega afkomu alla tíð, svo við tölum nú ekki um frítímaleysið og fjarveruna frá maka og börnum, vegna allrar aukavinnunnar sem hún hefur ekki efni á að segja nei við?
Kannski var Lóa alin upp af fátækum foreldrum og menntun því aldrei komið til greina fyrir hana.
Kannski hefur Gunna alltaf átt erfitt með að læra og því aldrei haft trú á getu sinni í þeim málum.
Svo gæti líka vel verið að Möggu hafi ekkert langað til þess að mennta sig.
Og hugsa sér, ef til er sá einstaklingur sem heimsótti ömmu og afa í æsku og langaði allar götur síðan að vinna við að hlúa að þeim öldruðu.
Hver svo sem ástæðan er, kemur okkur hinum hún eitthvað við? Varðar okkur um þær ástæður sem liggja að baki? Væntingar fólks til lífsins eru misjafnar. Eru einhverjir draumar minna virði en aðrir draumar? Hver hefur annars réttinn til að dæma þar um? Er það ekki merki um einhvers konar hroka eða yfirlæti að taka sér slíkt dómarasæti?
Menntuð eða ómenntuð, eigum við ekki að heita jöfn? Það er enginn maður betri en annar. Það er engin manneskja annarri æðri. Alveg sama hversu mörgum háskólagráðum viðkomandi kann að geta flaggað. Seigur biti fyrir einhverja að kyngja, en verði hann þeim að góðu engu að síður.
Höfundur er með BA-gráðu í sálfræði og starfar hjá heimaþjónustu Reykjavíkurborgar.